laugardagur, 30. apríl 2011

Næsta skref

Stórtónleikar í gærkvöldi, og flottir, maður lifandi og nánast fullt hús. Í stað blómvandar í lokin fékk ég svakalega töff húfu. Sé mest eftir því að hafa ekki opnað gjöfina og spilað aukalögin með hið flotta höfuðfat. Get nú státað af einum sjö höfuðfötum sem virkilega slá út hattabilunina í brullaupi nokkru bresku sem vonandi endist sem lengst. -- Sjúkraþjálfan linaði auma vöðva í v.handlegg í morgun og er þetta fyrsti dagurinn í fimm vikur sem ég finn verulegan mun til hins betra þrátt fyrir mikið álag í gærkvöldi. Í morgun tók síðan hárgreiðsludaman mín við mér með sinni yndislegu nærveru og gerði mig gasalega drengjalega til höfuðsins. Svei mér , ég er fín en doldið létt á hoveded. Sumsé, er í stífri aðlögun fyrir lyfjagjöf mánudagsins. Veit ekki "rassgat" hvernig hún kemur til með að virka á frúna, en vona og trúi því út í hið óendanlega að ekkert hér eftir geti orðið eins slæmt og það sem búið er. Er þó ekki að kvarta, en þetta hafa verið djöfullegar vikur, en ég læt ekki bugast. Á morgun ætlum við bestimann á tvenna tónleika....sjáið til...menningarferð í bland við annað. Fóstbræður klukkan "fjégur" og óperan klukkan átta. Þessir yndislegu tenorar eru flottir hver á sinn hátt, en ef þeir ætla að keppa hver nær hæst og með mestu hljóðunum, þá lem ég þá með hækjunum. Get það alveg skal ég segja ykkur. ---Nú er kominn "Össurar"tími á þessi skrif svo hætta ber á stundinni. En hvað gerir maður ekki þegar Óli Lokbrá neitar að kíkja við? Bestimann kom með "frábæra" lausn á dögunum sem mér líst vel á, allavega ef maður er ekki raunsær,,,,,,bara ástfanginn eftir tæp 40 ár. Bestimann langar til að ræna mér og taka mig á eyðieyju þar sem ekkert slæmt getur komið fyrir..... Vitið þið hvar þessi eyja er? --Ég veit hvar hún er....Ætla ekki að segja ykkur núna hvar hún er, en endilega reynið að finna það út. Ég ætla að upplýsa ykkur seinna hvar hún er. Ég á þetta blogg og ræð því öllu hér, líka þeirri eyðieyju hvar bestimann ætlar að planta sér með sinn ránsfeng. Elskurnar þarna úti, ég þarf allan styrk sem þið getið gefið. 2. maí er dagurinn sem ég þarf á ykkur að halda. Þar til næst skal menningin blómstra og við bestimann ætlum að lifa lífinu lifandi þar til næst.

11 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Hann pabbi má taka þig hvert á land sem er eða á hvaða eyju sem er en þið verðið að hafa tölvuna meðferðis svo ég geti haft samband við ykkur á skype. Ég sendi allar mínar bænir og góðar hugsanir til þín og pabba á mánudaginn sem og alltaf auðvitað. Elska ykkur.

Frú Sigurbjörg sagði...

Elsku Guðlaug, hugsa til þín daglega.

Ragna sagði...

Guðlaug mín, Ég hugsa mikið til þín og einnig til Svanfríðar. Mér þykir nefnilega mjög vænt um ykkur næðgur þó kynnin séu af sérstökum uppruna.

Það er eitt er víst að þú hefur svo mikið af góðum kveðjum í farteskinu og margir sem hugsa hlýtt til þín á þessum tíma að þetta bara getur ekki annað en gengið allt vel.

Sendi spes hugsun og bænir á mánudaginn mín kæra.

Arna Ósk sagði...

Þú færð mínar hugsanir óskiptar á mánudaginn frú mín góð! Gangi þér vel og njóttu þín svo á eyjunni förgu :)

Egga-la sagði...

Góðar hugsanir og jákvæðir straumar til þín á mánudaginn og alla aðra daga líka.

baun sagði...

Sendi hlýjar hugsanir yfir til þín Guðlaug.

Nafnlaus sagði...

Gangi þér vel Gulla mín, ég mun hugsa stíft til þín á morgun og senda þér alveg helling af fallegum hugsunum.
kv. Helga

Lífið í Árborg sagði...

Það voru góðar fréttir hvað tónleikarnir gengu vel, og að fá eina húfu í safnið var auðvitað frábært. Ég veit að þið farið með glans í gegnum atburði morgundagsins, eins og þið hafið mikið af góðum óskum og bænum í farteskinu. Ég sendi mínar bestu kveðjur og bænir úr Kattakotinu.

Álfheiður sagði...

Sæl Gulla mín!
Lítið hef ég skrifað hér til þín en hugsað og beðið þeim mun meira.
Ég mun hugsa hlýtt til þín á morgun, mánudag og hafa þig og ykkur áfram í mínum bænum.
Húfa á prjónunum og önnur "á heklunálinni" ... hvert skal senda?
Knús á þig
Álfh.

Íris sagði...

Gangi þér vel Gulla mín. Þú ert nú með þannig hugarfar og svo jákvæð að ég reikna ekki með að þú látir þessa lyfjagjöf slá þig út af laginu. Mundu að það er hægt að fá lyf við ógleði, og ef hún hrjáir þig ekki gefast upp fyrr en þeir finna út hvað hentar til að þú sért laus við þann ófögnuð, því það á að vera hægt. Hlýjar kveðjur og ég vona að eyjan góða hafi hlýtt loftslag :)

Ragna sagði...

Vonandi hefur gengið vel í dag og heilsist þér vel í áframhaldinu Guðlaug mín.
Hjartans kveðja til ykkar.