fimmtudagur, 19. maí 2011

Númer 200!

Einu sinni ætlaði ég aldrei að eignast tölvu, aldrei gemsa eða neitt annað svo flókið! Jæja, ég hef ekki staðið við neitt af þessu, nema heimabankann....hann kemur aldrei...eða þannig. Svo ætlaði ég heldur alls ekki að skrifa neitt á tölvuna sem gæti komið fyrir almenningssjónir. Nú, Kibba kom mér á lagið, sagði að þetta væri svo bráðnauðsynlegt, og hvað gerist þá? Hún hætti að blogga og flaug á vit fésins en þangað ætla ég heldur aldrei. Ég verð fjandakornið að standa við gerða samninga við sjálfa mig. Semsagt fésið og heimabankinn eru ekki í spilunum! Hvað um það, þetta er blogg númer 200 og það finnst mér "cool". Eiginlega afmæli...það á afmæli bloggið o.sv.frv. --- Ég er glöð og bara nokkuð hress. Hárið er að vísu farið, en ég á margar húfur. Eftir Júróvísion hreinlega datt það af. (dularfull tímasetning) Mér fannst það súrt í broti því ég spilaði tónleika með þeim ungverska daginn eftir á Hammondhátíð á Djúpavogi. Gerði það bara með húfu. Ég hef ekki orðið veik, en ýmis asnaleg einkenni hafa gert vart við sig, svo sem eins og allsvæsin svitaköst og ullarbragð í munni. Þá nebblega verður matarbragðið svona ullarkennt, ef þið skiljið hvað ég meina! Annars hef ég ekki yfir neinu að kvarta. Vona svo sannarlega að þetta gefi tóninn fyrir framhaldið, svo áframhaldandi bænir og hlýjar kveðjur eru virkilega vel þegnar. Síðustu dagar hafa einkennst af mikilli prófatörn í skólanum og þessum venjulegu vorverkum þar. Sem betur fer hef ég getað tekið drjúgan þátt í að klára veturinn, og slitum við skólanum nú í dag. Samkennarar mínir eru núna úti í þeirri guðsgrænu að fagna lokum og er ég með þeim í huganum. Þarf að undirbúa mig andlega og líkamlega fyrir næstu lyfjagjöf sem verður á mánudaginn. Mér finnst núna eins og allt sé á uppleið, vorið og gróandinn, minn elskulegi tengdasonur reyndist ulla á skjaldkirtilinn og Svanfríður mín og snúðarnir eru flottust. Hvað get ég beðið um meira? Þar til næst sendi ég ljúfastar yfir.

12 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ullarbragð í munni hljómar ekki sérlega skemmtilega:( En sem betur fer hefurðu ekki orðið illa veik og eins og þú segir,þá skulum við vona að svo verði áfram. Ég elska þig og er svo stolt af þér:)!

Frú Sigurbjörg sagði...

Til hamingju með bloggafmælið og lífið, það er nefninlega alltaf svo ljúft, jafnvel í aðstæðum sem við stjórnum ekki á neinn hátt. Kærar kveðjur.

Nafnlaus sagði...

Frábærust og fínust. Stórt knús frá mér Magga

Lífið í Árborg sagði...

Til hamingju með bloggafmælið. Ekki vissi ég að þetta gerðist svona fljótt með hárið, en hvað með það eins og þú segir þú átt nóg af húsum og svo kemur hárið aftur, fallegra en nokkru sinni.
Það er gott að heyra hvað þetta gengur vel og líka að tengdasonurinn kom vel út úr sinni aðgerð.
Já nú er allt á uppleið og ég semdi mínar bestu kveðjur til ykkar allra,
frá kotinu fyrir sunnan.

Lífið í Árborg sagði...

Æ, þarna varð meinleg villa hjá mér þegar ég ætlaði að skrifa "húfum" en úr varð "húsum".
Leiðréttist hér með,
konan í kotinu.

stella sagði...

Mikið er ég fegin að þekkja ekki ullarbragðið (nema í geitarostainum, þoli ekki "ullarbragðið" af geitarostinum). Þú ert, eins og ég átti hundrað prósent von á, að standa þið eins og súperkonuhetja!
Ég sendi áfram mína sterkustu strauma til þín...

stella sagði...

heyrðu mín kæra, hér er föstudagskvöld og ég komin með tvo bjóra ofan í maga og með honum mætti stafsetningarvillupúkinn - þú veist að þar sem villur eru, eiga villurnar ekki að vera ;-)

Ragna.betra.is sagði...

Hjartans kvedja til tin Gudlaug mín. Ég hugsa til tín tó ég sé víds fjarri eins og er. Gangi tér vel á mánudaginn mín kaera.
Kvedja frá Rögnu.

Íris sagði...

Ég fékk nú hroll þegar þú nefndir ullarbragð, en það er kannski skárra en ógleðin. Það er að segja ef þú sleppur við ógleði af því að finna ullarbragð ;) Haltu áfram að vera svona jákvæð Gulla það gerir þetta allt auðveldara. Og svona að lokum þá finnst mér þú töff með húfu og hatt.

Nafnlaus sagði...

Ef þið farið norðurfyrir í borgina er ykkur velkomið að gista, látið mig bara vita.
kv. Helga

Nafnlaus sagði...

Helga mín, þú ert söm við þig. Takk, og hver veit nema ég eigi það inni. Er hinsvegar komin suður. kv. Gulla

Elísabet sagði...

Sendi hlýja strauma yfir til þín, kæra Guðlaug.