laugardagur, 11. febrúar 2012

Hér kem ég!



Eins og ætlaði mér að vera dugleg við skrifin hefur lítið orðið um efndir. Jæja, það eru allir á fésinu og bloggið orðið gamaldags. Læt það þó ekki stoppa mig í strjálum skrifum, er ekki á fésinu, er ekki með heimabanka og kann ekki að nota punktana mína! ---Þoli ekki svona punktavesen. Af hverju er bara ekki hægt að selja vöruna á réttu verði og sleppa þessum punktum? Ég/við sennilega fljúgum klofvega á uppsöfnuðum punktum okkar bestimanns vestur um haf, ekki slæm tilhugsun það. Þarf bara að fá punktaleiðsögn. Ég er svooo illa nútímaleg í svo mörgu. Ég vil t.d. geta hringt í sölumann flugferða og hann ráðið framúr minni för. Frumskógarleitin á netinu hugnast mér illa. Ég vil líka borga mína reikninga hjá góðu konunum í bankanum mínum, ekki í gegnum alheiminn. Vil hafa þetta auðvelt, en samt lifa í nútímanum. Mér er varla viðbjargandi á þessum sviðum. Annars gengur lífið hér á bæ sinn vanagang. Ég stunda mína vinnu, en finn að töluvert vantar upp á fyrra úthald. En, þetta kemur hægt og sígandi með hækkandi sól. Sennilega verð ég nokkurn tíma enn að komast yfir aukaverkanirnar, en hárið vex, hrokkið, þykkt og marglitt, en táneglurnar láta á sér kræla. ---Í myndagrúski á dögunum fannst þessi mynd hér að ofan, og hvað ég skemmti mér vel við að skoða. Við erum þarna tvær að syngja á Borginni með hljómsveit og alles. Kjólaverslun í Reykjavík klæddi okkur upp og allt var voða elegant. Vorum líka í síðkjólum og með feikna hárgreiðslu og önnur lekkerheit! Eftir því sem ég best veit höfum við flest sem þarna vorum gert tónlistina að starfi, allavega hefur hún skipt gríðarlega miklu máli í okkar lífi. Við höfðum listrænan leiðbeinanda því vorum bara unglingar. Sá var flinkur píanisti og kunni allt. Ég hugsa til hans með virðingu. --- Hér í bæ er til hljómsveit sem heitir því yndislega nafni Hilmar og fuglarnir. Innanborðs eru "gamlir" jaxlar sem kunna sitt lítið af hverju, þar á meðal bestimann. Þeir spila nokkrum sinnum á ári og halda sé þannig í æfingu. Núna eru þeir búnir að spila á þremur þorrablótum og verið býsna líflegir í gömlu dönsunum. Það er nefnilega viss kúnst að halda uppi gömludansa stuði. ---Á næstunni verður svo ball þar sem hluti af Hilmari og fuglunum munu leika fyrir dansi... Ég ætla að reyna að smygla mér þar inn.... Það er altso fyrir leikskólana... Fyrst á réttunni og allt það. Guð hvað ég held að verði mikið fjör, því allt er svo auðvelt, opið og yndislegt þegar fólk er í leikskóla. ---Fer oft á yndislega planið með yngstu nemendum mínum. Á dögunum þegar ég var að útskýra fyrir einum stubbi þjóðlög. Hann kom strax með skýringuna í fjórum orðum. Guð bjó til þjóðlögin! Þar með segi ég amen þar til næst.

7 ummæli:

Íris sagði...

Yndisleg mynd af þér. Ef þú lendir í vandræðum með punktana þá gætir þú hugsanlega fengið þér sprett á skutlunni og komið við hjá föður mínum. Hann er ótrúlega flinkur bæði á svona tölvuviðskipti og punktasystem :) Viss um að hann mundi hjálpa þér fyrir hálft orð.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ein af mínum uppáhalds myndum af þér.Mér finnst þú svo flott og skæsleg þarna:)
Ohh hvað mér finnst gaman að heyra þetta með leikskólann og jálkana (nei djók, þeir eru það ekki neitt:) ) Ég hlakka til að heyra hvernig það fer. Elska ykkur. Heyrumst.

Frú Sigurbjörg sagði...

Frábær mynd Guðlaug og haltu svo bara áfram að halda í það sem þú vilt, eins og að fara í bankann en ekki á facebook. Er ekki nýja hárið bara soldið eins og eigandinn; fer sínar eigin leiðir og er yndislegt eins og það er? : )

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa bloggið þitt Gulla mín:) og mikið sem é ger sammála þér með þetta punkta vesen og allt það! Mér finnst einmitt skrítið að þurfa að borga meira ef starfsmaður aðstoðar mig við að kaupa mér farmiða heldur en ef ég geri þetta sjálf á netinu. Til hvers eru þessi fyrirtæki þá með starfsmenn? Ef þetta væri svona í Nettó, hvað þá? Ætli maður gæti þá borgað minna ef maður næði sjálfur í vöruna inn á lager og renndi henni í gegnum skannann við kassann? Þetta er pæling!
Ég myndi vilja vera fluga á vegg þegar Hulmar og fuglarnir fara að spila fyrir balli á leikskólanum! Það verður örugglega svakalega gaman :)

Knús í kotið!

Nafnlaus sagði...

Sorrý en ég gleymdi að kvitta hér fyrir ofan :)

Kv. Arna Ósk

Beta sagði...

Þessi mynd er æði.Skvísan!

Lífið í Árborg sagði...

Það er svo upplífgandi að lesa bloggið, sama hvort þú skrifar oft eða sjaldan. Fer nú ekki að líða að annari heimsókn ykkar í STÓRA bláa húsið? Bestu kveðjur..