fimmtudagur, 12. júlí 2007
Það er margt skrítið í kýrhausnum
Það fylgir starfi mannsins mín að sjá um tvo kirkjugarða. Á vorin þegar sú vinna hefst má ég teljast heppin að fá hann í vinnu hér heima við. Til að létta undir og blíðka bóndann rétti ég honum oft hjálparhönd í þessum tveimur görðum og hef gaman af. Við kirkjuna að Stafafelli í Lóni er yndislegur garður, gamall, gróinn og friðsæll. Í stóru barði norðan við kirkjuna verpir máríuerla og önnur í grjóthleðslunni undir kirkjunni. Sambúðin við garðyrkjumanninn gengur vel, og tekur hann mikið tillit til búskaparins í barðinu. Allt í einu sjáum við hvar þröstur er að bauka við hreiðrið, og flýgur hann með eitthvað í gogginum á brott. Bölvaður, hann var að ræna! Máríuerlan var í upphafi með 5 unga, en nú eru eftir þrír. Garðyrkjumaðurinn jarðsetti einn. Í gær kíktum við ofur varlega í húsið í barðinu, og voru allir þrír við góða heilsu, en þrösturinn missti tvö væn prik hjá okkur hjónum. Fræðingur sem ég hafði tal af hafði ekki heyrt um að þröstur rændi hreiður nema ef vera kynni að máríuerlan hefði rænt hreiðurstæði hans, þá væri ævarandi fýla í gangi. Þetta fannst mér merkilegt, en náttúran lætur ekki að sér hæða.---Í dag vorum við hjónin svo í Hafnarkirkjugarði að hreinsa beð. Í kringum okkur vappaði þröstur, svo nálægt að hann nánast snerti okkur. Hann vissi sem var, að við að snúa öllu við var von á möðkum. Ég "eiginlega" fyrirgaf þrestinum í Lóninu! --- Þeir vita greinilega sínu viti.--- Annað í haus þessa stundina er þetta með að vera A eða B manneskja. Sennilega telst ég til B flokksins að þessu leyti. Allavega yfir sumartímann. Veit fátt betra en að snudda í rósunum mínum seint á kvöldin meðan nóttin er björt. Á það jafnvel til að tætast í beði eftir "háttatíma" þeirra sem telja sig vera A. Mér finnst þetta allt í lagi, en það er oft talað dálítið niðrandi um þessar B manneskjur! "Af hverju ferðu ekki fyrr að sofa, og vaknar svo snemma í fyrramálið til að rótast í beðunum" heyri ég stundum. Er ekki bara allt í lagi að vera B manneskja? Ég bara svona velti þessu upp. Mér líður mjög vel með það, og tek það fram að ég get vel vaknað árla morguns ef með þess þarf. --- Ég veit ekki hvað er tilhlýðanleg lengd á færslu, og ef ég er með langloku sem enginn nennir að lesa til enda þá verður svo að vera. Langlokan hefur kannski eitthvað með hæð mína að gera, það er 1.80! Kveð ykkur með brosi á vör klukkan að verða ELLEFU.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Ég er stolt B manneskja og finnst fátt betra, eins og þú veist, að vera á vappi þegar hljótt er orðið í kringum mig og ég get átt "Minn" tíma.
En talandi um þrestina. Eitt sumarið sem ég vann í Þórsmörk, gerði alveg svakalegt úrhelli, svo mikið að ferðafólkið synti út úr tjöldunum sínum, í bókstaflegri merkingu. Við tókum ferðafólkið auðvitað inn í skálann. Kom einn útlendingurinn til okkar og sagðist hafa setið á gangstéttinni fyrir utan skálan,þar sem hann húkti álútur undir þakskegginu,sér til varnar regninu. Ekki sat hann lengi einn því til hans vappaði lítill þröstur, rennvotur, og kom sér á milli fóta útlendingsins. Þar sátu þeir svo, í mesta bróðerni.
Ég held ég gleymi þessari sögu aldrei,mér finnst hún svo falleg.
Já þeir eru yndislegir fuglarnir. Það var mikið af fuglum í trjánum á gamla heimilinu mínu í Reykjavík. Vorið sem ég flutti hingað þá verpti þröstur í svalakassann hjá mér og kom þar upp öllum sínum ungum þrátt fyrir það, að heilt píanó var híft yfir hreiðrið við flutninginn en það raskaði ekki einu sinni ró mömmunnar og unganna hennar.
Þakka þér fyrir færsluna þína - ég hef ekkert á móti langlokum, a.m.k. ekki eins og þessari.
Kær kveðja
Ég er B manneskja en get sett mig í A gírinn ef ég þarf þess:)
Það er fátt fallegra að sjá þegar maður horfir yfir Skagafjörðinn út á Drangey, Málmey og Stórhöfðann seint á kvöldin þegar sólin er sest og kvöldroðinn hímir yfir firðinum ...af þessu missa A manneskjurnar:)
Kveðja úr Skagafirðinum.
alveg rétt Inda-af svona gullmolum missa þeir sem fara í bólið klukkan 21 en á móti kemur að við missum af sólarupprásinni...:)væru það ekki rökin sem A týpurnar gæfu okkur?
Ég er A manneskja, og skil bara alveg B manneskjur. Ég kemst bara ekki af með minni svefn en 7-8 tíma á nóttu. Ég hefði ekkert á móti því að vaka lengur...EF ég fengi svo að sofa út. En börnin min eru mjög ósammála því fyrirkomulagi...svo að A verður það, a.m.k. þar til börnin fara að heiman.
Skemmtileg fuglasagan. Svona er náttúran.
Kv,
B
Falleg saga kæri nýji bloggari:O)
Ég er sko B. Núna er klukkan eitt að nóttu til, ég alveg að drepast út þreytu en kem mér ekki í rúmið.Skil þig vel að vilja vappa í kringum svona fallegar rósir og ilmurinn er hreint dásamlegur.
Skrifa ummæli