föstudagur, 28. janúar 2011
Axlaröxl.
Það þykir sko ekki fínt nú til dags að axla ábyrgð, en menn tala þó fjálglega um að svo beri að gera.--- En það eru bara hinir sem eiga að gera það.--- Ég veit ekki betur en ég hafi þurft að axla ábyrgð þegar ég fimm ára var látin skila dúkkulísunum sem ég stal forðum úr bókabúðinni, var látin skila góssinu! Ég bar líka ábyrgð þegar ég sló víxilinn fyrir mínu fyrsta píanói á fullorðinsárum, og ég hef alltaf, segi og skrifa, axlað ábyrgð á velferð minnar fjölskyldu. Þó það nú væri. ---Fyrir nokkrum árum var ég að spila konsert með góðri óperusöngkonu, og þurfti flettara í einu stykkinu. Þar sem nótnalesandi flettarar liggja ekki á lausu fyrir hunda og manna fótum ákvað bestimann að nú væri komið að því. Hann skyldi altso fletta, það væri nú ekki mikið mál. Æfði sig vel og lengi, og ég þurfti ekki að rymja "fletta núna" út úr mér á ögurstundu. Allt gekk vel þar til kom að síðasta konsertinum. Hann fletti jú alveg á réttum stað, gekk síðan frá píanóinu og tók hækjurnar mínar með sér! Í klappinu sá ég hvar hann sat aftast í salnum skælbrosandi með hækjurnar mínar á milli hnjánna. Þetta gat varla orðið asnalegra. Axlaði hann ábyrgð? Ég veit það ekki, því það er enn hlegið að atvikinu. Í ljósi líðandi stundar ætla ég að hætta að hlæja að þessu og krefjast þess að minn bestimann axli ábyrgð á þessu flettaradæmi og biðjist að minnsta kosti afsökunnar. Ég ætlast þó ekki til að hann segi sig lausan frá mér og mínum frekar en hinir þarna úti. (sitji hann sem fastast) Nú er Kanadaferð framundan, og tel ég nokkuð ljóst að ég þurfi flettara, en bestimann verður ekki fyrir valinu! Ég vil að menn axli ÁBYRGÐ þar til næst. ----- Ps. Það er eins gott að minn elskulegi sé ekki að þvælast um á blogginu!.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Afhverju man ég ekki eftir þessu? Hvar var þetta? Og ég hló hátt við lesturinn:)
hahahahahaha yndislegt.
MBK Íris
æi, sætur samt, hann hefur verið svo hugfallinn að fylgjast með þér að allt annað hvarf huga hans!
En ljósi punkturinn er samt sá,að með óábyrgri hegðun sinni í flettaraembættinu hefur Bestimann lengt líf margra því hláturinn lengir lífið og ef enn er verið að hlæja að þessu á hann skilið orðu fyrir vikið. Humm, Þegar ég hugsa mig betur um þá á maður víst ekki að hlæja á kostnað annarra. Æ,Gleymum þessu bara :)
Kveðja og knús til ykkar Bestimann
Góður, hann bestimann þinn! Kanadaferð hljómar spennandi:)
Skrifa ummæli