sunnudagur, 15. júlí 2012

Og tíminn flýgur.....





Skil ekki frekar en fyrri daginn hve hratt tíminn líður. Við erum komin á seinni hluta yndislegrar dvalar hér í bláa húsinu. Snúðarnir mínir eru hörkunaglar sem skilja mælt mál á tveimur tungum. Það er dásamlegt að fylgjast með málþroskanum. Natti minn veit að maður segir smámunAr í stað piece of cake! Þeir kunna vísur og faðirvorið, allt uppá punkt og prik. Ég tek ofan nýja sólhattinn minn fyrir henni dóttur minni, eljunni við að halda þeim við efnið. Það er nefnilega bara hún ein sem talar málið við þá, og þess vegna væri svo auðvelt að sleppa þeim við að læra það.  Natti litli er bara fimm síðan í vor, en hann er víkingur til allra verka og skarpur. Hann vílar fátt fyrir sér, en er einnig blíður og góður. Eyjólfur stóri snúður er hugsuður og ferlega klár, blíður og góður. Þeir bræður mega helst ekki af hvor öðrum sjá, en geta líka verið hundleiðinlegir hvor við annan innanum og samanvið. Eðlilegustu snúðar og bestastir auðvitað, og flottir á brettunum eins og myndin sýnir. Dagarnir líða semsagt, og áður en litið verður um öxl sitjum við bestimann í flugvél heim á leið. Í næstu viku ætlum við að skreppa til San Diego og fara með Greyhound rútu! Eyjólfi mínum líst ekki of vel á þetta ferðalag gömlu hjónanna, gætum misst af lestinni einhversstaðar. Við bestimann verðum því kannski eins og farþegarnir sem maður sá í gömlum bíómyndum, það er "stórskrítnir" ferðalangar í Greyhound.....en þar til næst ætla ég að halda áfram að hafa það sem best og sendi ljúfastar yfir hafið.

4 ummæli:

Lífið í Árborg sagði...

Mikið er gaman að heyra hvernig lífið gengur fyrir sig þarna fyrir vestan, það er greinilega drauma veður og drauma strákar sem þið eigið. Til hamingju með afmæli Svanfríðar í dag, það verður örugglega fjör hjá ykkur.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Elska þig mamma mín.

Ragna sagði...

Já þeir eru flottir strákarnir og Svanfríður auðvitað hetjan að halda þeim svona vel við að tala íslenskuna. Það er meira en að segja það þegar börn eru komin í leikskóla og skóla og farin að hugsa á öðru tungumáli. Allt er þó hægt með ákveðninni og seiglunni. Njótið dvalarinnar áfram sem hingað til.
Kær kveðja til ykkar allra.

Frú Sigurbjörg sagði...

Það er fínt að ferðast með Greyhound, vona að það hafi verið skemmtilegt ferðalag fyrir ykkur. Að sjálfsögðu er Svanfríður frábær, hún er jú alin upp af ykkur ;-)