mánudagur, 27. september 2010

Dag skal að kveldi lofa

Það eru forréttindi að vakna hress á hverjum morgni, sem segir að maður er lifandi. Ég var alveg lifandi í morgun er hef þó vaknað hressari. Matarboð með kærum vinum og mikilli spilamennsku getur tekið á. Þrjár nikkur í gangi og flygill, ekki veitir af fyrir þá silverboys. Músíkin myndi sennilega ekki hæfa Hörpunni, en dugir vel með góðum vinum. Ákvörðun um Tenerifeferð tekin á milli spilapása, því ekki þýðir að safna endalaust í sjóð og sauma svo vasa á líkklæðin þegar þar að kemur. Silverboys eru fermingarbræður og eiga allir afmæli í febrúar. 60. afmælið þegar fara átti í ferð komu ljótir kallar og settu landið á annan endann, svo við fórum hvergi. Sjóðurinn stækkar og við förum í febrúar. Eftir það verður aftur byrjað að safna fyrir gönguferð um Laugardalinn, því þá verða allir orðnir svo voðalega fúnir fyrir Nepalferð. Bara gaman að þessu. Næsta ár verðum við bestimann því dálítið á faraldsfæti. Tónleikaferð til Kanada og þaðan í lítið blátt hús. Þá verða allir fjölskyldumeðlimir heima og það veit sá sem allt veit að þá skal verða kátt í blárri höll. Það er nefnilega þannig að þar sem hjartarými er nóg er húsrúm fyrir alla. Það er svo ósköp einfalt. Dagurinn í dag átti að vera náttbuxnadagur og lestrarstund án matargerðar, ákveðið fyrir löngu. Neibb, tveir af Ástralíuviðhenginu birtust hér nánast óforvarindis, þannig að náttbuxurnar viku fyrir huggulegri klæðnaði og bókin lá óhreyfð. Borðum dýrindismat annað kvöldið í röð, en slepptum músíkinni. Andfætlingar kunna ekki á svona huggulegheit. Nú býð ég góða nótt með ljúfusum yfir þar til næst

8 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég hló upphátt þegar ég las um gönguferð og Nepal ferð en hugsaði mig svo um og sá að það gengi alveg (get it,"gengi"?) því að þið eruð jú á hjóli! Góða nótt mamma mín.lufjú.

Ragna sagði...

Mikið var gaman að lesa pistilinn þinn Guðlaug mín. Mér líst rosalega vel á Tenerifeferðina hjá ykkur. Það er dásamlegur staður að vera á.
Ég sendi mínar bestu kveðjur til ykkar í fjörðinn fagra þar sem músikin dunar og allir eru glaðir.

baun sagði...

Oh, nú læt ég mig dreyma um náttbuxna- og bókardag, þvílík snilldarhugmynd.

Íris Gíslad sagði...

Glæsilegt hjá ykkur, Viss um að þið verðið nógu hress fyrir Nepalferð ;)

Frú Sigurbjörg sagði...

"Þar sem hjartarúm er nóg er húsrými fyrir alla", mikið er þetta góð og sönn lína Guðlaug. Kærar kveðjur til þín.

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa .. ég er mætt aftur .. enn eina ferðina.
Langar svo í náttbuxna og bókadag en hann verður aðeins að bíða :)
Kærar kveðjur austur, Elsa Lára.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Mamma-ég prófaði að fara inná bloggið þitt og kommenta hjá mér.Það gekk.Kommentið kom fram.

Lífið í Árborg sagði...

Mikið er langt síðan ég hef rásað um netheima, enda löglega afsökuð þar sem ég var í stanslausum húsvitjunum í þrjár vikur. En gaman var það. Fróðlegt að sjá hvað er á döfinni hjá ykkur, gangi ykkur vel í söngferðinni. Kveðja úr Kotinu í suðri.