sunnudagur, 6. júlí 2008

Var skotin...og er skotin!

Syngibjörg beindi haglaranum á mig, og ég læt vaða. Veit samt varla hvað ég á að segja um mig, svo ég ætla að byrja á óskostunum. T.d. er ég langrækin ef einhver gengur illa á minn hlut og er oft óþolinmóð yfir einhverju sem ekki skiptir máli. (asnalegt) Að vísu er ekki ókostur í mínum augum að þola ekki óstundvísi, en hún á ekki að líðast. Þoli ekki hvað ég er sein að fatta brandara, og trúi öllu sem í mig er logið.(nema illmælgi) Er B manneskja þegar ég get leyft mér það, (mörgum finnst það óskostur) get alls ekki borðað brauðsúpu og finnst hafragrautur óyndislegur. Elska kaldan bjór en þoli ekki koníak, rauðvín og viský. Þetta eru ókostirnir sem mér dettur í hug núna, en ég er viss um að þeir eru stærri og fleiri, en kostirnir kæru bloggvinir eru náttúrulega miklu fleiri en lestirnir!! Réttlæti, óeigingirni, stundvísi og heiðarleika reyni ég fylgja af bestu getu. Mér finnst hin almenna manneskja spennandi og hef gaman af að hitta gott fólk.--- Aðra læt ég í friði. ---Einn af mínum "ókostum" sem ég ræð þó lítið við er innilokunarkennd. Sennilega eitthvað gamalt. Allavega verð ég að ráða aðstæðum í það og það skiptið svo ekki fari illa. Meðan Svanfríður mín bjó fyrir norðan áttum við mæðgur saman þar nokkra daga í sól og sumaryl. Ég var eitthvað dauf yfirlitum svo dóttla mín benti mér á snyrtistofu í bænum þar sem ég pantaði lit á augnkonfektið. Lá þar á bekk með augun límd aftur og leið ekki par vel þrátt fyrir rólega tónlist. Allt í einu finn ég hvar snyrtidaman gengur út úr gluggalausu herberginu, slekkur ljósin og lokar hurðinni varlega á eftir sér. Mér varð ekki um sel, en reyndi að harka af mér. Ég harkaði af mér í smástund en var þá farin að skjálfa töluvert en reyndi að anda RÓLEGA --rólega...inn út, ínn út. Dugði ekki til svo ég fór að kalla, en mjög lágt, fannst asnalegt að geta þetta ekki. Enginn heyrði svo ég tók að æpa, og var orðin hálfhrædd um að ég yrði blind ef ég opnaði augun. Loksins var ég bænheyrð og daman kom inn þar sem ég hálfkjökraði að mig sviði í augun! --Algjör lygi.-- Þegar ég gat opnað augun sagði ég dömunni að ég væri haldin innilokunarkennd og mig sviði ekkert í augun. Þetta var alltsaman óyndislegt eins og hafragrautur. Daman reyndi hvað hún gat að spjalla við mig til að ég róaðist almennilega og spurði t.d. hvort ég væri "gÓlfari". Þar sem ég var stödd í ókunnu bæjarfélagi skildi ég ekki spurninguna ( þið vitið, Gaflari og þessháttar) og sagðist því vera Hornfirðingur. Þá stóð daman á gati og öll senan því orðin dálítið vandræðaleg. Þannig er að ég ber alltaf lítið gullnisti um hálsinn sem er áttundapartsnóta, og daman hélt það væri golfkylfa! Hún talaði um "gÓlf" svo það var engin furða að ég misskildi hana. Golf og gólf eru einfaldlega ólík orð. --Get hlegið að þessu núna, en bara smá. Heiða Dís, sem er mín kona hér á Höfn hefur eftir þetta séð til þess að ég get farið í svona yfirhalningu án þess að fríka út. Það gerir hún með nærveru sinni. ---Nú er Humarhátíðin á enda og var skemmtileg í alla staði. Hún fór það vel fram að fjölmiðlar höfðu lítið sem ekkert um hana að segja. Rölt á bryggjunni í góðu veðri gerir manni gott + góðir gestir. Titillinn var: var skotin og er skotin. Er búin að uppljóstra ýmsu svo ég get alveg látið það fylgja að ég er ennþá skotin í bóndanum! Þar til næst.

7 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ókostirnir sem þú taldir upp gera þig að því sem þú ert og eru því kostir í mínum huga.
Við erum komin heim, ferðin tók þvílíkt langan tíma en við komumst á leiðarenda sem er yndislegt.
Ég heyri í þér á morgun. Luf jú, Svanfríður

Nafnlaus sagði...

ohhh ég vildi að ég gæti farið eitthvert og látið lita augnhárin, hér er þetta ekki gert.....þú veist, lögmál á hendur snyrtifræðings ef okkur amerísku kveifum svíður....
mér finnst fátt betra en að liggja flöt á bekk, með teppi breitt yfir mig og láta nostra við andlitið á mér, róleg músík, dimma, og alein. ég einhvern veginn flýt af stað, og týni eigin kroppi í lausu lofti, svo gott!

en svona erum við misjöfn...
bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

Hæ mín kæra
Hvað ég skil þessa tilfinningu! Ég ætlaði í eitthvað tæki í Tívolí í Smáralind með börnum og barnabarni.Þarna var maður bundinn niður, en maður var ekki bundinn niður með einhverju bílbelti eða svoleiðis heldur einhverju þvílíku HROSSABELTI að þú gast ekki hreyft þig hvorki til hægri né vinstri, bara njörfaður niður. Ég fékk þessa tilfinningu og byrjaði að kalla skjúsmí, skjúsmí (þetta tívolí kom frá Bretlandi) í starfsmann. Hann kom og horfði á mig svona nokkurn veginn á hlið (eða með þeim svip)er ekki allt í lagi hér? Nei, losaðu mig, losaðu mig og hleyptu mér út, ég brjálast!!
kv
Eyba Dóra
Þú ert yndislegust og átt að vera áfram eins og þú ert!

Nafnlaus sagði...

haha! góður pistill:D

Nafnlaus sagði...

og mikið eruð þið bóndinn heppin:)

Nafnlaus sagði...

Njóttu þess að vera skotin, það er fátt sem jafnast á við slíka tilfinningu nema þá kannski framhaldið á því.
Kær kveðja í Fjörðinn fagra.

Syngibjörg sagði...

Mikil lukka er það að vera skotin,
og ennþá meiri lukka að það skuli vera sá sem þú hefur deilt ævinni með.
Skemmtilegar myndir af málningastússi þínu - mikil hetja ertu,lætur ekkert stöðva þig.

Og yndislegar blómamyndir.
Haltu áfram að njóta sumars hvort sem er á Spáni eða í Hornafirði.
Hóst og hor kveðjur úr firðinum fagra.