mánudagur, 22. september 2008
Hrakfarir -- gamlar og nýjar.
Titillinn er máske ekki alveg kórréttur, en samt. -- Fyrir fjórum árum fæddist litli snúðurinn minn, hann Eyjólfur, eða þann 20. sept. Hnátan mín bjó þá á Akureyri og var ákveðin í að fæða barnið þar. Ásamt Bert ætlaði ég að vera viðstödd fæðinguna. Fyrir áætlaðan fæðingartíma hringdi hin verðandi móðir um miðja nótt og var þá allt komið í gang. Ég sem sagt rauk af stað með töskuna tilbúna og leist mínum besta helmingi ekki sem best á aðstæður. Þetta gerðist nefnilega of snemma fyrir "rétt" tímaplön. Hvað um það, á mínum fjallabíl brunaði ég frá Hornafirði til Akureyrar. Hafði fram að þeim tíma ALDREI tekið olíu á bílinn úr sjáfsala því bestemand sá um slíkt. Samt gat ég það á Egilsstöðum! Mikið lifandis ósköp var Jökuldalurinn langur, svo ég tali nú ekki um öræfin þar fyrir austan. Til að gera langa sögu stutta þá náði ég vel í tæka tíð, og lítill maður leit dagsins ljós, fallegastur og bestastur! Nóttinni eyddu svo foreldrarnir í hreiðrinu á spítalanum með sínum kút, en ég svaf í íbúð hnátunnar. En mikið hvað hann ringdi! Ég var uppgefin og sofnaði fljótt, en þurfti að um miðja nótt á klósett. Þegar ég steig fram óð ég vatnið, og í minningunni upp í klof. Hvað gerði ég þá? Hringdi í besta helminginn og grátbað um ráð frá Hornafirði, en yndislegir eigendur hússins bjuggu á efri hæðinni, en ég hafði ekki rænu á að leita hjálpar þar. (Ásta og Bensi, ef þið lítið hér við þá segi ég: takk fyrir allt. Ég hafði bara ekki vit á að vekja ykkur) Minn elskulegi bað mig ofur rólega að líta á niðurfallið fyrir framan útidyrnar, jú jú, þar var allt í fári. (kjallari) Laufblöð haustsins höfðu yfirfyllt niðurfallið og vatnið átti því greiða leið inn í íbúðina. Þá byrjaði ballið hjá hinni ofurþreyttu frú. Balar,fötur, handklæði, fægiskóflur, gólf-og borðtuskur---allt var notað. Veit ekki hvernig ég fór að þessu, og alltaf með hinn helminginn á eyranu. Í dögun voru gólfin þurr, en allt annað blautt og Eyjólfur svaf í faðmi góðra foreldra. -- Allt fór þó vel og ég er stolt amma tveggja snúða. ---Ég var líka viðstödd fæðingu Natta, en þá gegnum síma, þökk sé tækninni.--- Hrakfarirnar í dag eru: Rótarbólga og penesilín, brotnaði úr framtönn í kvöld og gemsinn minn skiptir um hringitón sí og æ, þannig að ég veit aldrei hvort ég á hringinguna eður ei. Það bjarta í þessu er að tannsi tekur mig í fyrramálið og Martölvan sér um gemsann. Penesilínið verður bara að fá að njóta sín um stund, en þar til kveð ég þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Þetta var sannkölluð annasamur sólahringur hjá þér:) Akstur á 120 km til Akureyrar, fyrsta barnabarnið og stórflóð í íbúðinni. Er nokkuð gaman að lífinu ef það er alltaf logn? Elska þig.
Til hamingju með að hafa átt ömmutitilinn í heil fjögur ár, og já til hamingju með snúðana báða líka! Nógu margt frá þessum degi hefði verið hægt að leggja inn í minningarbankann þó ekki hefði hrakfarir þínar fylgt með - en þetta gerir daginn bara ljóslifandi í þínum huga ... endalaust!!
(þú verður að fara með símann þinn til gauranna sem selja símana og fá þá til að læsa einni hringingartíðni inn - kannast við þetta því dóttir mín skiptir út "laginu" mínu reglulega og ég þekki minn aldrei...)
vona að verkjatöflur og sýklalyfin haldi þér í góðu horfi - farðu vel með þig...
batnibatn! vona að tannsi verði ekki of vondur við þig og ekki of þungur pyngjunni.
gaman að heyra söguna af fæðingu Eyjólfs:)
Til hamingju - ekkert jafnast á við ömmuhlutverkið. Þetta hefur aldeilis verið törn hjá þér þarna fyrir norðan - ekki skrýtið að þetta komi upp í hugann á afmælum Eyjólfs.
Ég vona svo að tannsi geti komið þér samt lag fljótt og vel.
Kær kveðja,
Þetta hefur sannarlega verið mikil þolraun fyrir þig á margan hátt, en auðvitað stendur fæðingin uppúr og svo ömmuhlutverkið. Til hamingju með drenginn og hvernig þér tókst að bjarga þér út úr vandamálunum. Góðan bata,
kveðja Þórunn
Til lukku með ömmutitilinn sem þú hefur haft í 4 ár. Úff, ekki gaman að lenda í rótarbólgu og tannlæknum eða það finnst mér ekki.
Vona að þú sért búin að jafna þig. Kær kveðja, Elsa Lára.
Barattukvedjur fra DK Svava
Já það hefur sannarlega verið nóg að gera þennan sólarhring sem Eyjólfur fæddist.
Átt svo samúð mína í sambandi við tönnina - áts -
Hæ Gulla.Leit hér inn í dag,skrepp stundum frá Svanfríði.Þessi umrædda nótt var þér erfið. Mikið vildi ég að þú hefðir bankað í svefnpurkunnar á efri hæðinni.
Þakka þér stórgóða pisla sem ég hef mjög gaman af.Kærar kveðjur úr Lögbergsgötunni Ásta.
Skrifa ummæli