laugardagur, 2. mars 2013
Fúdendfönn!
Það er virkilega gaman að vera til og búa í bænum mínum. Hátt til lofts og vítt til veggja, og jöklaútsýnið er milljón dollara virði. Í gærkvöldi var ég svo sannarlega minnt á hve allt getur verið fallegt ef maður nennir að horfa og njóta. Food and fun ( angi af fyrirbærinu) var í mikilli óvissuveislu í Fundarhúsinu í Lóni, en það er úti í óendanleikanum, langt frá byggð. Stjörnubjartur himinn, norðurljósin lýstu upp dimmuna og útlendingarnir stundu af lotningu. Friðarkertin í tugavís gerðu svo staðinn að draumaveröld. Það var gaman að geta tekið þátt í að skemmta við svona aðstæður. Stakir Jakar þjónuðu til borðs í fínum lopapeysum og brustu svo í söng reglulega. Þetta var ævintýri. -- Ég var í lopakjól, átti betur við en dressið sem sést hér að ofan. Ég fullyrði að frúin var sko aldeilis fín í flíkinni, en ég kann ekki ennþá að nota alla fídusa sem hún býður uppá. Fer í læri við tækifæri, en Jökull er klárlega með´etta. Lífið semsagt gengur sinn vanagang hér með nokkrum u beygjum sem alltaf má búast við, en þær beygjur eru bara gefandi og góðar.--- Fékk bréf frá Lansanum og á ég að mæta í stóratékkið 14 og 15. mars. Finn fyrir fiðrildum af og til en ég held að þau séu mest í sálinni og fljúgi svo burt að skoðun lokinni. 9. mars eru tvö ár liðin frá því að ég fékk greiningu, ótrúlegt hvað tíminn líður og í raun ekki svo erfitt að líta í baksýnisspegilinn. Held semsagt áfram göngu minni í gegnum tilveruna með bestimann mér við hlið og yndislegt fólk í Ameríku. (sem við fáum að faðma áður en langt um lýkur) Þar til næst bið ég alla vel að lifa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Þú ert ekkert nema glæsileg eins og alltaf! Það hefur örugglega verið gaman með Jöklum í Lóninu það sem er svo fallegt. Ég hef aldrei verið þar á þessum árstíma og er viss um að maður geti líka heyrt í Norðurljósunum eins og maður gerði þegar maður var barn (það er svo hrikalega langt síðan í árum talið þó svo manni finnist það ekki). Er Svanfríður að koma heim eða eruð þið að fara út?
kv
Eyba
Mikið ertu glæsileg á myndinni Gulla mín - Falleg kona í svona líka fallegum kjól. Það var svo gott að sjá nýja færslu frá þér og þessi er sko ekki af verri endanum. Þetta hefur verið alveg dásamlegt hjá ykkur þarna í Lóninu með fallegum söng, norðurljósum og "alles". Svo styttist í fagnaðarfundi við Svanfríði og fjölskyldu.
Ég óska þér allra bestu skoðunar á Lsh. Verum í sambandi.
Hjartans kveðja til ykkar Bróa.
Glæsileg ertu kæra vinkona, berð þennan kjól eins og sú fallega kona sem þú ert!
Get rétt ímyndað mér að það hafi verið ævintýri líkast í fundarhúsinu og í kringum það. Kjóllinn atarna er sérdeilis glæsilegur. Er hann Hornfirsk hönnun?
Ég svara bara spurningunum : Eyba Dóra, við erum að koma heim í sumar. Fyrst komum við strákarnir og svo (vonandi) fylgir Bert okkur eftir. Íris: hún Ragnheiður hans Kela hannaði og saumaði kjólinn. Glæsilegur og mamma glæsileg í honum :)
Skrifa ummæli