föstudagur, 6. júlí 2012

Er ég fræg?

Já, við mæðgur erum frægar eins og þið sjáið. Erum búin að gera víðreist í dag, dag sem maður þarf að melta um stund. Allt var svo mikið eitthvað. Vorum í frægri götu í Beverly Hills t.d. hvar ég þóttist sjá eina fræga úr sjónvarpsþætti bandarískum. Hinir sáu hana líka og allir voru kátir. Það þarf ekki mikið til að gleðja Vögg! Þegar maður sér stjörnugötuna í sjónvarpinu virkar hún svo gasaleg, en í raun er þetta ósköp venjuleg gangstétt og lætur akkúrat ekkert yfir sér. Þetta var samt gaman, og að sjá stóru Hollyvoodstafina í fjallinu gerði helling fyrir mig og mína. Bert er flottur bílstjóri og við hlið hans voru dóttlan mín og Guðm. P. Sigfússon sem skiluðu okkur öllum heilum heim. En mikið hvað ég er mikil gunga þegar akreinarnar í sömu átt eru 6..... Ég á yndislega vinkonu frá því gamla daga..... mikið góðar vinkonur sem hittumst alltof sjaldan. Þegar ég var í geislunum, og var í Rvík í margar vikur var reynt að koma saman í mat...Ekki gekk að finna tíma sem hentaði öllum. Til að gera langa sögu stutta hittumst við í dag í LA... Lygalaust, dóttir hennar og tengdasonur búa hér og úr þessu varð heljarins mikið pönnukökukaffi. Já, lífið er gott og ég á gott, og ég á líka gott í töskunni minni þar til næst.

miðvikudagur, 4. júlí 2012

Enn það sólskin um mýrar og ..........

Gatan hér er mjög falleg, eða réttara sagt húsin og garðarnir við hana. Margir klippa gróðurinn til í skúlptúra, og er þetta virkilega fallegt. Gras er ekki víða því þá þyrfti að vökva látlaust, og vatn er ekki eitthvað sem fólk bruðlar með. Hér er hitinn alltaf eins, 35 - 40 stig, en loftið er þurrt svo þetta er ekkert bagalegt. Húsin eru vel loftkæld og hansagardínur halda sólinni úti. ------ Í þessum hita og ljúfa lífinu þessa dagana bregður svo við að ég finn ekkert til í skrokknum. Krabbameinstaflan sem ég tek daglega hefur valdið stirðleika og leiðindum, en núna......volá..... Mikið gaman framundan, LA .... kannski verðum við fræg..... ef ekki þá er það bara allt í lagi þar til næst.

þriðjudagur, 3. júlí 2012

Þessi dagur hefur liðið eins og í blíðri sólskinssögu. Fórum með tveimur ungum mönnum á ströndina þar sem mokað var af krafti. Eftir það fóru þeir á sundnámskeið og það kostaði fótanudd á bæði borð yfir sjónvarpinu. Lífið er lottery, og okkar lottery er að eiga gott og yndislegt fólk þar til næst!

laugardagur, 30. júní 2012

Gott kvöld þið sem lesið. Er með nýja tölvu, er að fikra mig áfram og hvað er betra en að birta mynd af tveimur ungum mönnum sem eru að ræða málin. Hér er blíða sem ég sendi yfir þar til næst.

föstudagur, 29. júní 2012

Fréttir að vestan!

Nú er gaman að lifa, hér erum við bestimann í góðu yfirlæti hjá okkar fólki. Vikan hefur liðið eins og hendi væri veifað. Það lá nærri að við kæmumst ekki hingað því það fyrirfórst að sækja um ferðaleyfi til USA. Nýjar reglur sem fóru algjörlega fram hjá okkur. Starfsfólk Delta á Íslandi brást við og allt gekk þetta að lokum. En það get ég sagt með sann að það fór um Gvend og meyna. Nokkurra tíma seinkun í NY vegna brjálaðs veður, og sátum við í 3 tíma í vélinni og hristumst á jörðu niðri. Þegar við fórum svo loksins í loftið vorum við 6. flugvél í röðinni, en fyrir aftan okkur voru allavega 11 vélar að bíða eftir flugtaki. Það er því eins gott að dvelja um stund í faðmi fjölskyldunnar. Snúðarnir mínir yndislegir og vel gerðir náungar sem gaman er að umgangast. Eyjólfur les á morgnana fyrir afa sinn og eru það góðar stundir fyrir báða. Við erum búin að fara á safn "route 66" og sjá minningarmark og kapellu í minningu Roy Rogers. Í dag var það svo "draugabær". Þegar gullnámurnar kláruðust fór fólk og eftir varð draugabær, sem er orðinn að vinsælum ferðamannastað. Það var eins og að taka þátt í gamalli káboy mynd úr villta vestrinu að koma þarna. Kæru vinir, lífið er sól og blíða þar til næst.

föstudagur, 15. júní 2012

Mannlíf, ten points!

