þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Af tækni og fegurð!

Kærar þakkir fyrir fallegar kveðjur til bestemann. Dagurinn var yndislegur og kom strákurinn bara nokkuð vel undan tugunum á undan. ---Sómapiltur---.Dagurinn byrjaði nánast um miðja nótt með miklum karlakórssöng fyrir utan svefnherbergisgluggann. Þar stóðu félagarnir hrollkaldir með Sveina káta á vörunum og stóran pappakassa af morgunmat. Dagurinn varð svo eftir því. ---Eitt er það sem við bestemann eigum í fórum okkar og þykir undurvænt um, en það eru tugir af 78 snúninga plötum með öllu mögulegu og ómögulegu á. Sigurður Skagfield með Hærra minn Guð til þín er td. eitthvað sem við verðum reglulega að hlusta á, ásamt áramótabragnum hans Brynjólfs Jóhannessonar leikara. Í þessu safni okkar eru líka perlur sem ekki eru til á nótum en ég vil gjarna nota. Þá var að finna upp tækni til að taka upp af þessum plötum svo hægt væri að útsetja. Marga hringi fórum við, fónninn er gamall og "plug" ekki til í þessa fornaldargræju. Hvað gerðu Danir þá? Náðum í eldgamalt upptökutæki með "utanborðsmike", stilltum upp fyrir framan surgandi 78 snúningana og hipp hurrey, það virkaði og kvartettinn er að verða búinn að læra eina perluna. Ég er enn að hlæja að aðförunum. Ipod, tölvur og nútímadrasl komu semsagt ekki að neinu gagni í þessu tilviki. --- Í Reykjavík á dögunum þurfti ég að endurnýja pínulitla og mjóa augnpensilinn minn og fannst nú ekki mikið til koma og fór í snyrtivöruverslun. Þar tók á móti mér undurfalleg stúlka með mikil svört augnalok og rauðar varir. Henni var sko treystandi að selja mér téðan pensil. Hún útlistaði fyrir mér gæði gripsins og úr hverju hann væri. Mér var nokk sama, vantaði pensilinn svo ég gæti talist boðleg á Hart í bak um kvöldið. Innstimplaður í kassann sagði daman fallega: þetta gera 3.800 hundruð krónur. Jawell, eins og maðurinn sagði, því mér vafðist tunga um tönn. Það versta er að ég keypti helv....! Nú spyr ég ykkur dömur þarna úti. Hvað kostar að fara berstrípaður í framan í snyrtivörubúð og vill verða fallegur? Þá er ég að meina allt...krem til allra þarfa, burstaræfla, (sem ég hefði frekar átt að kaupa í Pennanum) næturolíur og allsherjar makeup? Bara forvitni! Kannski snýst málið bara um tæknilega fegurð. Þar til næst sendi ég góða strauma.

6 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég er lúin og hausinn virkar ekki og segi því bara þetta: híhíhí, þið eruð bara góð að hafa reddað ykkur svona!
20.000 kall allavega fyrir snyrtivörur frá A-Ö? Svo fer það náttúrulega eftir því hvar maður kaupir herlegheitin.

Elísabet sagði...

það kostar fáránlega mikið að kaupa snyrtivörur, mesti okurbransi í heimi.

Védís sagði...

Snyrtivörur eru agalega dýrar en við kaupum þær samt :)

Nafnlaus sagði...

Ég nota mest Avon snyrtivörur sem eru bæði ódýrar og góðar. Kíktu á vefinn þeirra avon.is og skoðaðu verðið. Gæðin held ég að séu ekkert lakari en á vörum sem eru margfalt dýrari.
Kær kveðja,

Nafnlaus sagði...

Smá viðbót ef þú ætlar að skoða Avon vörurnar þá ferð þú inn í avon.is og smellir á förðun. það er komið fullt af einhverjum rándýrum barnafötum á forsíðuna núna svo það er ekkert að marka hana.

Nafnlaus sagði...

Það virðist vera alveg sama hvað hlutirnir kosta, ef það er eitthvað sem við höldum að geri okkur fallegri, þá kaupum við það en einn pensill á yfir 3000, this is too much. En þetta með að kaupa snyrtivörur gæti verið svolítið sálrænt, þegar maður er búinn að kaupa eitthvað óhóflega dýrt, þá ljómar maður auðvitað af gleði og telur sig svooo fallega, það gæti réttlætt kaupin. Góðar kveðjur til þín og bestimann, Þórunn