föstudagur, 10. október 2008

Lesist með húmorinn í fyrirrúmi.

Eins og flestir sem ég þekki og hitti eru þreyttir á fréttum dagsins, og ég ætla ekki að bæta þar um. Hugurinn er þó hjá þeim sem hafa unnið hörðum höndum allt sitt líf og tapað sparnaði sínum, og hugurinn er líka hjá hinum venjulega launamanni sem á í erfiðleikum. Ég semsagt vona að við sem þjóð náum að vinna úr þessu ömurlega ástandi, og að þeir háu herrar sem eru í eldlínunni haldi sjó. Framhaldið verður að skýrast síðar. ---Ég hef alltaf haldið uppá góðar fréttir, en með því segja sumir að ég stingi hausnum í sandinn og vilji ekki sjá lífið eins og það er. Það er ekki rétt, ég vil bara halda geðheilsunni! Í dag söng litli Eyjólfur fyrir mig sönginn um dagana, og það var fallegt. Hann er að vísu ekki kominn með alla dagana ennþá, en þetta mjakast. Natti klifraði upp á borð í beinni og var örlítið rasssíður! Þeir bræður eru yndislegir og ég, þessi algjöra tæknifæla elska skybið því það viðheldur nándinni. Svanfríður syngur mikið fyrir strákana sína og elskar Eyjólfur músíkina um Pétur og úlfinn. Nú er altso bókin komin út fyrir börn og er hún á leið til Ameríku. Eyjólfur kíkir á póstbílinn á hverjum degi og bíður, og hann bíður ogg bíííður! Natti nýtur góðs af stóra bróður og er farinn að dilla sér. Ég sakna þeirra, en tíminn flýgur, og áður en varir verður allt gott aftur og við besti helmingurinn á leið til Cary. Þá verður gaman. Í þessum skrifuðu orðum rifjast upp fyrir mér þegar við vorum að koma úr einhverri mall-ferð s.l. sumar í Cary. Á rauðu ljósi renndi maður í bílnum við hliðina niður rúðunni og spurði mig hvert við værum að fara. Jú, ég vissi það og benti vel og rækilega. Ekki vissi ég nákvæmlega þá hvert dóttir mín ætlaði því upplýsingar af þessu tagi eiga bara heima í Hlíðunum! Ég í sakleysi mínu var að ég held að vísa manninum í rétta átt, en í hvaða átt veit ég ekki. Held að mér höndum næst. Ein góð að lokum: Þegar ég á góða stund með sjálfri mér spila ég gjarnan skrabbl við sjálfa mig, og vinn mig iðulega. (stundum vinnur Sigtryggur) Besti helmingurinn ruddist inn í eina svona róstund, gekk að útvarpinu, skipti um rás gekk til dyra og hvarf. Jamm, hver var tilgangurinn? Veit ekki--- en ég veit að þar til næst ætla ég að spila fallega yfir góðri vinkonu og líka að spila við brúðkaup. Kveðja á alla bæi.
Natti undir styrkri afa hönd að læra að labba, skref fyrir skref
Vinnumaður sem kveður að

5 ummæli:

Guðlaug sagði...

Án gríns-þegar mamma sagði manninum hvert hún væri að fara með þvílíkum svip-ég hélt ég myndi míga á mig af hlátri:)
Okkur hlakkar jafn mikið til að fá ykkur hingað og ykkur að koma, það get ég sagt ykkur. Það verður frábært að fá ykkur og fyrir strákana að kjassast í ömmu og afa á nýjan leik. Elska þig:)

Nafnlaus sagði...

Já lífið væri ekki eins gott án tækninnar Guðlaug mín. Það er frábært hjá þér að geta séð ömmustrákana í beinni alla leið frá Ameríku.
Mikið vildi ég að þú byggir nær þá gætum við skrabblað saman, mér finnst það svo skemmtilegt, en betri helmingnum finnst það ekki eins gaman.
Kær kveðja til ykkar - Brosum.

Nafnlaus sagði...

Já þú ert rík Gulla mín. Ég hugsa oft til ykkar og hve erfitt það hljóti að vera fyrir ykkur að vera svona langt í burtu frá litla bláa húsinu og þeim sem þar dvelja. Þið eruð hetjur!
Kveðjur í fjörðinn fagra.
Helga Sigurbjörg

Nafnlaus sagði...

sendi góðar kveðjur á Höfn, dáist að ykkur fyrir óbilandi bjartsýnina..

Nafnlaus sagði...

Kíkti við ... bestu kveðjur í fjörðinn fagra.

Guðrún