Frúin doldið úfin, en það er ekki gott að gera, þetta er svo sjálfstætt hár. Fór í mína fyrstu klippingu á dögunum og fannst ég vera voða stór stelpa. Er líka búin að fara í fótsnyrtingu með gasalega fáar tásluneglur, en það var samt gott. Það er líka gott að puttaneglurnar eru ekki lengur brúnar, hafa vaxið í rólegheitum fram hvítar og fínar. ---Ég ákvað á sínum tíma að skrifa mig frá hlutunum og hef staðið við það. Líður betur með það einhverra hluta vegna, og mér finnst bloggið mitt ekki vera verri staður en annar til að leyfa huganum að ráfa. Ég veit um marga sem hafa gengið í gegnum svona hremmingar án þess liggur við, að nokkur fái pata af því hvernig þeim líður, og að skrifa þetta á veraldarvefinn er guðlast hjá mörgum. Jamm, sem betur fer erum við misjöfn, en ég er viss um að ferlið er auðveldara ef maður lokar ekki allt og læsir inni. ---Í fimm ár á ég að taka eina pillu á dag svo ég verði nú alveg örugglega laus við allan óþverra. Margar konur ( þær sem þola téða pillu) kalla hana demantinn. Jæja, hörkukellan ég gafst endanlega upp á demantinum. Gaf honum þriggja mánaðar séns.... búið spil.... Varð gjörsamlega ómöguleg eins og amma mín sagði stundum. Það þýddi ekki gott. Núna er ég á 11. degi án "grjótsins" ( ekki demantur) er fír og flamme og stekk á milli stóla eins og hind. Dofi í puttum og tám á verulegu undanhaldi, og frúin bara dafnar. Systurlyf verð ég sett á og ku konur þola það betur. Vonandi á það um mig. Það er með ólíkindum að það skuli þurfa hálfdrepa mann til að koma manni á lappirnar á ný. ---Annars er allt í góðu, kennsla og kórastarf gefa mér það sem þarf til að viðhalda huga og hönd og við bestimann erum farin að huga að Ameríkuför með snemmsumarsskipunum, því þar er fólk sem við þráum að faðma. Seinna í þessum mánuði fer ég í fyrstu skoðun eftir meðferð og ég er viss um að hún kemur vel út, mér líður þannig. Á leið minni suður ætla ég að drekka kaffi í stóru bláu húsi. Það er gott að eiga góða að í litlu bláu húsi og stóru bláu húsi þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Gott að heyra að allt gengur vel og þú að fá góða orku. Ég er svo sammála þér með að það sé gott að nota heimasíðuna sína til þess að skrifa sig frá því sem liggur á manni, bæði því góða og slæma. Ég hef líka orðið vör við fordómana og veit að fólk furðar sig á því að maður þurfi alltaf að vera að setja allt á prent. Ef okkur líður betur að skrifa okkur frá hlutunum þá á öðrum ekki að koma það við.
Við höldum bara okkar striki Guðlaug mín. Mikið væri nú gaman ef þið hafið það góðan tíma í borginni í næstu ferð að þið gætuð kíkt aðeins í Kópavoginn - Ekki hika við að hringja og kanna hvort ég er heima. (868 6753)
Kærust kveðja til ykkar í fjörðinn fagra.
Já ég er svo glöð fyrir þína hönd að þér líði betur eftir að hafa hætt á þessum töflum. Vonandi verður næsti skammtur betri fyrir þig. Ég hlakka svo mikið til að sjá ykkur í sumar því við þurfum að faðma ykkur! Har det bra, þín dóttir.
Kollurinn er kannski óstýrilátur en hár-prúður er hann. Ég tek undir með Rögnu; við getum ekki stjórnað því hver les bloggin okkar og í hvaða tilgangi, mér þykir vænt um að geta fylgst með þér hér og vonandi fæ ég að sjá þig aftur, fyrr en síðar, í e-i bæjarheimsókninni.
Kær kv. til Bróa : )
Góðan dag. Jóhanna heiti ég og er Bragad. en alltaf kölluð Sísí. Er feisbókar vinkona Svanfríði ykkar. Dásamleg ung kona :) Mikið er gott að sjá að þér er farið að líða betur.
Ég er fegin að þú skrifar um krabbann og öllu sem honum fylgir. Mér finnst nauðsyn að þetta sé dregið fram í dagsbirtuna.
Ég greindist með brjóstakrabbamein í Jan. s.l. og fór í aðgerð. Í kjölfarið var ég sett á þessa pillu, og segi eins og þú. Hún er bara ekki að gera sig fyrir mig.
Vonandi komist þið í litla bláa húsið fljótlega :)
Kv. frá Klettafjöllunum.
Sísí
Mér finnst hárið á þér virkilega flott. Það er nú aldeilis gott að demanturinn skuli eiga systur, vonandi verður hún betri við þig. Ég er farin að hlakka til að fá ykkur í stóra bláa húsið, verið hjartanlega velkomin.
Kveðja frá Palla og mér.
Sammála þér bloggið er ekki verri staður en hver annar til að koma hlutunum frá sér. Betra að losna við þá en að hafa þá sem stóran, þungan klump í maganum eða á herðunum. Mér finnst hárið flott. Vona að systir demantsins fari betur í þig. Gangi þér vel.
Iss, kærðu þig kollótta um hvað aðrir segja um bloggið. Þetta er þín leið, þitt blogg. Og það er nú ekki eins og þú sért nokkurn tíma með einhver leiðindi, alltaf jákvæð og bara mannbætandi að lesa það sem þú hefur að segja:)
Skrifa ummæli