miðvikudagur, 14. ágúst 2013
Þaðan sem frá var horfið...
Nú í sumar hefur verið algjör ládeyða á þessari síðu, en það hefur sko ekki verið nein ládeyða í lífi okkar bestimanns. Sumarið hefur verið hreint út sagt viðburðarríkt í meira lagi, fullt hús af yndislegu fólki og mikið líf. Kotkerling losnaði úr koti sínu á réttum tíma til að uppgötva mikla sýkingu, og þá fór um Gvend og meyna...allt sumarið framundan. Á mánuði tókst þó að lemja þetta niður, en ég stóð uppi og bölvaði út í loftið. Maður má nú stundum! Að fá að hafa Svanfríði og snúðana tvo var mikil upplifun og mikil gleði sem ég get alls ekki skýrt út svo vel sé, enda ætla ég ekki að reyna það en hjartað mitt er fullt af ást og væntumþykju. Henni dóttlu minni er ekki fisjað saman. Íslenskukunnátta strákanna og skilningur þeirra á málinu er aðdáunarverð, og allt skrifast það á móðurina. Hvort sem það er faðirvorið, lög með Ragga Bjarna eða hreint og klárt bölv...allt gert af stakri prýði. Það var mikið brallað og allir upplifðu eins og til var ætlast. Það var því erfitt að kveðja, en Spánn var á næsta leiti svo það dreifði huganum. Þar vorum við bestimann svo í vellystingum og með góðu fólki í 12 daga. --- Ég hef alltaf elskað sól og hita og þoli mjög vel þannig letilifnað í smátíma. Nú var hinsvegar Bleik brugðið "a bit". Krabbameinsmeðferðin öll og lyfjaátið hefur skilið eftir sig sitt lítið af hverju. Núna þurfti ég að passa mig extra vel, en það eyðilagði ekkert fyrir mér, ég varð bara örlítið varkárari. Við eigum góða Spánska vini sem alltaf gaman er að hitta hvort sem það er á Spáni eða hér á Hólabrautinni. Fyrst þegar við kynntumst var sonurinn pínupeð, varla talandi. Í dag er hann stærri en ég og alltaf jafn fallegur og góður. Áður en ég get litið við verða mínir strákar svona stórir og fallegir, jafnvel fallegri, og ég ætla að sjá til þess að vera á staðnum þegar þeir detta í fullorðinsgírinn! Segi og skrifa. Núna fer lífið aftur á móti að taka á sig annan blæ og vetrarstarfið að hefjast. Áður er það gerist fer ég í enn eina smáaðgerðina, beinþéttnimælingu og sitthvað fleira. Eftir það ætlum við bestimann að dvelja í viku í Bergmáli, Sólheimum og hver veit, kannski næ ég að stika staðinn á eftir Reyni Pétri göngugarpi. Allavega næ ég ekki að halda í við hann. Myndin hér að ofan var tekin fyrir rúmri viku og ég ætla að orna mér við hugsunina um Spán, en fyrst þarf ég að knúsa vesturfarana. Hvernig og hvenær af þessu öllu verður kemur bara í ljós þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Elsku fallega Gulla mín. Ég vonaði í allt sumar að ég fengi annað tækifæri til að banka uppá hjá ykkur, en nú er útséð með það. Ég fer mjög líklega ekki fleiri hringi um landið á rútu. Eins og hjá þér þá þarf ég að fara að koma mér í haustgírinn og undirbúa kóræfingar og uppákomur. Gaman að sjá hvað þú tekur þig vel út svona sólbrún og sæt. Hafðu það alltaf sem allra best og skilaðu kveðju til bestemanns. Þú mátt svo alveg hringja í mig þegar þú ert í höfuborginni :)
Gróa.
Mikið er alltaf gaman að fá bloggpistil frá þér Guðlaug mín og svona skemmtilegan að vanda. Ég þakka þér kærlega fyrir samveruna hjá Kötlu um daginn. Mikið var gaman að hittast þar bloggvinirnir. Svo óska ég ykkur góðrar og skemmtilegrar dvalar hjá Bergmáli og hlakka til að frá fréttir af dvölinni þar. Hjartans kveðja til ykkar Bróa.
Gaman að geta lesið aftur bloggið frá þér, var farin að sakna þeirra. Vonandi gengur all sem best og skilaðu kveðju til bestemanns.Kveðja að austan, Jóna Björg
elsku perla - takk fyrir hittinginn í sumar - vona svo sannarlega að Spánn fari vel með þig og bestamann. Hittumst einhverntíman - brosum og verðum kátar. Verð að minnast á eitt fyrst ég rataði inn á bloggið þitt. Sé að hér fyrir ofan færðu kveðju frá Gróu, ég var einu sinni í píanótímum hjá henni í Varmahlíð ...svo skemmtilega lítið landið okkar :D
Kærleikskveðja að norðan- Þurí
Elsku Gulla, engar haustfréttir úr kotinu? Með bestu til ykkar besta :-)
Ég tek undir með frú Sigurbjörgu því ég var að leita eftir haustfréttum. Hjartans kveðja til ykkar bestimann.
Dóttir þín er mögnuð, satt er það og ég hugsa að partur af því sé að hún á magnaða mömmu :) Knús í hús.
Skrifa ummæli