sunnudagur, 12. ágúst 2007

Gæðablóð

Ég hef lengi talið mér trú um að ég sé gæðablóð, góð við menn og málleysingja. Í raun hef ég alltaf vitað það með sjálfri mér. Núna er það deginum ljósara en með pínulítið öðrum formerkjum. Moskítóflugur sem sagt elska mig, því ég er svo mikið gæðablóð. Fyrsta kvöld okkar hjóna í sæluríkinu Spáni gleymdi ég öllum varúðarráðstöfum og var því gjörsamlega etin upp að hnjám. Það ætla ég rétt að vona að þessi óværa komi aldrei til Íslands því þá flyt ég á Norðurpólinn. Þrátt fyrir flugnabit áttum við yndislega daga þar sem letigenin voru allsráðandi. Aðalspurningin þegar líða tók á daginn var sú að spá í hvað við vildum borða! Að lalla um undir heitum himni og skoða mannlífið er ljúft. Að sitja úti á svölum og "hlusta" á stjörnurnar í 27 stiga hita er gott fyrir sálina. Þó er best fyrir sálina að koma heim. Eftir hverja utanlandsferð finn ég svo vel hvað við eigum gott land. Við getum endalaust þrasað út af alltof háu verðlagi,vitlausum pólitíkusum, virkjunum, samráðum og álverum, en þegar upp er staðið búum við í hreinu og tæru landi, og leyfum okkur að bruðla með ýmislegt, t.d.vatn. Talandi um vatn, þá finnst mér alltaf fyndið þegar Íslendingar kaupa sér vatn úti í sjoppu, við sem eigum dásamlegt vatn beint úr krananum, og það er barist í heiminum um vatn. -- Það er gott að vera komin heim, og með þeim orðum kveður gæðablóðið bitna!

8 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég hef stundum keypt vatn á flöskum hér en ofast íslenskt vatn og það er mikill munur á áferð og bragði...íslenska vatnið er miklu mýkra en önnur vötn (aðrar vatnstegundir?) æi, þú skilur mig.
Velkomin heim. Nú finnst mér við vera nær hvort öðru.

Nafnlaus sagði...

Ég á við að á Íslandi eigum við ekki að "þurfa" að kaupa okkur vatn í flöskum.

Nafnlaus sagði...

Velkomin heim úr spænsku sólinni. Sögðu fararstjórarnir ykkur ekki að í ljósaskiptunum má maður t.d. alls ekki hafa ljós inni og opið út á svalir. Moskítóflugurnar ku nefnilega koma inn í ljósaskiptunum og nærast á því gæðablóði sem þær finna yfir nóttina. Úff þetta hljómar nú frekar illa en er víst alveg satt. Svo hefur okkur reynst vel að hafa með okkur B-vítamín töflur (þessar litlu gulu með vondu lyktinni) og setja svona hér og hvar. Þessi ráð hafa dugað okkur vel og við, 7-9-13, höfum alveg sloppið við bit fram til þessa. Mér finnst alltaf að maður verði að koma góðum ráðum sem maður fær beint til annarra og það hef ég nú gert.
Kær kveðja frá Selfossi

P.S. Mér varð hugsað til þín þegar nágrannakona mín Steinunn Benediktsdóttir, sem bjó í húsinu á móti mér var að flytja til Hafnar núna um helgina.

Nafnlaus sagði...

takk fyrir ráðin Ragna mín, allt þetta hef ég prófað, og dvel því alltaf í hæstu hæðum hótelanna. Ef ég maka mig ekki flugnafælukremi og hef ekki undraflugnafæluna hengda á mér er ég étin. Hvorugt gerði ég fyrsta kvöldið, og get því einungis kennt sjálfri mér um. Ég er nefnilega gæðablóð! Guðlaug

Védís sagði...

Velkomin heim, vona að ferðin hafi verið góð fyrir utan bit og annan ófögnuð.

Nafnlaus sagði...

Velkomin heim:)

Kveðja Inda

Nafnlaus sagði...

Sæl og blessuð mín kæra, og velkomin heim.

Þakka þér innilega fyrir kossinn. Sigga kyssti mig á kinnarnar báðar.

Skemmtilega lítið land, finnst þér ekki.

Kv,
B

Nafnlaus sagði...

hlusta á stjörnurnar? athyglisvert...

vona að bitin séu ekki að angra þig lengur.