miðvikudagur, 24. október 2007

Blómlegt


Á vorin, áður en héraðsmótin eru haldin hefst vinnan í þessum yndislega skála. Hann er nokkuð stór og er blómahafið mikið. Í febrúarlok eru rósirnar klipptar nánast niður og skálinn þveginn í hólf og gólf uppúr grænsápu með mikilli natni, og málað það sem þarf. Rósarstilkana þvæ ég líka, róta upp í moldinni og gef áburð. Svo er bara að bíða. Meðan við bíðum er allt sem í skálanum er þvegið uppúr grænsápu, hvert eitt og einasta snitti, smásteinar sem annað. Teppinu rúllað út og húsgögnin sett inn, og enn bíðum við. N.B. rás eitt verður að vera á! Einn góðan veðurdag gerist svo undrið...út úr lágu stilkunum gægjast lítil blöð sem stækka ótrúlega hratt. Bóndinn setur ævinlega prik við Friðarrósina í byrjun maí, áður en við förum í söngferð með karlakórnum.-- (alltaf á svipuðum tíma)-- Frá föstudegi fram á sunnudagskvöld hefur rósin oftast stækkað sirka 7-9 sentimetra. Þótt úti sé köld norðanátt en sól er mjög hlýtt í skálanum og því kjöraðstæður. Þegar skóla lýkur á vorin og allir tónleikar búnir fer ég í mína árlegu blómaferð í Hveragerði. Þar kaupi ég öll pottablómin og næringarríka gróðurmold. Í þessari ferð er ég ein á ferð og vind ofan af mér eftir veturinn. --Versla í gróðrarstöðinni Borg, og hef gert í 12 ár. --Þegar heim er komið pota ég þessu niður, og þá er sko sumarið komið í allri sinni dýrð. Kringum 10. júní springur svo fyrsta rósin út, Friðarrósin. Eftir það er enginn hörgull á rósum hér á bæ vel fram á haustið.--Að drekka morgunkaffið í skálanum er gott, að leggja sig í hádeginu er líka gott, að hafa gesti í skálanum er enn betra, en að sitja að kvöldi til og horfa á undrið er hápunkturinn. Þegar Svanfríður dóttir okkar og Bert giftu sig voru öll blómin við þá athöfn úr skálanum, svo sem brúðarvöndur, rósir í hnappagöt og rósir til veisluskreytinga.-- Þegar rósirnar eru búnar og fella blöðin sýð ég þau gjarnan í potti á eldavélinni og vökva svo rósabeðið með afrakstrinum. Ilmurinn er ótrúlegur! Til að forðast lús strái ég neftóbaki yfir moldina og í gluggakisturnar, en drep þar af leiðandi margt annað kvikt, þ.e. járnsmiði og flugur, en hungangsflugan er sterkari en neftóbakið. Hún gerir nefnilega sitt gagn í svona umhverfi. -- Í októberbyrjun leggst deyfð yfir skálann og þá er bara gengið frá fyrir veturinn, og við hefjumst handa við að bíða....og bíða.. og bíða. --Tíminn líður svo hratt að febrúar verður kominn fyrr en varir og allt hefst á ný.--Hringrás-- Ég þarf að segja ykkur frá Gleðigjöfum--- Það bíður betri tíma, en núna kveður blómakonan frá Hornafirði.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi mynd er yndisleg því hún sýnir akkúrat sannleikan-yndislegan blómaskála sem séð er um af natni.
Þú ert líka orðin eins og lóan-þú ferð að stað á vorin í Hveragerði og í mínum huga á það að vera þannig.
Þú ert yndisleg.Luf jú,Svanfríður

Nafnlaus sagði...

vá, hvað þetta er fallegt:)

hef taugar til svona ræktunar, afi minn ræktaði m.a. rósir og seldi í blómabúðir. ég væri sko alveg til í að eiga svona blómaskála og leyfa grænu puttunum að gramsa í moldinni...

Nafnlaus sagði...

Þó svo ég tæki mig til og málaði puttana græna, yrði ég ekki góð í gróðurhúsi, eins mikið og ég elska og dái fallegan gróður, þá á ég afskaplega litla þolinmæði afgangs í blóm og gróður yfirleitt, mitt markmið í mínum garði er að planta bara því sem getur séð um sig sjálft......
ROSALEGA fallegt í skálanum ykkar, næst þegar ég fer um Hornafjörð verður þú bara vera heima og bjóða mér i kaffi þangað inn!!
Bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

Þú ert algjör dúlla; dúllara dúlla! Ég býð bara eftir kaffiboði í þennan yndislega skála næst þegar ég fer í bíltaur austur;-) Ansi líka freistandi legubekkurinn þarna í horninu. Sé mig alveg fyrir mér blunda aðeins þar....Bestu kveðjur.

Nafnlaus sagði...

Dömur mínar, verið velkomnar í skálann.. Gulla

Nafnlaus sagði...

Þetta er stórglæsilegur skáli hjá þér Gulla mín. Mátt svo sannarlega vera ánægð með hann. Hann er yndislegur að sjá. Bestu kv úr endalausri rigningu á Skaganum, Elsa Lára.

Nafnlaus sagði...

Glæsilegt hjá þér Gulla mín.

Svo virðist sem allt sem þú snertir, blómstri. Sbr. yndislega dóttir þín hún Svanfríður, eiginmaður þinn góði, og nemendur þínir.

Ég gæfi margt fyrir svona skærgræna fingur eins og þú hefur.

Kv,
B

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir með dömunum hér að ofan, sólskálinn þinn er rosalega fallegur og blómlegur. Ég öfunda þig af grænu fingrunum, á mínum bæ þrífast engin blóm, ekki einu sinni kaktusar. Ég held að ég verði að koma á námskeið til þín (ætli að kennarasambandið veiti styrki á svona námskeið)Best að skoða það:)
kv. Helga