föstudagur, 20. desember 2013
Er líða fer að jólum....
Heil og sæl þarna úti í víðáttunni. Hér á kærleiks eins og ein orðar það svo skemmtilega gengur allt vel og jólin á næsta leiti. Maður spyr gjarnan annan: ertu búinn að öllu? Ég svara því til nokkuð satt og rétt að ég hafi ekki svo mikið fyrir hlutunum, við erum jú bara tvö og getum gert alla skapaða hluti nánast á öllum tímum. Ég baka alltaf í nóvember því jólamánuðurinn er oft ansi þungur hjá tónlistarfólki, og er það bara hluti af jólunum. Sveinkarnir mínir eru allir komnir á sinn stað, og sjáið bara eineggja "tvillingana" á efri myndinni, þeir eru sko búralegir, og ef vel er gáð má sjá þann montna frá frú Sigurbjörgu. Eftir helgi fæ ég einn feitan frá Þýskalandi, hlakka til að kynnast honum. Í dag kom gömludansadiskur Jökuls í okkar hendur, og svei mér þá, hann er þrælskemmtilegur, er eiginlega mjög stolt af honum. Syng þar eitt lag með strákunum og hafði gaman að öllu saman. Ef þið viljið kaupa hann og dansa eftir honum á stofugólfinu látið mig bara vita. Rúsínan í þessum hornfirska pylsuenda er að nú hef ég í höndunum farmiða fyrir okkur bestimann til Kaliforníu í sumar, kvittað og greitt, sagt og skrifað! Núna finnst mér stór köggull farinn af brjóstinu og aðventukökkurinn hefur mildast einungis við að horfa á seðlana. Ég veit varla hvernig maður færi að án skybe...en, mamma lifði af með okkur systur langdvölum í útlöndum og við bestimann lifðum af skiptinemaárið hennar Svanfríðar minnar. Þannig að þegar upp er staðið er styttra á milli allra í dag en i den tid. Svo mikið er víst. Ég vil óska ykkur öllum með kíkið í kaffi, kvittað eða ókvittað innilegrar jólahátíðar og megi nýtt ár færa okkur frið í hjarta þar til næst. Gleðileg jól.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Yndislegust mín, skil tilfinningar þínar varðandi yfir álfuna. Elsku Gulla og Brói njótið hátíðarinnar og við Óli sendum jólakveðju til ykkar : )
jólakveðja
Eyba og Óli
Nafnlaus sagði...
Yndislegust mín, skil tilfinningar þínar varðandi yfir álfuna. Elsku Gulla og Brói njótið hátíðarinnar og við Óli sendum jólakveðju til ykkar : )
jólakveðja
Eyba og Óli
Takk elsku Eyba og Óli. Ég veit að þið skiljið mig. En veistu: Við fljúgum til Seattle......hvað gera menn í svo löngu flugi !
Gleðileg jól og farsældar á nýju ári. Jólakveðja frá Neskaupstað
Jóna Björg og Víglundur.
Bestu jóla-, áramóta- og bara allraárstíðakveðjur til þín og þinna mín kæra.
Ingólfur Kjartans
Ég sé að kveðjan frá mér er ekki ein af þessum sex sem eru listaðar hérna.Það var svo mikið rugl á netinu öllu hja mér um tíma um daginn því ég var að færa mig milli símafélaga.
Nú óska ég ykkur allra heilla, góðrar heilsu og gleði á komandi ári.
Það er gaman að sjá að farmiðar eru fastsettir svo þið komist í heimsókn í stóra bláa húsið langt í fjarska þar sem sólin skín. Það er sko örugglega strax farið að hlakka til komu ykkar á þeim bæ. Hjartans kveðja til ykkar Bróa og takk fyrir öll góðu samskiptin og hittinginn s.l. sumar.
Ragna
Ég sé að kveðjan frá mér er ekki ein af þessum sex sem eru listaðar hérna.Það var svo mikið rugl á netinu öllu hja mér um tíma um daginn því ég var að færa mig milli símafélaga.
Nú óska ég ykkur allra heilla, góðrar heilsu og gleði á komandi ári.
Það er gaman að sjá að farmiðar eru fastsettir svo þið komist í heimsókn í stóra bláa húsið langt í fjarska þar sem sólin skín. Það er sko örugglega strax farið að hlakka til komu ykkar á þeim bæ. Hjartans kveðja til ykkar Bróa og takk fyrir öll góðu samskiptin og hittinginn s.l. sumar.
Ragna
Já skype og fjésbókin eru hreinn unaður þegar maður er langt í burtu frá sínum nánustu. Hef stundum velt því fyrir mér hvernig lífið í útlöndum hefði verið án þessara miðla. Hugsa stundum til ömmusystur minnar sem flutti til útlanda fyrir tíma alheimsnetsins, hvað það má hafa verið erfitt á tíðum.
Skrifa ummæli