fimmtudagur, 30. apríl 2009

Ha ha!

Ég er dásamleg, nú ýtti ég á publish post rétt eina ferðina enn. Ætlaði að að ýta á save now! Svo nú ýti ég á réttan takka. Save now. Búið og gert. En það er semsagt gott að búa í Hornafirði. Við besimann vorum að skríða heim úr pottaferð undan jökli, og náttúran þar er undurfögur. Hjónin í Hoffelli hafa gert flotta aðstöðu og eru með nokkra potta sem eru með vatni úr iðrum jarðar. Pottarnir eru undir fallegu klettabelti og eru kerti út um allt. Ekkert heyrist nema fuglasöngur og hjartaslögin í manni sjálfum, svo nær náttúrunni er varla hægt að komast. Nýja sundlaugin sem vígð var í fyrri viku hefur allt sem hver getur óskað sér, en þessa algjöru kyrrð er auðvitað ekki að hafa inni í miðjum bæ. Það er því ekki að ástæðulausu að ferðafólk hvaðanæva sækist eftir kyrrðinni undir jökli. Þrátt fyrir kyrrð og ró í bænum mínum er mikið um að vera og margt fólk á ferli. Menningin blómstrar og hver hefur nóg með sitt. Semsagt, gott mannlíf. Eftir lestur síðasta bloggs dóttur minnar langar mig að koma með smá mömmuvinkil. Hjartað mitt er stórt af ást og aðdáun. Ást á því hversu heil hún hefur alltaf verið, ást á því hversu óumdeilanlega hún er staðföst í því sem hún tekur sér fyrir hendur. ( Hún kann að mótmæla, en mömmuvinkillinn veit betur!) Hverjum auðvitað þykir sinn fugl fagur og allt það, en margt af því sem dóttla mín hefur gert hefði ég sennilega ekki haft kjark til sjálf. Bara það eitt að flytja í aðra heimsálfu með lítinn strák í poka framan á sér til að finna lífið er ekki skref sem allir þora að taka. Þetta á náttúrulega við um fleiri, en þetta er það sem að mér snýr. Þar tók sú stutta stærsta stærðfræðipróf lífsins og er kominn upp í einkunn 8! Hún nær tíunni seinna. (er í því að prófa ungmenni þessa dagana) Til viðbótar við litla strákinn í pokanum er kominn annar, ekki síðri. Þeir eiga góða foreldra sem örva þá og elska, og þeir eiga ömmu og afa sem fara mjög fljótlega til Ameríku. Áður en af þeirri ferð verður á ég eftir próf og skólalok, fjórar tónleikaferðir, og nokkra tónleika í heimabyggð. Tíminn verður því ekki lengi að líða. Á milli mjalta og messu förum við bestimann svo í jöklapottana og slökum á. Þar til næst kæru vinir.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála þér Gulla mín, þú getur sko verið stolt af dóttur þinni.....mér fannst sko nógu erfitt að flytja í annan landshluta og geta ekki skroppið í kaffi til stóru systur eða mömmu hvenær sem er, og tekur það mig nú einungis eina fimm tíma að kíkja á þau;)Að flytja í aðra heimsálfu í gjörólíkt menningarsamfélag er sko fyrir alvöru fólk!
Vonandi verður tíminn fljótur að líða hjá ykkur svo þið getið knúsað fjölskylduna í litla bláa húsinu sem bíður eftir ykkur.
kv. Helga Sigurbjörg

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Þið segið það (skrifaði hún með roða í kinnum).Hvert skref sem maður stígur er vonandi í átt að þroska þannig að...
En mikið ertu glöð í skrifunum þínum núna..þér líður greinilega vel eftir pottaferðina og það áttu vel skilið því næstu vikur verða strembnar.Geturðu ekki kíkt við á morgun og hjálpað mér að finna Völuspáardiskinn.Fáðu bara hjól að láni og þá er þetta klárt.Takk fyrir:)

Nafnlaus sagði...

Kveðja á Hólabrautina og í pottinn !

Guðrún

Ragna sagði...

Já svo sannarlega máttu vera hreykin af henni Svanfríði. Ég á ekkert í henni nema vinskapinn og er samt svo hreykin af henni.
Mikið eruð þið rómantísk þarna á suðausturhorninu - pottar, kertaljós og kyrrð. Er hægt að hugsa sér nokkuð huggulegra?
Kær kveðja til ykkar,

baun sagði...

þessir pottar hljóma óendanlega vel, mikið langar mig að prófa jöklapotta einhvern tímann.

og hún Svanfríður þín er augljóslega perla:)

Egga-la sagði...

verð greinilega að prófa þessa potta í sumar og sundlaugina að sjálfsögðu.