     Mannlíf hér er voða voða gott, og myndin a tarna sýnir Staka Jaka út við ysta haf  á fallegu kvöldi eftir tónleika. Dulítið dökk, en hvað með það, allir voru bjartir þegar myndin var tekin.Margt hefur á daga mína drifið síðan krummi sendi mér golfkúluna. Húsið málað (það sem þarf) , minningarreiturinn hreinsaður og með fínum blómum og síðast en ekki síst er girðingin kringum Stafafellskirkju á góðri leið með að verða eins og ný. Eins er ég búin að fara til Reykjavíkur í eftirlit og sagði læknirinn að ég væri bara flottust! Næsta skoðun er eftir 4 mánuði. Það er ótrúleg rússíbanareið að fara í eftirlit, ég hefði ekki trúað því. Það er eins og maður búist við hinu versta þrátt fyrir bjartsýni og jákvætt hugarfar. Þegar allt reynist svo í orden er maður eins og sprungin blaðra og tárakirtlarnir vita ekki hvenær þeir eiga að skrúfa fyrir. ----  Nú er Ameríkuferð alveg að detta á, og þegar húsflugan flytur inn erum við farin. Ég er einhvernveginn svo yfirmáta á alla vegu að ég er að pakka niður og faðma mitt fók um miðjar nætur..... sko, altso hér í mínu rúmi. Gengur ekki, en mér er alveg sama. Sef síðar. Kannski bara í flugvélinni. Núna stendur mikið til hér á Höfn við undirbúning mannlífsþáttar sem sjónvarpið er að taka upp. Bærinn er fullur af fólki sem tekur þátt í  að fegra miðbæinn og stemning mikil....nóttin björt og mannlíf gott þar til næst.

föstudagur, 25. maí 2012

Jákvæð broskerling!

Einu sinni var kona hér í bæ sem var mikill golfspilari, og góð kona. Hún gaf krumma alltaf að borða. Í þá daga pössuðu menn upp á golfkúlurnar sínar og merktu þær vel og vandlega. (Ekkert bruðl þá) Staðurinn lítill og ekki margir golfarar. Rétt hjá heimili konunnar var staður sem hún gaf krumma að éta, og voru allir glaðir með það. Einn daginn sér konan út um eldhúsgluggann glitta í eitthvað hvítt þar sem "matardallur" krumma var og fór út að gá. Var þar þá ekki komin vendilega merkt golfkúla matmóðurinnar, sagt og skrifað. Krummi var sennilega að þakka fyrir sig.-- Í gær hringdi nágranni og sagðist halda að fugl hefði verpt í blómabeði okkar bestimanns og að hreiðrið væri sennilega yfirgefið. Bestimann fór út og fann þessa fínu golfkúlu hálffalda í mold. Við þvott kom í ljós bleika slaufan, og finnst mér sem krummi sé að þakka mér fyrir allt gúmmelaðið sem hann hefur fengið frá mér, og jafnframt að segja mér að nú sé nóg komið og ég sé orðin frísk! Ég nefnilega gef krumma, en aldrei hér inni í bæ. Við höfum margoft séð þann svarta með golfkúlu í gogginum, sem hann lætur svo detta trekk í trekk í von um að eitthvað sé inni í henni. Eitt af mínum uppáhaldslögum er einmitt Krummi, eftir Tryggva M. Baldvinsson við texta Davíðs Stefánssona, og  ég ætla að gefa krumma áfram. Tel mér trú um að þessir tveir sem ég gef séu alltaf þeir sömu, en ég get náttúrulega ekki verið alveg viss. ---Jæja, nú erum við bestimann altso að fara vestur, og það í Blátt hús....að vísu ekki lítið, en í mínum huga er þetta litla Bláa húsið þar sem svo mikill kærleikur hefur ríkt, og hann verður fluttur með til vesturstrandarinnar. Ég er orðin svo spennt að ég veit varla hvernig ég á að anda. Allt klappað og klárt, svo nú er bara að njóta. Áður en það verður ætla ég í smá söngferðalag með Gleðigjafa, og taka sprett með Stökum Jökum, en þeir syngja Krummann svo fallega. Fréttir daganna eru oft svo leiðinlegar, en mér finnst eins og þær nái ekki inn í sálartetrið mitt. Njótið með mér þar til næst.