mánudagur, 29. desember 2008

Lufsyslugs..taka þrjú.

Veit ekki hvað hleypur í tæknina, en þetta er þriðja tilraunin við að koma mér út í netheima. Eða þá að ég er rakinn klaufi. Titillinn er lýsandi fyrir líf mitt þessa dýrðardaga. Lufsast um með sælutilfinningu, les, elda góðan mat, narta í eitthvað sem ég hef enga þörf fyrir, hitti vini og fjölskyldu og slugsast hér um húsið á þverröndóttum náttbuxum frá Ameríku. Þurfti þó að fara úr þeim á ókristilegum tíma í gær til að dressa mig upp í tónleikaföt, en var fljót í þær aftur eftir að heim var komið. Semsagt, jólin hafa farið vel í mig, og mikið hvað blessuð rjúpan var góð. Upp úr pökkunum kom mikið af fallegum hlutum, en best var myndadagatalið af snúðunum mínum í bláa húsinu. Ég vil helst að árið líði hratt, því mig langar í fleiri! Eftir 33 jól með mínum bestamann er ég oft í vandræðum hvað skuli nú fara í pakkann hans. Fyrir nokkrum jólum fékk hann hjólbörur og hittu þær verulega í mark. Einu sinni gerðist ég djörf svo um munaði. Fór í Húsasmiðjuna, benti á hjólsög og sagðist ætla að kaupa hana. Fannst alveg upplagt að maðurinn ætti einn slíkan grip. Eitthvað glott kom á afgreiðslumanninn, en mér var ekki skemmt og borgaði hálfan handlegg fyrir græjuna. Ekki gat ég borið dásemdina, en reddaði því. Það var mikið og stórt glott sem kom á minn bestamann þegar honum varð dýrðin ljós. Fékk miklu stærra glott en var á afgreiðslumanninum, en það var góðlátlegra. Græjan hefði sómt sér vel á hvaða verkstæði sem er, og þá erum við helst að tala um alvöru trésmíðaverkstæði! Við skemmtum okkur konunglega yfir uppátækinu, en eitt er víst að ég hef ekki lagt út í verkfærakaup síðan. Um næstu jól set ég sennilega utan um mig rauða slaufu og gef bestamann sjálfa mig um aldur og ævi! Hann er miklu bjartari í þessu en ég og klikkar aldrei. Ég ætti við nánari skoðun aldrei að koma nálægt því að kaupa á mig sómasamleg föt, hef greinilega ekki eins gott auga fyrir þesslags innkaupum. Innan tíðar fer daginn að lengja og þá er ekki svo langt í vorið, en þá ætlum við í bláa húsið. Ef "þeir" halda áfram að rugla í okkur með gengi og krónur hef ég ákveðið að synda, nú eða fara á hjólabát yfir hafið, því út vil ek. Það gengur því ekki að lufsast eða slugsast heldur bretta upp ermar. Ég óska öllum gleðilegs árs og þakka fyrir liðið ár. Með von um frið um víða veröld þar til næst.

8 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Nei mamma-þú syndir fjandakornið ekki neitt hérna yfir-það er allt of langt. Ég kaupi frekar loftbelg undir þig...þú ert svo létt að ég þarf líklegast ekkert að greiða aukalega. OK?

Frú Sigurbjörg sagði...

Það er sko örugglega gaman að fara í loftbelg! Gætir farið á þverröndóttu náttbuxunum ; )

Nafnlaus sagði...

eigum við ekki að slá saman í einn góðan bát... ég, á dramamíni, gæti alveg höndlað svo sem einni ef ekki tveimur sjóferðum á ári - og ekki myndi skemma fyrir ef í góðum félagsskap yrði!

við erum í stíl þessa dagana - ég fer vart úr náttbuxunum...

bestu nýjársóskir til ykkar

Nafnlaus sagði...

gleðilegt ár, kæra Guðlaug og hafðu þökk fyrir alla þína jákvæðni:)

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár og njóttu tónlistarinnar á komandi ári. Varðandi jólagjafir húsbóndans færðu 10 fyrir viðleitni og hugmyndaflug. Án nokkurs efa ert þú þrátt fyrir allt besta gjöfin. Það er alla vega sýn afa í ömmubæ.

Nafnlaus sagði...

Þetta var stórgóður pistill hjá þér, sé að þú hefur haft það virkilega gott með þínum ektamanni. Að lufsast um húsið á náttbuxum, finnst mér líka gott. Bestu óskir um gleðilegt og gott nýtt ár ykkur til hand með kærri þökk fyrir netsamskiptin undanfarið. Þórunn í Austurkoti

Nafnlaus sagði...

Eitt er víst, að hvernig svo sem þú ferð að því, þá kemst þú til þeirra í litla bláa húsinu - ekki trúi ég a.m.k. öðru.
Nú er nýtt ár búið að lifa í tvo klukkutíma og ég vil því nota tækifærið og óska þér gleði og friðar á þessu nýja ári og þakka þér fyrir öll notalegheitin og fyrir skemmtilegu pistlana þína á árinu sem við vorum að kveðja.
Kær kveðja til ykkar í fjörðinn fagra.

Syngibjörg sagði...

Elsku Gulla.
Gleðilegt nýtt ár og hjartans þökk fyrir falleg orð til mín á blogginu mínu sl.ár.

Hafðu það sem allra best í náttbuxunum góðu:O)