miðvikudagur, 17. október 2007

Þarf ég að lemja mann?

Skrítinn titill, en ekki út í hött. Maður getur nú blásið yfir ýmsu, og hér kemur romsan. Fréttamennskan í fjölmiðlum landsins er stundum (eða oft) ótrúleg. Af hverju þarf alltaf að draga fram það sem er neikvætt? Ef það er ekki neikvætt skal það samt borið á borð fyrir landslýð sem neikvæð frétt.(Á við um öll byggð ból á Íslandi) Hornafjörður er ekki stór bær á landsvísu, en hér er margt í boði og margt mjög jákvætt. Atvinnulíf gott, mannlíf einnig og menningin blómstrar. Þeir sem hér búa vita það, og hví skyldi ekki restin af landsbyggðinni fá fréttir af því líka? Nei, fréttamennska fjölmiðla nær ekki svo langt. S.l. verzlunarmannahelgi var haldið hér landsmót ungra íþróttamanna sem fór fram í yndislegu veðri, og allt gekk mjög vel... Ónei, litlar sem engar fréttir voru fluttar af mótinu í fjölmiðlum, en tekið fram að á Siglufirði gisti enginn fangageymslur! Gott... Eitt og eitt fíkniefnamál komu þó upp hér og hvar á eynni, en duglegi og prúði ungdómurinn á landsmóti var vart talinn til frétta. Árið 1995 hélt karlakórinn Jökull á Hornafirði Kötlumót. (samband sunnlenskra karlakóra) Þar voru samankomnir nokkur hundruð syngjandi karla ásamt sinfóníuhljómsveit Íslands. Ónei, ekkert fjölmiðlafár! ---Enginn laminn---. Um síðustu helgi var landsmót skólalúðrasveita haldið hér á Höfn og tókst það með sæmd, en... ekki létu fjölmiðlar það sig miklu skipta. 450 ungmenni spilandi um allan bæ er ekki fréttnæmt.. enginn lamdi mann og annan...Mig langar að telja svo margt annað upp, en þá fer ég að hljóma enn frekar eins og nöldrandi kona í vesturbænum. Á vori komanda verður á Höfn landsmót kvennakóra og vonandi tekst að koma því á koppinn í fjölmiðlum, hver veit. Ekki það að þetta hafi ekki verið reynt af heimamönnum, en Ártúnsbrekkan en greinilega markmiðið í sparnaðarskyni. "The bottom line is" á góðri íslensku: Af hverju má ekki oftar flytja fréttir sem gleðja hinn venjulega áhorfanda-hlustanda? (Ég veit um "góðar fréttir" sem stundum eru auglýstar í RUV, hef verið þar sjálf). ---Með neikvæðum, nú, eða tvíræðum fréttayfirlýsingum er verið að kynda undir svartsýni fólks utan "nafla alheimsins", og það er að mínu mati ekki verjandi.--- Nú er ég búin að blása nóg..--- Karlakórsæfing, Gleðigjafaæfing og kvartettsæfing það sem af er viku gerir mig glaða.. glaða í hjarta og sinni. Þar hefur ríkt sönggleði, enginn hefur lamið mann og annan og telst því ekki til frétta! Þetta eru samt fréttir vikunnar, mínar fréttir. Látið ykkur líða vel, en ef þið viljið komast á blað sögunnar þá sláið næsta mann.... Ég ætla hinsvegar að halda áfram á rólegu nótunum án þess að komast á blað. Hornfirsk kveðja til allra.

10 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ef þú lemdir mann með hækjunni þá kæmistu pottþétt í fréttirnar, ég er viss um það og fréttin gæti hljómað á þessa leið; "ráðsettur píanókennari og meðleikari austur á landi fór hamförum þegar hún réðst á mann og annan með vinsti hækjuna að vopni. Ekki er vitað hvað olli fjaðrafokinu en búið er að fjarlægja hækjurnar af konunni. Hún er á sextugsaldri."
Luf jú, Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

Engar fréttir eru...góðar fréttir.

Ekki skemmtileg sannindi en sannindi engu að síður. Auðvitað finnst manni ekkert réttlæti í þessu, en á það skortir víða í heiminum.

Nafnlaus sagði...

Enginn verður óbarinn biskup!!

En því miður er fréttamennskan alltof oft einhæf, neikvæð!
Þó koma til fréttir á Íslandi sem ég elska að vita að tími gefst til að lesa upp í hádegisútvarpinu, eins og þegar "ekið var á hrút" eða "fötu með ánamöðkum var stolið við bifreið, ánamaðkar fundust síðar af lögreglu neðar í sama hverfi og þeir hurfu frá" ....

Engar fréttir eru góðar fréttir...

Kristbjörg sagði...

Ég er nú alveg hjartanlega sammála þér mæin kæra og neikvæðar fréttir gefa auðvitað neikvæða mynd. Oft hef ég varið minn yndislega Hornafjörð með kjafti og klóm þegar bornar hafa verið upp á hann margar sakir, flestar um slagsmál og fíkniefnaneyslu.
En í færslunni finnst mér þú þó fara með rangt með eitt ansi mikilvægt atriði. Þú gefur til kynna að "nafli Alheimsins" sé höfuðborgarsvæðið og vil ég hér með leiðrétta þennan leiða misskilning. Hinn sanni nafli alheimsins er nefninlega Hornafjörður. Rétt skal vera rétt :)
Hafðu það gott Gulla mín og verð að hrósa þér fyrir skemmtileg skrif. Verð líka að þakka sjálfri mér fyrir að hafa komið þér á þennan yndislega vefmiðil hehe
Jæja, einhver svefngalsi í mér.
Góðar stundir :)

Nafnlaus sagði...

Hey...ég var nú bara einmitt að lesa svo fína frétt frá Höfn í morgun. Ákvað meira að segja að segja þér frá því. Íslandsmet slegið á Höfn...ekki amalegt. Áfram lúðrasveit...og búbblandi tónlistarmenning!

Og hana nú.

Knús,
B

Nafnlaus sagði...

NÁKVÆMLEGA! Maður verður hálf svartsýnn af því að hlusta á fréttir en svo hugsar maður um hinar hliðarnar. Hvernig væri að tala meira um allar þær milljónir sem hjálpa öðrum; nei við fáum bara fréttir af eiturlyfjasölum, barnaperrum, morðingjum og ég veitt ekki hvað. Frekar niðurdrepandi

Nafnlaus sagði...

Ég er hjartanlega sammála þessu. Þegar ég var í MA skrifaði ég litla grein í moggann þar sem ég ég sagði frá árshátíð MA sem haldin er ár hvert. Þar koma saman um 500-700 ungmenni á aldrinum 16-22 ára (um það bil) og skemmta sér ÁN áfengis.

Þessi grein birtist aldrei, enda lamdi enginn neinn, enginn tekinn með dóp og engum var nauðgað inni á klósetti.

Nafnlaus sagði...

Orð í tíma töluð. Er það nokkuð skrýtið að þjóðfélagið sé orðið meira og minna þjakað vegna ofbeldia og virðingarleysis, þegar aldrei má minnast á neitt gott í fjölmiðlunum.
Þú þyrftir að blogga á mbl.is þá myndu fleiri fá að njóta þess sem þú skrifar.
Kær kveðja,

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ekki blogga á mbl.is, þeir eru svo vægðarlausir þar.

Syngibjörg sagði...

Segi bara AMEN.