mánudagur, 5. maí 2008

Fyrr var oft í koti kátt...

Ekki misskilja titilinn, en kotið er afar tómt núna. Var líflegra, er þó kátt en bara hljóðara. Ég ætla ekki að skrifa sorgarpistil en læt ykkur þarna úti vita að ég sakna Ameríkufaranna. Þó er þetta að jafnast út. Ég held ég taki undir með nokkrum bloggvinum að það er afar erfitt að horfa á eftir ástvinum á flugstöðinni. Allir verða einhvernveginn svo umkomulitlir. ---Dvöl þeirra hér var dásamleg, og við afi urðum börn að nýju. Þrátt fyrir ótrúlegan annatíma upplifðum við öll samveruna á besta hátt. Svanfríður mín er svosem ekki óvön miklum önnum foreldranna á þessum tíma árs. Eitt hefur verið heilagt hér á bæ í áranna rás, kvöldmatur með öllum! Þá er dagurinn krufinn og hver og einn segir það sem honum liggur á hjarta. Í hjarta Eyjólfs var ýmislegt sem þurfti að fá krufningu. Hún var veitt ef hægt var..nú ef ekki þá spurði hann opineygður: APELLU? (Hann getur ekki sagt "afhverju") Ég spurði hann einn daginn apellu við gerðum þetta ekki svona. "Amma mín, talaðu íslensku"! Afinn spurði snúð daginn eftir apellu þetta eða hitt væri svona. Eyjólfur leit í forundran á hann og leiðrétti strax. "Afi, ekki apellu, það er AFPELLU". Þar höfðum við það. Hvað er eitt lítið F milli vina?--- Natti tók fjögur skref á íslenskri grund, en nennti ekki að ganga lengra, og ég hafði ekki roð við honum á skriðinu. ---Svanfríður er falleg og góð sem örvar syni sína frábærlega. Ég þarf því ekki að kvarta, öllum líður vel. Það er bara þetta með fjarlægðina. Talandi um hana. Við komum heim í gærkvöldi úr vel heppnaðri söngferð karlakórsins, en heimferðin tók lengri tíma (frá Hvolsvelli) en að fljúga til Boston! --- Vortónleikar Jökuls eru frá þetta vorið ásamt öðrum framkomum í bili svo og landsmót kvennakóra. Það er gaman að geta sagt það á opinberum vettvangi að mótið gekk mjög vel og allir gengu glaðir frá borði. Ef einhver kvennakórskona kíkir hér inn þá þakka ég fyrir að fá að hafa tekið þátt í mótinu. Kórkonur og eiginmenn þeirra stóðu vel undir öllu því amstri sem fylgir því að halda svona stórt mót. Framundan er svo meiri tónlist, próf, tónleikar, en inn á milli dudda ég í sólskálanum. Þar er nýtt skraut sem ég mun sýna ykkur í næsta pistli. Þar til bið ég ykkur vel að lifa.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ, og ó! Svona er lífið stundum leiðinlegt.

Hlakka til að sjá nýjasta undrið úr skálanum.

Bið að heilsa,
B

Nafnlaus sagði...

AFpellu skrifar þú ekki oftar, alltaf svo gott að sjá nýjan pistil frá þér!

já flugvöllurinn er ekki vinur minn, þó hann sé alltaf upphaf af ferðalögum sem ég yfirleitt nýt að takast á við.

gaman að heyra að það er nóg að gera hjá ykkur, þannig á það að vera...því þegar ekkert er á dagatalinu, gerist ekki neitt, og manni verður ekki neitt að verki, en þegar allir dagar eru troðnir, tekst manni á undarlegan hátt að sinna öllu sem maður vill og meiru til, undarlegt nokk....

bestu kveðjur austur/austur...

Ameríkufari segir fréttir sagði...

ÞEtta AFPELLU eða APELLU minnir mig alltaf á söng án undirleiks, acapella:)
Hann segir enn afpellu og tölustafur. Natti segir hinsvegar "jæja" af miklum móð og "ga" fyrir takk:)
Gaman að þessu.
Heyrusmt svo bráðum, elska ykkur,Svanfríður

Nafnlaus sagði...

þeir bræður hljóma nú sem einstaklega skemmtilegir snáðar (eins og þeir eiga kyn til;)

Nafnlaus sagði...

Æ, já. Það er oft erfitt að vera langt í burtu. Gaman að Svanfríður minnist á "jæja". Mér finnst þetta svo kerlinga-/karlalegt, þegar þau dæsa og segja "jæja" hátt og skýrt og með mikill áherslu. Ástrós mín gerir það jafnan þegar hún vill fara að komast af stað og ég er of lengi að tala við einhvern annan en hana...Yndislegir litlir englar sem gefa lífinu, ekki bara lit, heldur allt litrófið:-) Góða helgi Gulla mín. Kv. Silja

Nafnlaus sagði...

æ, ég koma bara alveg nafnlaus þarna, skúsa mía.

Nafnlaus sagði...

Það vantar ekki lífið og músikina í kringum þig og meira en nóg hefur þú að gera. En ég skil þó að ekkert hafi jafnast á við kliðinn sem fylgdi Ameríkuförunum.
Kær kveðja Guðlaug mín og gleðilega Hvítasunnu.

Egga-la sagði...

Skil hvað þú meinar. Það er alltaf tómlegt þegar fjölskyldan fer aftur til síns heima.Hvort sem það séu börnin mans eða foreldrar eins og í mínu tilviki.

Gróa sagði...

Elsku Gulla mín og Brói - Takk fyrir síðast :)
Mikið var gaman á landsmótinu og það var yndislegt að hitta ykkur.
Vona að saknaðartilfinningarnar séu að breytast í tilhlökkun ...... fyrir að hitta börnin ykkar aftur :)

Bestustu kveðjur frá konunni sem keyrir um á "sundgleraugunum! hahahahahaha

Syngibjörg sagði...

Gaman að frétta að mótið hefði gengið vel og leitt að hafa ekki geta tekið þátt....koma tímar...