föstudagur, 5. desember 2008

Af rauðum er þetta að frétta.

Mikið varð ég glöð í dag þegar ég gat vígt nýju tútturnar, og verð ég að segja að mér finnst þær verulega “kúl”. Litlu rauðu pjattskórnir eru það líka, semsé, það er því virkilegur stæll á frúnni þessa dagana. Ég vildi að ég gæti hoppað kátínuhoppið hennar Baunar, svo sæl er ég með fínheitin.--- Bærinn minn er orðinn mjög jólalegur og reyna allir að lýsa upp skammdegið með allskonar fínheitum. G-lykillinn er kominn á minn bæ ásamt öðrum útiljósum og er ég alsæl með það. Jósep og María eru kominn með allar sínar eigur á nótnaskápinn og þótt ég flissi alltaf svolítið þegar ég horfi á dýrðina er mér farið að þykja vænt um gripinn þrátt fyrir diskóljósin og tréð í strompinum--- Í skólanum er mikið um að vera svona rétt fyrir jólin, og kórarnir að leggja lokahönd á sitt. Hún dóttir mín kom með yndislega athugasemd í dag….Hvað ætlar þú að gera mamma þegar þú ferð á eftirlaun? Mér varð eiginlega fátt um svör, ég kann ekkert annað en það sem ég geri í dag. Fjandakornið að ég taki upp prjónadót eða klukkustrengi, og ekki get ég ráðið krossgátur daginn út og inn. Ekki get ég lagt stund á fjallgöngur eða sótt ballettíma. Ég hef því ákveðið mig.--- Ég fer bara ekkert á eftirlaun.--- Búinn og heilagur. Annars eru þessar vangaveltur út í hött því ég er enn á besta aldri og á helling eftir vonandi. ---Þessi tími, aðventan er yndislegur, en kökkurinn minn er fastur milli þess sem hann losnar. Svo kemur hann aftur og aftur. Kökkurinn í Ameríku er líka stór, svo við mæðgur kökkumst saman af og til. Þetta tilheyrir og er hreinsandi fyrir sálina. Allavega trúi ég því, en ég sakna nándarinnar. Sennilega hangi ég á þeim öllum í vor þá loksins við hittumst. Mikið hlakka ég til, en þar næst bið ég ykkur vel að lifa.

10 ummæli:

Guðlaug sagði...

Þú ert svo sannarlega vel skóuð móðir sæl. Mér þykja þeir báðir flottir:) Þú ert sannarlega kúl 58 ára gömul kona, því máttu trúa. Auðvitað kaupirðu þér bara lítið sumarhús hér í Illinois sem þú eyðir svo tíma þínum í þegar þú ert komin á eftirlaunaaldur-ég skal redda krossgátunum.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

úpps, þetta var ég,Svanfríður-gleymdi að skipta um notendanafn.

Nafnlaus sagði...

rosalega flott rauðu reimuðu stígvélin (bæþöveij, af hverju eru stíg-vél kölluð stígvél?)
bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

Diskóljósin hjá Maríu og Jósep eru nú nokkuð skondin og hvað er málið með tréð/stráin upp úr strompinum? En það er ábyggilega auðvelt að taka ástfóstri við þessa dýrð :)

Stigvélin og skórnir eru nú bara það flottasta af öllu flottu! Ég held að tími sé komin til að ég eignist rauða skó á ný.........

Kveðja Íris Gíslad

Nafnlaus sagði...

þetta eru sannarlega stælbomsur góðar og sérlega vel fallnar til kátínuhopps. til hamingju með skæðin rauðu!

Nafnlaus sagði...

Stígvélin eru flott og líka skórnir. María mey og fylgdarlið eru líka rosa flott og jólaleg :) Kær kv. Elsa Lára sem er að fara horfa á helgileik þar sem dóttirin leikur Maríu mey :)

Syngibjörg sagði...

æðisleg stígvél -váá -

Lífið í Árborg sagði...

Ekki er ég hissa þó þig langi að hoppa í þessum fínu bomsum, lengi er ég búin að leita að svona flottu skótaui til að skottast á í garðinum við kotið, en verð að láta mér duga græn. En glöð er ég fyrir þína hönd að hafa eignast slíkar gersemar.
Bestu kveðjur frá Austurkoti,
Þórunn

Nafnlaus sagði...

Já Gulla mín þetta með að fara á eftirlaun er nú einhvernveginn þannig sem að ég hef heyrt þá hefur fólk aldrei meira að gera en einmitt á því tímabili í lífi sínu. Það verður hugsað til ykkar á aðfangadag nú sem endranær og verst að geta ekki komið við í kaffi þann daginn.... En einhverntímann.... já við vonum bara að þið hafið það gott og gangi þér vel með allan sönginn framundan... Kveðjur frá DK Svava

Kristbjörg sagði...

Nógur tími til að finna skemmtileg áhugamál fyrir eftirlaunaaldurinn. Æðisleg sstígvélin og ekki eru pjattskórnir síðri. Vildi óska að ég gæti komið austur og skoðað kunnulegu jólaljósin þar, en ég verð víst að vinna um jól og áramót og kem líklegast ekkert í fallega fjörðinn.
En aðalega vildi ég kasta á þig kveðju. Hef verið fjarverandi í bloggheimum í dágóðan tíma en stefni á að skrifa, lesa og kommenta á blogg aftur :)
Bestu kveðjur (með kökk) úr Hafnarfirðinum