laugardagur, 20. ágúst 2011

hremmingar í rénun

Já, ég þarf ekki annað en að horfa á snúðana mína til að lífið gangi betur, að ég tali nú ekki um stóra snúðinn sem keyrir ungana. Eftir síðustu inngjöf var allt í góðum gír þrátt fyrir allt, og sárin komu í munninn á nokkurnveginn réttum tíma. Í stað þess að hverfa á tveimur dögum fékk ég sýkingu í allan munninn, út í eyru og langt niður í "vil ekki segja hvert". Þá fór nú að syrta í álinn og dugnaðurinn að dvína, því ef ég fæ ekki að borða er voðinn vís. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá er ég loksins að verða frú Guðlaug aftur, enda ekki seinna að vænna, næsta inngjöf er eftir helgi, og þá verð ég að vera orðin nógu góð til að takast á við hana.

Ég er hreinlega farin að hallast að því þessi sýking hafi kannski ekkert með inngjöfina að gera, það virðast margir þjást af öndunarfærasýkingum þessa dagana. ---Við þessi skrif mín er eins og ekkert skemmtilegt gerist, en það er öðru nær því lífið er skemmtilegt, nú og svo styttist í Ameríkuferð. Ætlum auðmjúklega að lofa tengdasyninum að lenda almennilega áður en innrás tengdaforeldranna hefst. Með því að horfa á allar fallegu myndirnar sem ég á af fólkinu okkar bestimanns hvetur það mig til frekari dáða, og segir mér að hætta öllu röfli, og kyngja hvort sem ég get það eður ei þar til næst.

11 ummæli:

Kristbjörg sagði...

Þú ert yndisleg Gulla mín og jákvæðnin skín af þér í gegnum allt eins og hún hefur alltaf gert. Knús á þig mín kæra.

Elísabet sagði...

Skemmtileg mynd af snúðunum þínum:)

Vona að allt gangi að óskum hjá þér í baráttunni. Pabbi minn er að fara í gegnum svipaða meðferð núna, og hef ég því fengið nasasjón af þessu óbermi.

Íris sagði...

Þegar eitthvað angrar mann í munninum og á stöðum sem við viljum ekki nefna ;) þá getur maður bara hreint orðið gaga. Vona að næsta inngjöf fari betur með þig.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Elsku mamma mín..góð mynd af strákunum.Ertu búin að setja hana í ramma? Hún lýsir þeim svo vel:) En nú er inngjöf númer 6 búin og því styttist þetta núna sem betur fer.Elska þig...Svanfríður.

Egga-la sagði...

Baráttukveðjur frá Noregi.

Frú Sigurbjörg sagði...

Snúðarnir frábærir og þú eðal!

Lífið í Árborg sagði...

Það þarf sannarlega sterk bein til að þola svona meðferð en þú seiglast áfram. Ég veit að þú ert ekki ein um að fá þessi leiðindi í munninn, þekki fólk sem er ekki í neinni meðferð en hefur samt liðið svona eins og þér.
Það verður sannarlega gaman þegar þið getið sameinast ykkar snúðum og snældum.
Góðar kveðjur frá mér og kisunum.

Nafnlaus sagði...

Ég dáist af jákvæðninni í þér, held að ég sé ómeðvitað farin að fara hérna inn til að hressa mig við því það er ekki annað hægt en að vera jákvæður og bjartsýnn þegar maður er búinn að lesa sig í gegnum pistlana þína.
Ég ætla ekki að minnast á gæsahúðina sem spratt fram þegar ég las um fyrirhugaða Ameríkuför. Það verður yndislegt fyrir ykkur að hittast. Gangi þér og þínum allt í haginn!
kv. Helga

Nafnlaus sagði...

það var nú aldeilis fínt að rekast á bónda þinn við landspítalann í gær, hefði viljað hitta þig líka, en því miður voruð þið sennilega horfin þegar ég koma aftur út, en vonandi hitti ég á þig síðar, gaman að lesa skrifin þín og fylgjast með gangi mál, óska þér góðs gengis
kv. Kristrún

Nafnlaus sagði...

Yndisleg skrifin þín(þó tilefnið sé ekki fallegt!).En dugnaðurinn og bjartsýnin mun örugglega hjálpa mikið til í þessari baráttu.Gangi þér allt í haginn,ég óska ykkur til hamingju með að Bert skuli vera kominn heim.Þið hljótið að vera búin með ykkar "skamt" bæði tvö. Kv.Ásta.

Ragna sagði...

Það eitt er víst Guðlaug mín, að þú lætur sko ekki slá þig út af laginu, enda lagviss kona.
Ég vona að það fari verulega að styttast í Ameríkuferðina og þú getir lagt þetta allt að baki þér og þið tekið saman fjörugt lag.
Kær kveðja til þín duglega kona.