laugardagur, 7. desember 2013

Heima er best...


Jæja þá er Reykjavíkurferðin frá, og sú næsta verður ekki fyrr en í mars, ef guð lofar eins og kerlingin sagði. Veðurkrákan ég ætti helst ekki að fara út fyrir pípuhlið frá hausti og fram á vor. Bara það eitt að þurfa að mæta í Rvík. að vetri til á sérstökum degi getur hreinlega gert út úr mér. Hálka, stormur, snjór og grjótfok er það sem ég hugsa um daga og nætur áður en farið er. Ég veit....asnalegt. Núna bar svo við að við  fengum nokkurnveginn sumarfæri og rjómablíðu báðar leiðir, þannig við bara sungum hástöfum okkur til skemmtunar og til að fagna góðri skoðun á frúnni. Meinlaust var brjóstið mitt, bara bólgur sem hægt er að meðhöndla. Þar með ætla ég ekki að eiga fleiri andvökunætur út af því. Vil heldur vaka af einhverju skemmtilegu.--- Mikið hvað ég varð glöð þegar bestimann sótti jóla-jóla kassann, þvílík dýrð og dásemd.  Jesú og fam. er komin á nótnaskápinn og spiladósaflygillinn  stendur ofaná mínum ekkidósaflygli! Fyrir mörgum árum keypti ég lítinn feitan sveinka sem situr eins og klessa og brosir fallega. Í byrjun nóv. fórum við bestimann í Rauða kross búðina á Háaleitisbraut að kaupa lesefni. Þar sá ég í einu horninu einn einmana sveinka, albróður þess sem ég hafði keypt fyrir löngu. Þessi situr bara öðruvísi og afslappaðri. Nú hafa þessir eineggja tvíburar náð saman og haga sér vel á eldhúsbekknum mínum.  Á góðum stað stendur svo einn sveinki sem er langur og mjór, og jafnvel alþakinn glimmeri. Hann er monthani, en mjög elskulegur. Hann heldur á pakka í annarri hendinni og glottir út í annað. Mér finnst alveg óendanlega vænt um þennan svein. Hún frú Sigurbjörg sá hann í Ástralíu, hugsaði til mín, keypti hann og gaf mér. Sveinkastelpu á ég líka sem mér þykir jafnvænt um og slánann. Þórunn í Kotinu gaf mér hann þegar ég lauk geislameðferðinni.  Litla sveina situr á útvarpinu. Þegar ég sé þessa vini mína hugsa ég  fallega til gefendanna. Í þessum skrifuðu orðum er ég svo þakklát. Ég er þakklát fyrir lífið með öllu því sem það fleygir í mig, og ætla að reyna að láta þras og leiðindi fljóta hjá þar til næst.

5 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Flottir sveinkarnir. Ég er líka þakklát fyrir þig.

Frú Sigurbjörg sagði...

Að þekkja svo dásamlega sveinkakonu að hún skjóti upp kollinum um leið og maður sér sveinka alla leið í henni Ástralíu skrifast á lánsemd frú Sigurbjargar.

Ragna sagði...

Dásamlegir sveinkarnir sem hafa kúrt saman í kassa í allt sumar og kætast nú að fá að gleðja augu ykkar.
Þið höfðuð sko heldur betur ærna ástæðu til þess að syngja á heimleiðinni, mikið varð ég kát þegar ég fékk góðu fréttirnar af þér. Sendi góðar óskir og kveðjur til ykkar í fallega fjörðinn.

Lífið í Árborg sagði...

Það er mikill léttir að fá góðar fréttir, til hamingju með það.
Mikið er gott að geta glaðst sem barn yfir dótakassanum sem er aðeins tekinn fram fyrir jólin, ég gleðst líka yfir mínum, hver hlutur hefur sína merkingu og geymir minningar. Kær kveðja í bæinn úr stóra bláa húsinu.

Íris sagði...

Yndislegur lestur. Vá hvað ég skil þig varðandi ferðalög í vetrarfærð, á við sama vanda að stríða.