miðvikudagur, 12. mars 2008

Með birtu og yl. Taka tvö.

Nú eru farfuglarnir farnir að koma til landsins. Tjaldurinn er kominn í fjöruna fyrir framan Tónskólann sem segir mér að vorið er á næsta leiti. Þessi "bévítans" vetur er að verða búinn og ég sakna veðurfarsins ekki baun. Mér þykir leiðinlegt að vera föst í mínum eigin bíl í innkeyrslunni vegna snjóa, og bóndinn fastur annars staðar. Þrátt fyrir 4 fætur komst ég hvorki lönd né strönd, en gott er að eiga góða granna. Nei, veturinn er ekki minn tími! Þennan óveðursdag fékk ég laaangþráð gleraugu til að hafa á nefinu, og mikið hvað ég var búin að hlakka til. Að þurfa að nota tvenn gleraugu hefur lengi farið í mínar fínustu, og virðist ég aldrei vera með þau réttu þegar á þarf að halda. Vel var vandað, Music tact heitir dýrðin. Í votta viðurvist setti ég svo brillurnar á nefið, og sjá...ég sá ekkert! Fékk kókflöskubotnagler, margfalt sterkara en ég þarf. Mér féllust hendur en þar með byrjaði pirringurinn á óveðursdeginum, og gat því illa höndlað veruna í innkeyrslunni. Lái mér hver sem vill. ---Annars hefur tíminn liðið ljúft, og er mikið að gera í tónlistinni. Herbergi Ameríkufaranna eru tilbúin, ég bara bíð...og bíð og bíð. Bækurnar frá Hildigunni ( fyrir Eyjólf) eru komnar í hillu, bílarnir, púslið og allt hitt er tilbúið í gullakassanum. Natti á líka gullakassa, bara svo það sé á hreinu. Nú er ég sko virkilega farin að telja niður, 6 dagar! ---Þar sem fermingar eru framundan verð ég að láta eina góða fjúka. Þegar Svanfríður fermdist var bara ein athöfn, á Skírdag. Þar sem sá dagur var ansi nærri tónleikadögum varð að hugsa vel í tíma, en fyrst var hún spurð hvort hún vildi fermast. Já, hún vildi það. Þá kom að því að ákveða hvað daman vildi hafa í veislunni, mat eða kaffi. Nei....hvorugt vildi hún. Þá kom spurnarsvipur á okkur foreldrana..Svanfríður vildi brauð, og við það sat. Hún fékk því hlaðin borð af brauði! Þegar hnátan sýndi engin merki um fataáhuga tók ég af skarið, því ekki gat hún fermst í íþróttarbuxum. Fín föt fékk hún, en það vildi svo "óheppilega" til nokkru síðar að þau týndust! Ja, það er vandlifað í henni veröld, en núna elskar hnátan kjóla og rauða skó. Með þessum orðum kveð ég og hlakka óendanlega til farfuglanna minna úr vestri. Þar til næst.

11 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Sko! Það er alltaf von fyrir strákastelpur:)
jáhá-nú er minna en vika eftir í bið og mikið verð (verð, lesist með áherslu) ég glöð þegar við lendum á Keflavík og sjáum andlitið á honum karli föður mínum. Ljúft.
Nú er góður en langur dagur hér á enda. Ég býð góða nótt.Svanfríður

Kristbjörg sagði...

Ég held að það þurfi greinilega að fara til Ameríku til að breyta þessu. Ég hef aldrei verið fyrir kjóla eða pils. Eftir Ameríkuferðina síðasta vor, þar sem ég keypti nokkra kjóla og pils vegna góðs veðursfars þar, þá er ég alveg pilsa og kjólasjúk :)

En verð að segja að það litla sem ég man frá þessum skírdegi fyrir 18 árum síðan er mikið blót úr munni prestsins. 12 ára gemlingnum blöskraði þá og hefði ekki verið fyrir það að Óskar sæti þarna við altarið í hvítum kirtli með óþarflega mikið gel í hárinu, hefði ég sennilegast gengið á dyr

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Já Kibba-hann var ótrúlegur maðurinn!!! Ég undra mig enn á honum. Maður var í sjokki eftir fræðslutímana, kom heim og spurði hvort maður færi í alvörunni til helvítis ef maður gerði hitt og þetta. úff. Ef að hægt væri að láta endurferma mann þá myndi ég hiklaust gera það.

Nafnlaus sagði...

Mikil verður gleðin þegar frú Ameríka lendir á klakanum ásamt sonunum.. vona bara að þú verðir búin að fá rétt gleraugu til að sjá þau öll almennilega.. :)

Bestu kveðjur,
Linda

Nafnlaus sagði...

Jæja nú er farið að styttast all verulega í farfuglana þína :)
Ég er einmitt sjálf á leiðinni austur og hlakka mikið til. Vonandi sjáumst við eitthvað.
Og mikið er ég sammála þér, ég er fegin að blessaður veturinn er að renna sitt skeið.
Kær kveðja, Elsa Lára.

Védís sagði...

Ekki man ég nú eftir athöfninni sjálfri en ég man vel eftir veislunni. En helst man ég þó eftir dögunum fyrir ferminguna hennar Svanfríðar.

Mikið verður gaman hjá ykkur þegar Svanfríður og strákarnir verða komin til ykkar, ég vildi óska að ég gæti hitt þau almennilega. Finnst verst að komast ekki á Höfn.

Kveðja úr pestarbælinu í Breiðholtinu.

Nafnlaus sagði...

Hahahaha já blessaður presturinn, honum fannst ekki mikið til okkar koma. Vá hvað ég var stressuð fyrir tímana hjá honum, tækist mér að fara með sálminn eða ekki og hversu miklar skammir fengi ég ef mér mistækist? Úff það er nú gott að það er búið:)
Mikið óskaplega skil ég þig Gulla mín að vera farin að telja niður. Ég hugsa oft um ykkur þegar ég er að vorkenna mér yfir hve fjarlægðin er löng á milli mín og minnar fjölskyldu. Það leiðir til þess að aumingja ég þarf að hætta að vola og hisja upp um mig brækurnar:)
Eigið góða páska
kv. Helga Sigurbjörg

Nafnlaus sagði...

Blessuð,
Nú er þetta alveg að takast og áður en þú veist af verða litlir strákar farnir að skríkja út um allt hús.

Bestu kveðjur til þín og Bróa og Gleðilega Páska*

Guðrún í Ameríkunni*

Nafnlaus sagði...

tíminn líður trúðu mér:)

mikið svakalega hljómar þessi prestur lítið....vel?

Unknown sagði...

Sólarkveðja til þín Gulla mín. Þú verður upptekin næstu daga við að knúsa litla kroppa; og stóra... Það fer nú vonandi að styttast í vorið og þá verður ófæra innkeyrslan þín bara eins og ljótur draumur í minningunni;-) Knús, Silja

Nafnlaus sagði...

Tvenn gleraugu eru bara vonlaus mál og "kók" botnar enn verra, ég vona að réttu glerin verði komin á nefbroddinn áður en Ameríku"fararnir" mæta á svæðið...bara svo þú getir nú örugglega séð þau vel!

Það er svo gott að telja niður að komudeginum sem tilhlökkuninni veldur, og mundu að njóta samverunnar vel! Vertu líka svo væn að taka ekki upp á því að telja niður í brottfarardaginn þeirra, ég veit það vill stundum gerast og þá á maður það til að gleyma að njóta "nú-sins"

Bestu kveðjur