laugardagur, 9. apríl 2011

Áfram skal haldið

Enn og aftur þakka ég ykkur þarna úti fyrir stuðninginn, hann er ómetanlegur. --Nú er að halda í næsta verkefni, og það geri ég með bjartsýnina að vopni og þeim styrk sem ég finn allsstaðar. Eftir ótal rannsóknir og viðtöl við teymið er meðferðin ákveðin, og byrja ég í lyfjameðferð 2. maí. Fæ inngjöf á þriggja vikna fresti, og alls verða þær átta. Fjórar fyrstu með dálitlu trukki, en hinar fjórar ögn léttari. 8. ágúst er þá þeim kafla lokið, og sá næsti tekur við. Ég er á fullu að reyna að undirbúa mig andlega fyrir það sem koma skal, þannig að sem fæst komi mér á óvart. Ég hef líka ákveðið að gúggla ekkert eða að reyna að gerast sérfræðingur, og fara ekki eftir rauna/reynslusögum annarra. Þetta hljómar kannski hrokafullt, en það getur enginn sagt mér hvernig mér kemur til með að líða, því hver og einn er sérstakur og upplifir hlutina á mjög ólíkan hátt. Ætla því að leggja allt mitt traust á þá sem eru að lækna mig, og reyna að halda mér eins flott á floti og ég get. Hef fulla trú á mér og mínu teymi og hana nú. ---- Þrátt fyrir allt næ ég að mestu að klára mínar skuldbindingar fyrir vorið. Tónleikar með Gleðigjöfum, Stökum jökum og karlakórnum nást í þessum mánuði, en kennslunni næ ég því miður ekki að klára. Ferð okkar bestimanns í lítið blátt hús frestast örlítið, en vonandi "meika é´ða" í Kanada. Á ljúfum nótum bið ég ykkur vel að lifa, og munum að lífið er of gott til að eyða því karp og vitleysu. Þar til næst.....

9 ummæli:

Lífið í Árborg sagði...

Þakka þér fyrir að setja inn fréttir um framgang mála, ég held áfram að hugsa hlýtt til þín og þinna. Það er gott að heyra að þú ert búin að velja þér leið í gegnum þetta, það er um að gera að hver geri eins og honum/henni hentar best.
Ég óska þér góðs gengis í verkefnunum sem þú ætlar að ljúka áður en aðal-vinnan hefst, og svo veit ég að þú kemst í gegnum hitt með jákvæðni, stuðningi og bjartsýni.
Bestu kveðjur úr kattakotinu.

Nafnlaus sagði...

Gangi þér vel með framhaldið elsku Gulla. Skilaðu kveðju til hans Bróa.

Nafnlaus sagði...

Ég er kannski ekki alveg nafnlaus, Védís heiti ég :)

Ragna sagði...

Mér finnst þú takast á við þetta af svo mikilli skynsemi, eins og þín er reyndar von og vísa. Auðvitað er alltaf best að treysta sérfræðingunum og vera ekki að láta annað rugla sig. Þú ferð þetta á jákvæðninni og á þínum forsendum og þannig verður sigurinn vís. Gangi þér vel.
Kær kveðja til ykkar bestimann.

Frú Sigurbjörg sagði...

Innilegar kveðjur í baráttunni, með viljann og jákvæðnina að vopni eru þér allir vegir færir.

Nafnlaus sagði...

Óska þér alls hins besta.Kv. Ásta

baun sagði...

Mér líst mjög vel á að þú gerir þetta eftir þínu nefi, ég treysti því til að rata rétta veginn. Bestu kveðjur!

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Góða ferð á morgun mamma mín.

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo lang flottust, knús Magga