laugardagur, 21. apríl 2012
"Tíminn líður....
áfram og hann teymir mig á eftir sér" söng Jökull svo fallega á vortónleikunum í gærkvöldi. Hef svosem aldrei "spáð" mikið í Megas, og ef eitthvað þá hef ég átt erfitt með að "höndla meistarann". Hins vegar ét ég margt ofan í mig, karlinn er klár! --- Nú er mikill kraftur í vorverkum Hornfirðinga, tónleikahrina framundan og leikfélagið að frumsýna. Það er gaman að vera þátttakandi í samfélaginu þegar svona vel viðrar! Nú er orðið ljóst að við bestimann fljúgum ekki í lítið blátt hús, en við ætlum að fljúga í það hús sem litla fjölskyldan mín velur sér. Í gamla daga, þegar ég var ung var talað með mikilli virðingu um fólk sem hafði ferðast. Það var siglt. "Hann er nú sigldur þessi".. mikil lotning fólst í þessum orðum. Þegar við bestimann verðum búin endaþeysast þetta verður örugglega hægt að segja með lotningu: Hér koma sigldu hjónin! -- Ef Megas reynist sannspár í textanum þá flýgur tíminn áfram og teymir okkur með sér alla leið til Victorville á vit ævintýra sem búa í litlum strákum. -- Skólinn er á síðasta sprettinum með öllu tilheyrandi, tónleikaferð með karlakórnum framundan, Stakir Jakar eiga sína tónleika eftir og Gleðigjafarnir líka. Af þessu má sjá að tíminn flýgur áfram, og gott ef ég næ í skottið á honum. --- Sólskálinn er tilbúinn fyrir sumarið og rósirnar þjóta upp...og næst á dagskránni er að reyna betur við matjurtakassann. Hann einhvernveginn dó bara í höndunum á mér...blómkálið svona nokkurnveginn leystist upp og litlir angar af einhverju skutu upp kollinum. Núna duga engin vettlingatök, skítur skal sóttur og bingó....allt fer að vaxa. Mér þykir helv... hart ef ég get ekki ræktað annað en graslauk í þessum annars fína sandkassa þeirra Getchell bræðra. Þar til næst óska ég ykkur gleðilegs sumars.
föstudagur, 6. apríl 2012
O jamm og já!
Já þetta vex og vex og allt í krullum og sveipum. Bráðum get ég sveipað þessu öllu fram og til baka. -- Ég var búin að eyða mikilli orku og svefnléttum nóttum í að kvíða fyrstu skoðun eftir meðferð, en viti menn: alveg óþarfi, er í góðu lagi, og meira að segja algjörlega vandræðalaus, og þar af leiðandi engum til ama....að sögn læknisins, og hann veit sko alveg sínu viti! -- Næst ætla ég að reyna að vera ekki svona mikið kvíðastrá. Ég fór keyrandi suður og var ein á ferð í miklum spar-akstri. Drakk kaffi hjá góðu fólki í stóru bláu húsi á Selfossi og keyrði svo í glaðasólskini Þrengslin og ullaði á þokuna á heiðinni. Þar sem ég vissi fyrir löngu hvenær ég færi suður (ok í vestur!) komst ég bæði í óperuna og á Vesalingana. Undur og stórmerki, það er eitt orð yfir það. Hvað erum við annars mörg á Íslandi? Í óperunni geng ég út frá því sem vísu og veit að þar er valinn maður í hverju horni. Auðvita eiga allir sína daga, en aldrei hef ég orðið fyrir vonbrigðum. Eins var það núna. --- Ég veit líka að við eigum vel menntaða og færa leikara, en að þeir skuli líka vera fantasöngvarar er náttúrulega algjör bónus. Ég sat nánast ofaní gryfjunni og fékk kökk í hálsinn og varð aftur barn sitjandi þar sýningarnar út. Eftir svona veislur verður mér orða vant, og allt kvart og kvein verða eitthvað svo ljótar athafnir. Það er nefnilega svo margt fallegt í kringum okkur. --- Eftir páska hefst lokasprettur í skólanum og á öllum kór-vígstöðvum, en með fyrstu sumarskipunum ætlum við bestimann að leggja íann vestur um haf, en hvar við lendum endanlega verður bara að koma í ljós. Ég er að verða aðframkomin af söknuði eftir mínu fólki og lái mér hver sem vill, og hana nú þar til næst. ------------Gleðilega páska.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)