laugardagur, 16. júlí 2011

Föðurhús þann 17. júlí 2o11.

Svona byrjuðu oft bréfin í þann tíð er engar tölvurnar vóru!

Hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það, og má alveg fullyrða að svo sé rétt. Þessvegna ætla ég að leyfa mér það að halda því fram að litla stelpan mín sem á afmæli í dag skari fram úr öðrum snótum í mínum augum! ---Þar sem ég sit núna og læt hugann reika upplifi ég komu dóttlunnar í heiminn, og þrátt fyrir að vera ósköp bág var hún strax fallegust. Við það ætla ég að halda mig og ekki orð um það meir. ---Afhverju er ég að brölta með þessi skrif á blogginu mínu? Einfaldlega vegna þess að mig langar til þess. Ég er alveg óhrædd að segjast elska dóttluna, bæði við hana sjálfa og aðra. Hví skyldi ég þá ekki leyfa mér að blasta því hér? Þessi litla hnáta sem þurfti svo mikið að hafa fyrir lífinu fyrstu vikurnar er mér efst í huga núna. Hún sýndi það strax að hún var baráttujaxl, og gaf lítið eftir ef svo bar undir, og nú lá lífið við. Hún ætlaði ekki að láta í minni pokann, enda stóð hún uppi sem sigurvegari. Ég lít ennþá á hana sem sigurvegara. Hún yfirvann nefnilega svo margt sem erfitt er að leggja á litlar manneskjur, allt gerði hún það með bjartsýnisgleraugun á nebbanum, hvikaði aldrei. Þegar hún þurfti "pepp" nú þá vorum við til þjónustu reiðubúin og alltaf á vaktinni eðlilega. Þessi litla hnáta óx úr grasi sem ábyrgur og heilbrigður einstaklingur með hjartað á réttum stað. Dálítið utan við sig á stundum og átti það til að "týna" hlutum....eða eigum við kannski að segja að "gleyma" hlutum? En hvað svosem eru vettlingar, eldhússigti, nafnskírteini (þegar mikið lá við) og fermingarföt í stóra samhenginu? Kröfur hefur daman aldrei gert, bað um 100 kall fyrir tyggjói og skilaði svo afganginum. Bleik og dömuleg föt voru ekki nógu hentug fyrir hana, of skítsækin. ( Mamman reyndi þó mikið og oft.) Lærði á endanum að frökenin hafði sinn eigin fatasmekk og þar kom minn smekkur ekki til greina, en alltaf var hún fín. Líka þegar hún kom fram obinberlega í smókingnum af pabba sínum og í skyrtu af Torfa. Tíminn leið, hún varð okkar besti félagi á ferðum okkar í útlöndum, og við sáum allt í gegnum hennar gleraugu. Líka þegar heyrðist hátt í stjörnunum, þá göptum við bestimann af hrifningu. Einu sinni sáum við hana dágóðan spöl frá okkur húkandi á hækjum sér og fólk dreif að og nánast húkti líka. Þá var mín að skoða maura við vinnu og hóaði bara í næstu menn til að sýna þeim undrið og gleðjast með sér. Svona hefur dóttlan mín verið alla tíð. Á auðvelt með að hrífast með og fá aðra til að taka þátt í gleðinni. Auðvitað er hún ekki alltaf á skemmtivaktinni, en fjandakornið, það er stutt í hana. Nú er hún að upplifa allt þetta í gegnum sína syni, og er fljót að tileinka sér þeirra hugsunarhátt. Hún er nefnilega alveg þrælflottur uppalandi. (Ég held samt að hún velji ennþá á þá föt og komist upp með það!) Síðustu mánuðir hafa ekki verið auðveldir fyrir dömuna mína. Svo mikið hefur gengið á í kringum hana að mér/okkur hefur ekki alltaf staðið á sama. En...enn og aftur kemur í ljós hversu mikill baráttujaxl hún er.......Hún stendur uppi með pálmann í höndunum. Alveg sama hvernig jörðin snýst í kringum hana, hún skal gera gott úr öllu. Því bið ég þess að nú fari útlegð míns elskulegar tengdasonar að ljúka og hann komi hress heim í lítið blátt hús. Svanfríður mín á semsagt afmæli í dag og ég tek ofan fyrir henni á allan hátt. Hjá henni er góðvinkona íslensk og munu þær þeytast um í orði og borði eins og enginn sé morgundagurinn.--- Langar til að vera fluga á vegg þar til næst. Hjartans mín, til hamingju með daginn.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hana Svanfríði þína frænka. Ég ætla að leyfa mér að óska mér líka til hamingju með hana . . þvílíkur lukkupottur að hafa kynnst henni og ykkur.

Ég er glöð að eiga ykkur að.

Kveðja Inda

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég hef aldrei glatað neinu....þetta er allt á vísum stað.Staðirnir eru aftur á móti ófundnir.

Takk fyrir mig:)Elska þig.

Frænka-sömuleiðis.

Íris sagði...

Til hamingju með hana Svanfríði hún er svo sannarlega flott stelpa. Takk fyrir að deila með okkur þessum fallega pistli. Gaman að lesa hann.

Ragnas sagði...

Ég óska þér innilega til hamingju með dóttluna þína. Þið megið svo sannarlega vera stolt af henni Svanfríði ykkar. Ég er svo sæl að hafa fengið að kynnast henni. Það lýsir henni vel að hafa haft frumkvæði að því að komast í samband við "gömlu" konuna á blogginu - ekkert kynslóðabil. Mér þykir óendanlega vænt um það.
Hjartans kveðja með góðum óskum til ykkar allra.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með flottu stelpuna þína Gulla mín.
Kv. Elsa Lára.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með dóttur þína Gulla mín, hún er sko heldur betur að standa sig!
Ég gladdist mikið þegar ég frétti af heimsókninni til hennar því ég hef hugsað mikið til hennar undanfarið en komst því miður ekki í heimsókn í þetta skiptið....en koma tíma og koma ráð, það skal takast einhvern daginn!
kv. Helga

Nafnlaus sagði...

Já hún Svanfríður stendur svo sannarlega fyrir sínu,það hefur hún margsinnis sannað,til hamingju með hana.Kveðjur Ásta.

Frú Sigurbjörg sagði...

Hún Svanfríður þín er mikið yndi og á vafalítið ekki langt að sækja það.