mánudagur, 30. desember 2013
Til móts við nýtt ár.
Jæja," þá eru jólin búin" ku ég hafa sagt hátt og snjallt 5 ára hnáta þegar síðasti jólapakkinn var opnaður. Síðan þá hefur þetta verið orðatiltæki hjá stórfjölskyldunni. Mín jól í dag eru hins vegar ekki búin, nýt friðarins og rólegheitanna, náttbuxnanna minna og bókanna. Nýt þess að dunda í eldhúsinu og hugsa fyrir næstu máltíð! (Steiktur fiskbúðingur úr dós var í kvöld með allskonar gúmmelaðe!) Ekki segja neinum frá. Óskandi að svona líðan væri á öllum bæjum, allsstaðar. Eftir að Svanfríður mín flutti að heiman og tengdamamma féll frá höfum við bestimann alltaf haldið jól og áramót hvort með öðru. Margir undra sig á þessu því allir vilja sig á stórhátíðum. Okkur líður vel með tvímenninginn því við erum svo vel gift sjáið til! Það sagði gömul frænka bestimanns þegar hún var að hrósa mér fyrir eitthvert spileríið. Hennar fleygu orð voru: Þetta er ekkert mál fyrir þig Gulla mín, þú ert svo vel gift! Það var og......Málið var að henni fannst allt sem ég gerði vel vera af því að ég var svo vel gift. Dásamlegt. Semsagt, stórhátíðar eru ekkert vandamál nema bara stundum þegar kemur að kaupum á jólagjöfum og pakkaálesningu. ( við eigum nefnilega meira en okkur vantar) Bestimann er frárri á fæti en ég, ég elda og hann skal svo sannarlega fá að hlaupa með pakkana. Það eina sem heftir helst hlaupin eru of margar rjúpur í maga karls, og þar af leiðandi tekur þetta allt sinn tíma. Nú, svo er lestur jólakorta og seinni messa bestimanns. Það er semsagt heilmikil prósessía sem fer fram á okkar bæ. Margar góðar gjafir fengum við, en upp úr stendur árlegt myndadagatal frá Ameríku og sex metra langur stigi sem ég gaf mínum heittelskaða. Já, ég sagði og skrifaði sex metra langur stigi og hann varð yfir sig glaður. Þarf þá ekki lengur að kvarta yfir stigaleysi, vondum lánsstigum og heimagerðum klömbrurum þegar þarf að fara hátt. Allir sáttir með sitt og prjónakjóllinn sem ég fékk var yndislegur. Nú er enn eitt árið að renna sitt skeið, og fólk gjarnan lítur um öxl og jafnvel strengir heit fyrir næsta ár. Ég kem nokkuð vel undan þessu ári, heilsan bara vel við hæfi og heilbrigðiskerfið virkar. Ætla því ekki að dvelja í fortíðinni, en lifa í núinu því það er það sem heldur. Eina heitið mitt er fyrir næsta ár er að láta mig hlakka til Ameríkuferðar í sumar. Allt kvittað og klárt. Myndin hér að ofan er af því fólki sem ég elska mest, en það vantar þó einn á hana, en hann munum við knúsa líka á sumri komanda. Kæru vinir, gleðilegt ár þar til næst og kærar þakkir fyrir rafræna og lifandi samfylgd á árinu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Elsku Guðlaug mín þakka þér fyrir skemmtilegan pistil að vanda og góðar kveðjur fyrir nýja árið. Er það ekki nokkuð skondið að gera stigamann úr sínum heittelskaða á jólunum :) Hann verður sko örugglega flottur í nýja stiganum þegar vorar.
Ég óska ykkur gleði, góðrar heilsu og hamingju á komandi ári um leið og ég þakka góðar og skemmtilegar samverustundir -þær mættu bara vera fleiri. Hjartans kveðja og vinarknús til ykkar kæru hjón.
Góður penni Gulla mín og gaman að lesa pistlana þína. Gleðilegt ár (sem svo sannarlega er) og innilegar þakkir fyrir allar góðu stundirnar okkar og ég vænti að þær eru fleiri á komandi árum. Þú mannst við ætlum að borða saman þegar þið komið í bæinn! það er bara að hringja og láta vita hvenær þið eruð hér :)
Er hrikalega ánægð með samband okkar tveggja þarna í Kalíforníunni gott að vita af þeim saman.
Elsku Gulla sendi þér og stigamanninum þínum bestu kveðjur frá okkur Óla :D
Óska ykkur vel giftu hjónunum gleði og gæfu á nýju ári
Gleðilegt ár til ykkar elskulegu hjón með hjartans þökk fyrir góðar móttökur síðast liðið sumar.Alltaf hressandi að lesa þín skemmtilegu skrif Gulla mín.Bestu kveðjur Ásta Alfreðs.
Skrifa ummæli