föstudagur, 6. apríl 2012

O jamm og já!

Já þetta vex og vex og allt í krullum og sveipum. Bráðum get ég sveipað þessu öllu fram og til baka. -- Ég var búin að eyða mikilli orku og svefnléttum nóttum í að kvíða fyrstu skoðun eftir meðferð, en viti menn: alveg óþarfi, er í góðu lagi, og meira að segja algjörlega vandræðalaus, og þar af leiðandi engum til ama....að sögn læknisins, og hann veit sko alveg sínu viti! -- Næst ætla ég að reyna að vera ekki svona mikið kvíðastrá. Ég fór keyrandi suður og var ein á ferð í miklum spar-akstri. Drakk kaffi hjá góðu fólki í stóru bláu húsi á Selfossi og keyrði svo í glaðasólskini Þrengslin og ullaði á þokuna á heiðinni. Þar sem ég vissi fyrir löngu hvenær ég færi suður (ok í vestur!) komst ég bæði í óperuna og á Vesalingana. Undur og stórmerki, það er eitt orð yfir það. Hvað erum við annars mörg á Íslandi? Í óperunni geng ég út frá því sem vísu og veit að þar er valinn maður í hverju horni. Auðvita eiga allir sína daga, en aldrei hef ég orðið fyrir vonbrigðum. Eins var það núna. --- Ég veit líka að við eigum vel menntaða og færa leikara, en að þeir skuli líka vera fantasöngvarar er náttúrulega algjör bónus. Ég sat nánast ofaní gryfjunni og fékk kökk í hálsinn og varð aftur barn sitjandi þar sýningarnar út. Eftir svona veislur verður mér orða vant, og allt kvart og kvein verða eitthvað svo ljótar athafnir. Það er nefnilega svo margt fallegt í kringum okkur. --- Eftir páska hefst lokasprettur í skólanum og á öllum kór-vígstöðvum, en með fyrstu sumarskipunum ætlum við bestimann að leggja íann vestur um haf, en hvar við lendum endanlega verður bara að koma í ljós. Ég er að verða aðframkomin af söknuði eftir mínu fólki og lái mér hver sem vill, og hana nú þar til næst. ------------Gleðilega páska.

8 ummæli:

Elísabet sagði...

Gleðilega páska:)

Ragna sagði...

Aldeilis að hárið á þér vex og svona líka flott. TIL HAMINGJU Guðlaug mín með góðu fréttirnar. Alveg dásamlegt að heyra. Jákvæðni þín og dugnaður hefur örugglega átt stóran þátt í góða batanum þínum.
Hjartans kveðja til ykkar og Gleðilega Páska.

Íris sagði...

Vá æðislegar krullur! Til hamingju með skoðunina, frábært. Já,við Íslendingar eigum svakalega mikið af frábæru listafólki. Það hljóta að vera hafið og jöklarnir sem veita okkur allan þennan innblástur. Skil að þig verki orðið af söknuði eftir fólkinu í litla bláa húsinu. Ég er farin að hlakka til að sjá mitt fólk. Eftir 18 daga fæ ég foreldrana í heimsókn og hlakka svo mikið til að vera með þeim og sýna þeim umhverfið sem við búum í. Knús í hús.

Frú Sigurbjörg sagði...

Gleðilega krullupáska kæra Guðlaug!

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju með góða skoðun. Dugnaðurinn í þér að keyra þetta ein !! Þú ert kjarnakona :)
Og mér finnst hárið flott !

Páskakveðjur frá okkur á Sjónarhól.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Mamma. Þú getur flogið hingað til USA. Þú þarft ekki að koma með skipi.

Nafnlaus sagði...

Yndisleg færsla hjá þér Gulla mín!
Bestu kveðjur,
Árdís

Nafnlaus sagði...

Yndisleg færsla hjá þér Gulla mín!
Bestu kveðjur,
Árdís