mánudagur, 27. júní 2011
Ósár og sæl.
Ekki þýðir að segjast ætla að skrifa sig frá hlutunum og gera það svo ekki. Kanadaferðin var alveg ógleymanleg, og ég kom ekki söm heim. Veikindi mín létu ekkert á sér kræla og var ég ótrúlega hraust og heppin með sjálfa mig. Gott ef mér bara líkar ekki við mig! ---Tónleikar okkar tókust mjög vel og segi það enn og skrifa: Ég þekki ekki eins sterka liðsheild og karlakórinn Jökull er. Hef ferðast með þeim í 36 ár, og aldrei neitt komið uppá sem spillir tilgangi ferðanna eða vinskapnum. Ég vissi að Íslendingar í Vesturheimi halda í gamla landið með margs konar hætti, en að mér dytti í hug að upplifa það svona sterkt. Að hitta 3ju kynslóð landnemanna og heyra þá tala á nánast lýtalausri íslensku kom virkilega við hjartað í mér. Skil ekki hvernig fólkið komst af á þessum endalausu sléttum með tvær hendur tómar, kunni ekki að yrkja landið, mállaust og allslaust. Svo erum við varla talandi nema að sletta og ælandi hikorðum út og suður! Flugum út og heim með litla appelsínugula fuglinum, og það er ekki gott til afspurnar. 6 klst. seinkun á heimleiðinni og var ég því orðin harla úldin. Inngjöf morguninn eftir, en þrátt fyrir mikla þreytu var dokski voða ánægður með mig og mín gildi. Hef svo gott gildismat sjáiði til. Myndin sem fylgir þessu bloggi sýnir okkur bestimann uppstríluð í konsertfötum og með regnhlíf sem ég fékk að gjöf eftir tónleika. ---Ósköp venjuleg mynd, en tek ég fram að kjóllinn minn er sko Design from Dior. Þannig er nú komið að þessi annars fínu föt urðu eftir í fataskáp á hóteli okkar í Winnipeg! (vonandi hanga þau þar ekki lengur) Hver gleymdi? Nú það veit ég ekki, en sá sem er orðinn meira en sextugur í karlkyni verður að skrifast fyrir þessu. Nú eru hinir og þessir vonandi að redda Diornum og dressi bestimanns. -- Nú ætla ég að njóta þess að vera til og eins hraust og hugsast getur. Hef ekkert orðið veik, og asnalega tímabilið gengur yfir á 4-6 dögum. Eftir næstu inngjöf verð ég hálfnuð með lyfin. Allt líður þetta. Nú er bara að vona að allt gangi fljótt og vel hjá litlu fjölskyldunni minni vestanhafs, þar eru allar bænir mínar. Ég vildi óska að ég gæti einhverju ráðið, þá er ég að tala um það sem ekki er hægt nema í draumum. Enginn á að fá krabbamein fyrr en vel fullorðinn. Hljómar asnalega, en vel fullorðin manneskja hefur lífsreynsluna og langt líf að baki. Ég læt þessa setningu standa þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
11 ummæli:
Dásamlegt að þið áttuð góða ferð... díor spíor... það er miklu verðmætara að eiga húmor... :o)
Þú lætur okkur vita þegar fötin ykkar finnast:)Elska ykkur.
Þið lítið glæsilega út, gömlu brýnin;)
Þið eruð sannarlega sæl og falleg á þessari mynd. Gott að heyra hvað allt gengur vel, við biðjum þess að svo verði afram.
Bestu kveðjur úr sæluríki kattanna.
Elsku hjartans Gulla mín. Ég var núna fyrst að lesa á blogginu þínu um alla þína lífsreynslu undanfarið. Gott þykir mér að þið nutuð ferðarinnar til Kanada og alltaf er uppörvandi að lesa skrifin þín, þú með allan þinn húmor fyrir sjálfri þér og lífinu :)
Bið fyrir þér og þínum (vesturförunum) og hlakka til að hitta ykkur næst. Gróa.
Þið eru glæsileg .Gaman að allt gekk vel.Kveðja frá Neskaupstað.
Varð bara að kommenta aftur-þið eruð svo fín á myndinni.Ekki slæmt að vera af ykkur komin:)
Þú þarft sko engan Diorkjól til að vera glæsileg Gulla mín!....ekki það að þú ert sko alveg stórglæsileg í honum;-)
Gott að heyra að þér heilsast vel og hafir náð að njóta Kanadaferðarinnar. Ég held áfram að senda þér og ykkur öllum hlýjar hugsanir.
kv. Helga
Þið eruð alveg rosalega flott á myndinni og ég vona að dressið skili sér.
Það er aldeilis góðar fréttir að þið nutuð ferðarinnar svona vel og að heilsan skuli á svona góðri leið til sigurs.
Vonum og biðjum að allt fari á besta veg hjá þeim í litla bláa húsinu.
Kær kveðja til ykkar bestimann.
Glæsileg bæði tvö!
Ég verð bara að segja Gulla mín að þú lítur alveg sérlega vel út, hugsar greinilega vel um þig. Svo finnst mér þú svo flott með svona falleg höfuðföt. Ég krossa putta fyrir þitt fólk í litla bláa húsinu.
Skrifa ummæli