miðvikudagur, 10. október 2007

Vort vikulegt mas...

Miðvikudagarnir virðast vera góðir til skrifa... Sú sem hvatti mig einna mest til að blogga, og setti upp síðuna mína átti erfitt með að kommenta á síðasta pistil. Við hvert innlit las hún alltaf um "kalt malt", og drakk þá þann góða drukk. Mér telst að hún sé búin að innbyrða 7 flöskur.. Hún las semsagt vitlaust!-- Í nokkur ár var ég prófarkalesari, og var mér bölvanlega við ef ég las svo nýprentað blaðið með stafsetningarvillum. Af þeim sökum las ég allt afar vandlega, bæði það sem var skrifað í heimabyggð, og eins það sem kom frá viðurkenndum auglýsingarstofum annarsstaðar frá. Ein slík litaauglýsing var send til birtingar, og hljómaði svo: "Brundæla" til sölu! Ég las oft, og ég las lengi þótt svo mér kæmi þessi auglýsing ekkert við, hún var altso unnin á stofu. Ég spurði minn ektamann hvort hann vissi hvað þetta væri og fékk dulítið glott, en fátt varð um svör. Þessi heiðursstofa var að auglýsa tæki sem dælir upp úr brunnum allskyns óhroða, en mönnum láðist að setja eitt N til að gjörbreyta orðinu! Jamm... átti líka í erfiðleikum með að lesa "skólager" sem skó lager.... Kibba mín, ég skil þig......Um daginn blés hún dóttir mín dálítið... Eyjólfur Aiden er sullari! Meðan dóttirin útlistaði drenginn varð mér hugsað til hnátunnar sem dóttirin var þá. Hvursu oft var hún ekki dregin upp úr forarsvaðinu, stígvélafull, allar buxur blautar, búin að týna vettlingunum og með mikla hárið í einni bendu. Ég tala nú ekki um öll sigtin sem týndust við sílaveiðarnar, og hamrana sem "hurfu" úr bílskúrnum. Eyjólfur Aiden líkist mömmu sinni með þetta, og hann má sulla í gúmmítúttunum og fylla þær. Hann má líka búa til engil í snjónum og forinni, það gerði hnátan!, og hún vildi ekki bleika sæta kápu, það var ekki hægt að hreyfa sig í henni eða leika skemmtilega. Á þessari tölvuöld bíð ég bara eftir að við setjum upp vefmyndavél svo við hér í kotinu sjáum fjölskylduna í litla bláa húsinu í Ameríku. Erum komin uppá lagið með Skype og þykjumst góð. Allt kemur þetta. Eins er það með stigana í Tónlistarskólanum, ég er ennþá í þremur mínútum og er alveg sama. Ég kemst samt þótt hægt fari. Tek orð hnátunnar í munn og kveð ykkur í kútinn.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Yndislegt.

Ég nöldra líka oft í mömmu, og þá segir hún að ég hafi verið nákvæmlega eins.

Gaman!

Kv,
B

Nafnlaus sagði...

tíhí...brundæla og skólager:D

minnir mig á ístruflanir;)

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég var búin að keyra oft fram hjá veitingastað einum og las alltaf Chris's COCK house, þegar í rauninni stendur Chris's Coach House-svolítill munur.
Mér finnst sko allt í lagi að hann EYjólfur okkar busli og leiki sér...alveg þangað til hann gengur inn á skítugum skónum:)

Kristbjörg sagði...

hehe nú get ég ekki hugsað um annað en hvort þetta hafi verið brun-dæla eða brund-æla. Þar sem ég er þekkt fyrir minn sorakjaft þá hallast ég að því síðara.
Malt flöskurnar voru 5 á þinn kostnað :)
Það er nú allt í lagi að vera sullari. ég tek mig enn stundum til ef það rignir og klæði mig upp í regngalla og góða skó og fer svo að hoppa í polla. Það var ekkert hægt að klæðast kápu í Hlíðartúninu. Veit ekki hvað ég kom oft heim mýrarauð og rennblaut eftir að hafa ekki alveg drifið yfir skurðinn við hrossó. Það var á fleiri heimilum sem allar sultukrukkur voru herteknar af sílum og hamrarnir hurfu úr bílskúrnum og gleymdust niðri í kofabyggð. Best að alast upp á Hornafirði held ég bara. Já ´mín er komin með heimþrá. Þessvegna ætla ég í 5 daga frí í Fjörðinn Fagra. Svanfríður ertu ekki öfundsjúk núna?? :)

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Kibba, sko..það er ekki hægt að mæla það hversu mikið mig langar til að le..., ég meina kyssa þig núna

Nafnlaus sagði...

Þetta var svo skemmtilegur lestur:-) Takk, takk. Sé hana Svanfríði alveg fyrir mér, vota og úfna við sílaveiðarnar, voða bissí...Það er sama með mig hérna megin, maður fylgist með litlu músinni sinni og fattar loksins hvað mamma var að ganga í gegnum. Frábær upplifun að fá að takast á við þetta hlutverk. Endalaus krúttlegheit og yndislegheit alla daga. Jú, jú, maður fussar og sveiar pínulítið, en brosir svo í kampinn. Góða helgi Guðlaug mín.

Nafnlaus sagði...

Elsku Gulla mín. Takk fyrir falleg orð á síðunni minni. Það hjálpar helling að fá falleg komment frá góðu fólki eins og þér. Knús, Elsa Lára.

P.s. set síðuna þína í tengil inn á síðuna mína þannig að ég geti fylgst betur með þínu bloggi. Vona að það sé í lagi.