fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Vegurinn styttist

Jæja, í morgun hófst nýr kafli í lyfjagjöfinni. Uppfull af sterum sit ég hér og trúi varla að þetta sé yfirleitt að gerast, en samt er ég farin að telja niður! Er sem sagt hálfnuð. ---Húrra fyrir því.--- Lyfin sem ég fæ núna eru öðruvísi en trukklyfin sem ég hef fengið, og vonandi léttari.Var sett í frystihanska til að bjarga nöglunum, og það var fjandakornið doldið vont. Líkamshitinn í mér var þó það góður að skipta þurfti þrisvar um hanska. Eftir blóðprufuna sem var tekin áður en lyfin voru blönduð í mig sýndi að ég tek þessu alveg ótrúlega vel. Orðrétt sagði læknirinn að ég væri sko ekki til vandræða.... ég ætla að minna mitt fólk á þetta nokkuð reglulega! Ég þarf ekki ennþá 7-9-13 að fara í milliblóðprufu, gildin mín eru ennþá það góð. ---Húrra fyrir líka.--- Þetta hefur örugglega eitthvað með gildismatið að gera! Ein hliðarverkun getur fylgt svona miklum steragjöfum, og þetta er ekki lygi. Verslunar-æði getur gripið fólk, og þá sér í lagi konur! Bestimann dreif mig því beint í náttstað eftir inngjöfina svona til vonar og vara, og hann hefur mikinn hug á að fara snemma af stað með mig heim á morgun, og mig sem vantaði svoooo margt. Jæja, koma tímar og koma ráð, og kann ég margar leiðir að góðum ráðum. En nú er ég heimaskítsmát...eldrauð og þrútið steratröll sem langar helst að smíða á nóttinni kann ekkert annað ráð en að þrauka þar til bara næst elskurnar mínar. Læt þó eitt Húrra fylgja í lokin og bið ykkur að fagna með mér.


12 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Auðvitað fögnum við þér og það hátt! Takk fyrir spjallið í dag.Koss,Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

Þú stendur þig vel Gulla mín, áfram þú!
kv. Helga

Nafnlaus sagði...

Sko ekki minna en ferfalt HÚRRA fyrir þér. Þú ert svo frábær elsku vinkona mín. Stórt knús á þig og þinn, þetta er Bara frábært. Hlakka til að hitta þig :) Magga

Íris sagði...

Frábært og mörg húrra fyrir þér og manninum sem heldur þér frá búðunum í steravímunni ;)

Nafnlaus sagði...

Húrra Gulla mín alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt

húrra fyrir ykkur Bert ,klettinum og bestmann

kv Anna Lilja

Lífið í Árborg sagði...

Ég segi líka húrra fyrir ykkur öllum, það fer ekkert á milli mála að þú ert upptendruð af sterum, hef heyt og séð áhrifin af þeim. Bestimann gerði rétt að keyra bara framhjá búðunum, það verður svo skemmtilegt að fara og versla þegar um hægist. Gangi þér vel mín kæra, þetta lofar góðu. Bestu kveðjur frá okkur í kisukoti.

Elísabet sagði...

Flott hjá þér, kjarnakona!

Ragna sagði...

Það er nú ekki spurning að við fögnum með þér hverju skrefi sem þú tekur í átt að fullkomnu heilbrigði. Sterana þekki ég, er búin að vera á þeim síðan í haust. Skapið á til að sveiflast svolítið, bæði upp og niður. Gott að hafa bestimann sér við hlið og láta hann leiða þig framhjá óþarfa freistingum.
Kær kveðja til ykkar í fjörðinn fagra.

Lífið í Árborg sagði...

En ég skil ekki af hverju þú þarft að vera í þessum ísvettlingi, er hætta á að neglurnar skemmist við lyfjagjöfina?

Nafnlaus sagði...

Já Þórunn, til að ég missi ekki neglurnar. Kærust í kotið, Gulla

Lífið í Árborg sagði...

Ja flest er nú í boði í þessari meðferð.. en þú sleppur auðvitað við svona aukaverkanir, það er ég viss um.
Bestu kveðjur til ykkar bestimann.

Frú Sigurbjörg sagði...

Fagna innilega með háu húrrahrópi!