sunnudagur, 7. september 2008
tölvunörd?
Heil og sæl öllsömul. Það er ekki alveg svo að ég sé pennalöt, annað kom til. Fyrir rúmu ári tók tölvan mín uppá því að frjósa, þrátt fyrir gott hitastig í húsinu! Stundum var allt í lagi, en svo komu dagar sem allt fraus nánast í hel. Ég var orðin nokkuð lunkin við að bæta ástandið með því að slökkva á henni og "ræsa" hana aftur. Gott mál...en bara stundum, og ekki gerði ég svosem neitt í málunum. Hélt bara að ef ég styngi hausnum í sandinn þá hyrfi vandamálið. Í fyrri viku gekk þetta vandamál svo langt að besta helmingnum var nóg boðið og arkaði með gripinn undir armkrikanum til meistarans. Þar sem tölvan er samskiptatæki við fjölskylduna í litla bláa húsinu var brýnt að leysa málið snöggt og örugglega. Meistarinn hringdi og tók að spyrja mig hinna skringilegustu spurninga: Hvernig var vírusvörnum háttað, hvenær tók ég til í gripnum síðast og bla bla, en þegar stórt er spurt verður nefnilega fátt um svör. Ég hef alltso alls ekki gert neitt af því sem meistarinn spurði um. Ég á þennan grip, tek á móti pósti, sendi póst, tala við Ameríkufarann og punktur! Ég tek til heima hjá mér, en enginn hefur sagt mér að ég þurfi að TAKA TIL í tölvunni, eða hvernig á að gera það. Í skólanum vinn ég í tölvunni þegar ég þarf, en þar eru aðrir sem sjá um þessa svokölluðu tiltekt. --- Jamm.--- Meistarinn fann tugi vírusa í gripnum mínum, og TÓK TIL. --- Hallelúja, og málið leyst.--- Eða það hélt ég, en hún frýs enn. Þó er hitastigið vel yfir 20 gráðunum! Nú er bara að krossa fingur og sjá hvort þessi texti skilar sér á veraldarvefinn. En ég veit að meistarinn reddar þessu ef hægt er, en ofaná allt annað þarf ég að læra að taka til í þessu leiðindarapparati. --Tæknin er góð, en getur valdið höfuðverk hjá þeim sem eru tölvufatlaðir, og það er ég svo sannarlega. Hækjurnar mínar eru hjóm eitt miðað við þessi ósköp!---Vikan sem leið var góð í kennslunni og virðist sem stundataflan standi því enginn hefur kvartað, og held ég því ótrauð áfram. Kórastarfið er að detta inn á næstu dögum og fer því vetrarrútínan að rúlla eins og hún hefur gert síðustu 30 ár eða svo. Mér líkar reglulegt tempó.--- Kæru bloggvinir, annaðhvort læri ég almennilega á tölvuna eða hendi henni útí horn. Tölvunördinn kveður þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
8 ummæli:
Ég verð að viðurkenna að þó ég skilji vel hversu hvimleitt það er að eiga tölvu sem ekki virkar þá kemst ég ekki hjá því að brosa stundum yfir tölvukunnáttu þinni-sem þó er mun meiri en þú gerir þér grein fyrir:) VOnandi kemst tölvan í samt lag og hættir að frjósa því það er okkur jafn mikilvægt að sjá ykkur og það er fyrir ykkur að sjá okkur. Góða nótt og sofið vel og við heyrumst bráðlega.
iss, þú reddar þessu af því að þú verður að gera það. tölvan er svo mikilvægt samskiptatæki.
ohh já tölvur....ég er svo vanaföst að ég á eina sem er alger antík, hún er orðin sjö ára en er þó reglulega send í helgarheimsóknir til svila míns sem er ekki tölvufatlaður maður....hann leikur við hana, blæs frá henni öllum kvillum og getur meira segja í hana orku bætt.....
en nú sagði svilinn stopp, hann gæti ekki haldið henni gangandi með öllum þeim tilætlunum sem ég legg á hana! ég má til að fá nýja....
ég dáist að því að þú haldir síðu gangandi, sért að nota tölvu til að vera í sambandi við umheiminn.....
sko ekki allir sem ná því það er á hreinu!!
bestu kveðjur
Þegar það verður búið að henda út vírusunum hjá þér,þá skaltu bara passa þig á að opna aldrei post sem þú veist ekki frá hverjum er og merkja hann til eyðingar. Það koma fjölmargir póstar inn hjá mér daglega sem fara óopnaðir beint í ruslið. Málið er bara, að svo þarf maður að fara út með ruslið. Þetta kemur upp í vana og tekur svona eina mínútu í hvert sinn.
Gangi þér vel Guðlaug mín.
Kær kveðja
Eins og tölvur eru frábær tæki þegar þær eru í lagi, þá eru þær hreint út sagt ömurlega leiðinlegar þegar þær eru með vírussýkingar.
En Ragna hefur rétt fyrir sér og það borgar sig að vera svolítið "paranojd" varðandi ókunnan tölvupóst og annarlegar vefsíður :) gangi þér vel vona að hreysti einkenni alla fjölskylduna og tölvuna líka á vetri komandi :)
Þessar tölvur eru ekki það skemmtilegasta sem til er. Ég gæti stundum hent minni út í horn og látið hana vera þar, ef ég væri ekki svona háð henni.
En sem betur fer á ég tölvunörd heima sem kann að laga svona vandræði :) Minn yndislegi eiginmaður reddar málunum.
Hafðu það gott Gulla mín, sjáumst vonandi þegar ég kíki í fjörðinn í lok október.
Bestu kv. Elsa Lára.
Lærðu frekar á hana ;o)
Ég tek undir með Álfheiði, það borgar sig að taka dálítinn tíma í að lær á hvernig tölvan vinnur, þá er auðveldar að bregðast við/koma í veg fyrir vandamál. Annars kannast ég vel við þá tilfinningu að langa að henda tölvunni út í hafsauga, en það er löngu liðin tíð.
Bestu kveðjur
Þórunn
Skrifa ummæli