föstudagur, 24. maí 2013

HANSÍKOTI!

Ég vil þakka ykkur kæru vinir góðar kveðjur mér til handa. Nú er ég vonandi farin að sjá fyrir endan á þessu ferli sem hefur staðið yfir í rúm tvö ár. Til að segja söguna eins og hún er get ég ekki fengið uppbyggingu á nýju brjósti, skömm sé geislunum. En, minn frábæri læknir lagaði því mitt eigið brjóst og gerði mig eins góða og hægt er. Böggull fylgir þó skammrifi, ég var sett í kot, kot sem er mig lifandi að sjúddirarirei! Var búin að heyra sögur af koti og leist ekki á. Núna er ég hinsvegar komin í 6 vikna kot nætur og daga. Má taka það af til að sturta mig, spurning um að dvelja bara undir bununni. Þegar ég var lítil var bannað að blóta, pabbi þoldi  nefnilega ekki ljótan munnsöfnuð. Ég bölvaði þessvega aldrei, hvorki heima né heiman. Hinsvegar lærði ég hjá bróður mínum að segja Hans í Koti mjög hratt, og þá varð úr það orð sem ég vil segja um kotið þessa dagana. ----Núna er ég verulega farin að bíða eftir Ameríkuförum, verð að láta tímann líða hvort eð er. Það er því fullt dagsverk að bíða eftir þeim. ---Vorið er komið, allt orðið grænt, rósirnar dafna, nýr sólpallur kominn og ég horfi á þetta alltsaman og stjórna því sem ég get og fæ að stjórna þar til næst.

6 ummæli:

Frú Sigurbjörg sagði...

Hansíkoti eða Gullaíkoti? Gangi þér vel elsku vinan mín, mikið verður gaman á þínum bæ þegar Ameríkufararnir dvelja með þér á sólpallinum og lykta af rósunum.

Nafnlaus sagði...

Þegar ég var hjá Jóni Helgasyni í Kaupmannahöfn á 13.árinu og hann heyrði mig bölva sagði hann; ,,segðu bara heljaskinn, hvítpist og veiovei, það þýðir það alveg sama en er bara dálítið hljómfegurra" Ég minnist þessa orða meistarans oft ef mér hitnar í hamsi.
Elsku Gulla mín gangi þér vel ég hugsa svo oft til þín.
kv
Eyba Dóra

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Gott að sjá blogg mamma mín. Þú ert dugleg! Bráðum bráðum komum við. Þú getur þetta alveg, bæði að bíða og þola kotið. Þú nefnilega ert svo djöfulli (sorrý-hansíkoti) dugleg að telja niður:)

Ragna sagði...

Já ég skil vel HansíKoti - Ég var í svona koti í allt fyrrasumar og fram á vetur nætur og daga - Þetta er vont en það - nei það versnar ekki, það venst Gulla mín :) Gangi þér vel. Kær kveðja til ykkar Bróa úr sumarbústað á Flúðum.

Lífið í Árborg sagði...

Það er ekki lítið sem á ykkur bloggvinkonur mínar er lagt. En af því að þið eruð svo sterkar og jákvætt hugsandi, þá komist þið í gegnum þetta.
Það hjálpar svo mikið að hafa eitthvað að hlakka til á meðan þú ert í spennitreyjunni Gulla mín. Nú erum við Palli farin að leggja drög að ferðalagi um landið, það væri nú gaman ef við gætum verið hjá ykkur einhvern daginn á meðan gestirnir stoppa. :-)

Íris sagði...

Hljómar ekkert voða spennandi þetta kot. En það gæti verið verra eða hvað.. Þú ert nú svoddan nagli að þú heldur það út í kotinu. Njóttu svo samverunnar með ameríkuförunum þínum.