föstudagur, 25. apríl 2008

Jamm og jæja.

Allt tekur enda, en þennan endi á ég erfitt með og því best að blása það frá sér. Yfirleitt er ég glöð og kát, en nú er ég full af söknuði því Ameríkufararnir fóru með morgunfluginu suður og kotið er svo tómt. Ég veit, ég veit,--- við erum búin að eiga yndislegar vikur og upplifa margt, en núna er allt samt svo tómt. Ég veit líka að öllum líður vel og ekkert amar að, en samt...Ok..ég veit þetta alltsaman. Mér bara líður svona núna og það skal í ykkur sem nenna að lesa þessar kvartanir. Móðurtilfinningin er sterk, en ég kann ekki að lýsa ömmutilfinningunni, hún er eitthvað fiðrildi sem flögrar um heila, maga og hjarta. Kökkurinn er mjög ofarlega í kokinu og þarf lítið útaf að bera til að hann blómstri. Núna er ég að æfa t.d. lagið ömmubæn fyrir landsmót kvennakóra, og það er stutt í að kökkurinn fái að blómstra við það. Ætla samt að standa mig þegar stundin rennur upp. Kæru bloggvinir nær og fjær, ég óska ykkur gleðilegs sumars og þakka fyrir veturinn. Eftir erilsama tónlistarhelgi ætlum við afi að keyra suður og fylgja okkar fólki úr hlaði. Minna getur það ekki verið. Þar til næst kveður amman og biður góða vættir að vísa veginn.

12 ummæli:

Blinda sagði...

Gleðilegt sumar elskuleg.Þetta lagast :-) Kiss og knús XXX

Nafnlaus sagði...

Æi kæra vina, ég þekki þetta þó ekki frá ömmu hliðinni sé séð, að kveðja fólkið sitt til langs tíma er bara eitthvað sem maður á ekki að þurfa að gera....En svona er lífið! Ég fann það í sumar að það var mér auðveldara að hafa mitt fólk ekki með út á flugvöll, fannst betra að kveðja þau heima, þar voru þau í sínu umhverfi og ekki eins umkomulaus og þau eiga það til að vera á flugvellinum.....eitthvað til að athuga?? Ég táraðist alveg niður í tær við lesninguna þetta er svo sárt, en þið komið fljótlega út til okkar er það ekki? Og Svanfríður mun koma til með að heimsækja ykkur reglulega líka.
Kannski það reynist einhver sálarhjálp núna, er ég viðurkenni að ég sjálf á í raun betra, kærara og innilegra samband við mína foreldra núna heldur en þegar ég bjó í næsta bæ frá þeim, og allt var þá svo sjálfsagt. Nú met ég hvert skref, hvert símtal þúsund sinnum betur en ég áður gerði....kannski aldurinn, fjarlægðin hver veit...ég veit bara að að ég á betra samband við mína foreldra þó í fjarlægð sé, í dag, heldur en ég gat nokkurn tíman fyrirséð hér áður fyrr.....

Kærar kveðjur, það er að birta til á Íslandi, dagana að lengja og fyrr en varir sjáist þið aftur, vittu til.....

Nafnlaus sagði...

Æ, nú grét ég pínulítið á flatkökuna mína.

Vegna þess að ég þykist skilja þig. Þó ég sé eki amma, er ég móðir og dóttir.

En þetta lagast Gulla mín. Innan tíðar verðurðu á kafi í rósunum, og garðrækt yfirleitt...

Knús á ykkur Bróa.
B

Nafnlaus sagði...

ég reyni að muna þegar mér líður svona að ég sé heppin að eiga fólk að sem ég sakna með verkjum, hin hliðin á peningnum...

gleðilegt sumar Guðlaug og hjartans þökk fyrir pistlana þína og öll hlýlegu kommentin!

Nafnlaus sagði...

Knús úr Njarðvíkunum. Ég er alveg glötuð á flugvellinum; finnst best að kveðja heima. Sammála Stellu, eitthvað svo ömurlegt að skilja sitt fólk eftir umkomulaust á flugvellinum. Þetta verður tómlegt um sinn, svo falla hlutirnir aftur í sitt gamla far og þá hjaðnar söknuðurinn, þó hann hverfi auðvitað aldrei. Það er gott að elska, finna til í hjartanum, þá finnur maður hvað ástin er djúp og raunveruleg. Kv. Silja

Nafnlaus sagði...

En hvað ég skil söknuð þinn vel Guðlaug mín, það hlýtur að vera tómlegt eftir svona heimsóknir vitandi að það líður langur tími þar til næst. En umfram allt er gott að vita að öllum líður vel og að tíminn er þrátt fyrir allt svo fljótur að líða.
Ég sendi ykkur góðar kveðjur og Gleðilegt sumar.

Inda sagði...

Gleðilegt sumar frænka ...

Það var gott hljóðið í henni frænku minni þegar ég sótti hana á völlinn og þegar hún kom með guttana í mat í gær ...

Hún saknar þín líka og Eyjólfur talaði mikið um að fara drífa sig heim til ömmu.

Væri gaman að sjá fram í ykkur ef þið hafið tíma ...annars óska ég ykkur gleðilegs sumars:)

Kveðja Inda

Nafnlaus sagði...

Æ, Gulla það er erfitt að kveðja sérstaklega þá sem standa manni næst og er langt þar til maður hittir aftur. Það er líka allt í lagi að fella tár þegar kökkurinn er stór. Hann losnar ekki öðru vísi.
Þau eru falleg og flott bæði dóttir og ömmustrákar.
Kveðja Íris Gíslad

Nafnlaus sagði...

Elsku Gulla mín.
Skil þig vel. Alltaf erfitt að kveðja. Kannast við það þó fjölskyldan mín sé ,,bara,, á Hornafirði. Ekki lengra en þangað fyrir mig þegar mig langar heim.
Knúsur og gleðilegt sumar.
Kveðja, Elsa Lára.

Syngibjörg sagði...

Kveðjustundir haf alveg fengið nýja merkingu hjá mér upp á síðkastið og nú skil ég afhverju fók fellir tár á slíkum stundum. Það er nefnilega gott að elska eins og kóngurinn sagði.

Nafnlaus sagði...

Já svona er þetta nú. Ég er hins vegar himinlifandi yfir því að Danni minn og Dóra hans ásamt litla afadrengnum honum Guðmundi Ívan koma til okkar á föstudaginn kemur. Ekkert planað bara ódýrt fargjald og um að gera að skella sér til Ömmu og afa í garðinn í Vestertoften. Er alveg að skilja þessa ömmutilfinningu þetta er bara skemmtilegt. Gangi ykkur vel á ferðalögunum öllum bestu sumarkveðjur héðan frá DK Svava og Siggi afi

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Halló elsku mamma. Nú busla þeir í baði, kútarnir eftir langan og erilsaman dag. Eyjólfur talaði eins og versta kjaftakerling alla leiðina heim af vellinum og alltaf þegar ég tók þátt í umræðunum þá bað hann mig um að hætta að tala því "I'm talking to MY pabbi" :)
Heyrumst, ég elska ykkur , Svanfríður.