sunnudagur, 22. júlí 2007

Debet og kredet

Nú er komið að síðustu færslunni í bili hjá B konunni því Spánn kallar.--Ekki veit ég bloggfélagar af hverju þessi litla saga kom upp í kollinn, en svona er þetta bara. Fyrir margt löngu kom lítil hnáta og bað mig um að "lána" sér aura, en upphæðin er gleymd. Aðspurð sagðist hún þurfa að versla tyggjó. Aurana fékk hún að "láni" vel að merkja, keypti tyggjó en afganginum af kaupunum skilaði hnátan og sagði sperrt: "Nú skuldar þú mér X krónur"! Bíddu við, sagði ég, þú fékkst lán, og skuldar mér þar af leiðandi. Nei.... nei... ekki var það svo að sú stutta skyldi viðskiptin, en allt gott með það. Á þessum tíma fékk daman gjarnan "lánaða" peninga til að kaupa sér lítið eitt smotterí, skilaði alltaf afganginum, og taldi þá að ég skuldaði sér þá upphæð! Við, foreldrarnir, reyndum hvað við gátum að koma hnátunni í skilning um debet og kredet en lítil viðbrögð fengust við þeirri kennslu þá. Höfðum reyndar gaman af öllu saman svona okkar í millum. ( lesist með L hljóði!). Þegar sú stutta var með okkur í Búlgaríu hér um árið var landið enn handan járntjalds og efnahagur landsins afar sérkennilegur að okkar mati. Engin kort, bara beinharðir dollarar, og var þeim alltaf skipt á svörtu. Fyrir það fengust margar "lefsur" eins og sú stutta kallaði myntina, en nota bene þegar hér var komið var sú stutta orðin eldri en tvævetur. Lítið var hægt að kaupa í þessu fallega landi, en mannanna gæði voru yndisleg. Á leið okkar á ströndina tók daman eftir gömlum manni sem sat í litlu rjóðri með eldgamla baðvog sér við hlið. Á þessum tíma var fullkomin vigtunargræja út um allt í hinum vestræna heimi og var nýlunda. Pupullinn setti peninga í rauf til að finna út hæð og "rétta" þyngd viðkomandi. Þetta vissi daman, og var því óþreytandi að láta vigta sig hjá þeim gamla og borga vel fyrir!! Hún sem sagt vorkenndi manninum, og skildi stritið. Ég hef aldrei séð, eða kynnst neinum sem hefur verið vigtuð eins oft, og það í sumarfríi! Þetta var fallegt-- Nú er þessi stutta löngu búin að læra á debet og kredet og hefur í áranna rás margfalt borgað tyggjópeningalánið til baka. Nú er bara að sjá hvernig hennar synir fara að þegar þá vantar aura fyrir smotteríi. Lifið heil, og gaman væri að sjá ykkur kvitta. Spánarfari kveður úr hornfirskri ró.

6 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Já! Þessi systir mín, margt er hægt um hana að segja:)luv jú.Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

Hafðu það gott á Spáni.

B

Nafnlaus sagði...

yndisleg saga af "litlu" stelpunni;)

hafið það gott í sólinni:)

Nafnlaus sagði...

ha vissi ekki að þú ættir systir hihhihihi
Flott saga engu að síður hvort heldur var Svanfríður eða Eygló

Nafnlaus sagði...

Sagan er skemmtileg. Ég vona að þú njótir lífsins lystisemda á Spáni og segir okkur svo alla ferðasöguna þegar þú kemur heim.
Kær kveðja,

Nafnlaus sagði...

Sæl vertu Guðlaug. Ég var að kíkja í fyrsta sinn á síðuna þína og það var ansi hugguleg heimsókn.
Falleg upprifjun þegar Svanfríður "litla" hlustaði á stjörnurnar. Ég vildi að við gætum öll varðveitt einlægnina miklu lengur. Hafðu það gott á Spáni. Buenos diaz, Senora:-)