laugardagur, 20. október 2012
Ambögur
Það er stundum alveg dáyndis-skemmtilegt að lesa fréttir á vefmiðlunum, og oft held ég að "pennarnir" séu ennþá í grunnskóla. Dæmi: Hann var borinn út á sjúkrabörnum.....Björgvin er stökkbólginn víða.....hún varð ekki um set......ekki stemmari fyrir því svo hann hætti í hólreiðum og svo mætti áfram telja. Eitt vakti sérstaka athygli mína í dag, en það varðar reykingar. Þar sem ég er nú hætt vildi ég vita meira af hverju læknisaðgerðir fara oft verr í þá sem reykja en hina sem ekki reykja. Og ég las: þeir sem nota bók fyrir og eftir aðgerð eiga bla blabla. Ég las aftur og skildi ekki hvað bók kæmi þessu við. Nei, þessi bók var þarna, stóð skýrum stöfum í staðinn fyrir tóbak! ---Á dögunum bað ég ungan nemanda minn að senda mér sms skeyti í sama formi og vinirnir senda sín á milli, og innihaldinu mátti hann ráða. Til að gera langa sögu stutta skildi ég ekki eitt einasta orð og varð að fá þýðingu, því þetta var óútskýranlegt í mínum augum. Það er því kannski ekki skrítið að sjá svona hryllilega vitleysu hjá fólki sem hefur jafnvel tileinkað sér þetta skeytaform í daglegum skrifum. Og...hjá fólki sem hefur atvinnu af því að skrifa. Ég verð sennilega aldrei svo gömul að ég hætti að skipta mér af íslensku málfari, ekki það að mér geti ekki orðið á í messunni.--- Að geta spilað með tvem höndum er ekki óalgengt að heyra, en það heyrist yfirleitt bara einu sinni í minni stofu! ----Núna er að verða komið eitt ár síðan ég kláraði mína krabbameinsmeðferð, og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá. Ennþá er ég með grátt þrílitt hár, en það er að sléttast úr því. Ýmislegt er brothætt, en batamerkin eru að verða meira og meira áberandi. Ekki veit ég hvort er verra lyfjameðferðin eða geislarnir...Bölvuð pína hvort heldur sem er en þetta læknaði mig. Fer í næstu viku í stóra skoðun og finn í hjartanu að það verður í lagi. ---Þar til næst kveður frú tuða með bestu kveðju allt um kring. --- Ps. Fór og nýtti minn kosningarétt, bara svo það sé skjalfest!
föstudagur, 12. október 2012
Er sandur sandur?
Sandur og sandur er kannski það sama góðir hálsar, en svartur sandur og svartur sandur er ekki það sama. Mikil "pæing" á bak við þetta, og svo sannarlega er enginn sandur eins á litinn. Sumir safna skóm, aðrir teskeiðum sumir lyklakippum, en ég safna sandi. Mér er ekki nokk sama hvernig hann kemst í mínar hendur....við bestimann verðum sjálf að ná í hann og meðhöndla. Margir halda að ég sé með allskonar krydd í fínum krukkum, dettur ekki í hug í fyrstu að þetta gæti verið eitthvað annað. ( Ekki þó neitt ólöglegt svona á þessum síðustu og verstu!) Ok, eldhúsgluggarnir fullir af sandkrukkum og engar hillur að fá sem pössuðu, á allrahanda máta. Allt verður þetta altso að fitta inn í systemið. ( afsakið sletturnar hjá prófarkalesaranum!) ---En.... nú kemur karmað til sögunnar, gaman að þessu. Þegar ég var í geislameðferðinni þurfti ég oft að fara til sjúkraþjálfara. Við hliðina á þjálfu var fótsnyrtistofa sem ég þurfti bráðnauðsynlega á að halda. Þegar ég gekk í téða snyrtistofu blöstu við mér hillur....hillurnar sem ég þurfti svo sannarlega á að halda! Haldið þið ekki að eigandinn hafi staðið í breytingum á stofunni og vildi/gat ekki notað þessar yndislegu hillur. Nú fór um mig...hvað átti ég að gera? Gerði það eina í stöðunni....bað um hillurnar. Hingað eru þær komnar og smellpassa svona algjörlega. Ég átti hreinlega að fá þessar hillur. Héðan í frá ætla ég aldrei að fara annað en á Greifynjuna í Árbæ þegar ég þarf að láta kíkja á tærnar. Það er góður staður til að láta dekra við sig. --- Á dögunum fékk ég/við yndislega og aldeilis frábæra gjöf frá góðum fjölskylduvini. Ljóðabækur allra meistaranna innbundnar í leður með gylltu letri. Við nánast táruðumst.... en hvað? hillurnar góðu voru sem smíðaðar undir þessar dásamlegu bækur. Þetta hilluskot er mér dýrmætt, klukkan, (hefur sögu) heklaða krabbameinsbjallan frá Hauki, kr.slaufu- golfkúlan frá krumma og litli óskasteinninn sem á að færa Þuríði betri heilsu og tengdasyninum gæfu í vinnuferð. Ég sendi ykkur góða strauma hvar sem þið eruð þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)