þriðjudagur, 18. september 2012

App!



Jæja, aldrei fór það svo að ég settist ekki niður. Eins og ég hef gaman af að skrifa og lesa það sem aðrir skrifa rennur upp fyrir mér að ég er alls enginn bloggari. Þeir hafa nefnilega svo mikið að gera við að skrifa um allt mögulegt. Ég vil helst ekki skrifa um ofurlaun, svik, pretti og gróðrabrask....ég bara tuða um það út í loftið, en það get ég sagt ykkur hátt og í hljóði að mér er ofboðið á flestum sviðum og hana nú. Ekki vil ég t.d. verða dregin fyrir dómstóla fyrir bloggskrifin mín, og þori varla að anda á fésinu sem ég stelst stundum í í gegnum bestimann. Með öðrum orðum, ég er ekki góð í þessu en mér líður samt ágætlega með það.-- Skólinn hafinn, kartöflur uppteknar, kæfu- og sultugerð líka og kálið mitt í snúðakassanum varð ætt. Mætti halda að hér byggju fleiri en tveir að staðaldri. Ég er líka búin að rífast við Símann, náði loks lendingu við Gigtarfélagið í dag og fer til sjúkraþjálfa bráðum og heimta svo af almættinu að ég verði eins og danska meri kóngsins eftir þetta alltsaman!!! Minna má það ekki vera. ----Undanfarin nokkur sumur hef ég verið að berjast við blaðlús í rósaskálanum, mér til mikils ama, en rósunum ekki til skaða. Nú bar svo við í sumar að hún lét ekki sjá sig.... og ekki heldur hjá nágrannanum okkur til ómældrar gleði. Undur náttúrunnar eru mikil, og er ég orðin þess viss að veðráttan yfir veturinn hefur mikið um þetta að segja. Það var ekki einu sinni maðkur í öllum trjágróðrinum.-   Núna er ég búin að vaða úr einu í annað, og heita þessi skrif belgbiðurugl, en þar til næst bið ég alla um að passa upp á sig og sína.

5 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Danska meri kóngsins? Þessi samlíking er dásamleg. Luf jú.

Ragna sagði...

það er svo fínt að "vaða úr einu í annað" Persónulegt og ljúft. Ég sendi þér góða strauma og hlakka til að fá fréttir af þér fljótlega. Er sjálf að fara að hitta meistarann okkar í kjallaranum á morgun. Spennt að vita hvað hann segir um framhaldið.
Sendi ykkur Bróa mínar bestu kveðjur.

Íris sagði...

Mér finnst bara virkilega gaman að lesa svona belgiíbiðupistil :)

Lífið í Árborg sagði...

Ég er svo ánægð þegar ég les svona pistla eins og þennan, er nefninlega á sama róli og þú, fjasa bara við minn bestimann um allt ruglið í þjóðfélaginu en skrifa svo hversdagslega pistla um ferðir okkar og göngutúra. Erum að fara í Opið hús hjá öldruðum á Selfossi, það á ljómandi vel við okkur. Bestu kveðjur frá okkur Palla.

Frú Sigurbjörg sagði...

Það er einfaldlega best að lesa sjálhverf blogg, þ.e.a.s. blogg sem snúast bara um bloggarann og ekkert annað fjas. Yndislegar rósir.