laugardagur, 17. september 2011

Og áfram skal haldið.

Bara svona rétt til að þið fáið vatn í munninn, og lygalaust, þetta var gott. Ekki amaleg svona matarboð. ---Nú hefur lífið tekið enn og aftur stóran sveig miðað við fyrri plön. Plön eru ekki vinir mínir þessa dagana. Eftir hremmingar mínar undanfarið er búið að setja stopp á frekari lyfjagjafir, ég yrði bara aftur veik og jafnvel verri en síðast. Þetta er allt útpælt og engir sénsar gefnir. Í dag eru nákvæmlega 6 mánuðir síðan ég greindist og þá tókum við bestimann þá ákvörðun að treysta læknateyminu algjörlega fyrir lífi mínu, og það hefur ekkert breyst. Ef þeir segja að ég sé búin að fá nóg, nú þá er það svo.

Lyfin eru farin að gera ógagn, og ég VEIT að líkaminn er búinn að fá nóg. Nú semsagt byrja geislarnir sem áttu samkvæmt ritúalinu ekki að byrja fyrr en í lok október. Ég er náttúrulega glöð með það, en samt: Ég var búin að stimpla allt annað í hugann, og þarf minn tíma til að plana upp á nýtt. ---Var einhver að tala um einhverfueinkenni?--- Nú er bara eitt eftir sem ég þarf að taka á, það er að þurfa að vera í Rvík. í tæpar 6 vikur. Þar er ég nú fædd og uppalin og á fjölskyldu og vini, en get samt illa þrifist þar. Kannski ég hitti ykkur öll á kaffihúsum borgarinnar, sitji í stúku í Hörpu og gefi öndunum brauð á morgnanna. Ef þið sjáið hávaxna konu á eirðarlausu rölti með einhverskonar höfuðfat og tvær svartar hækjur þá er það ég þar til næst.

6 ummæli:

Frú Sigurbjörg sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Frú Sigurbjörg sagði...

Nammi! Þetta hefur verið mikil veisla! 6 vikur í Reykjavíkinni segir þú; hvenær kemur þú til höfuðborgarinnar?

Nafnlaus sagði...

Umm leist vel á humarinn fékk alveg vatn í munninn, vonandi mætumst við á geilsadeildinni þar sem ég klára ekki fyrr en 4 okt þar, og er þá búin að "afplána" 7 vikur í borginni, en mig langar rosalega að benda þér á Ljósið það er ynedislegur staður í alla staði og er bara svona félagsmiðstöð fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra, þarna er fullt við að vera auk þessa sem alltaf er hægt að koma þarna til þess eins að fá sér kaffibolla og hitta annað fólk, þú getur skoðað þessi samtök á netinu en þetta hefur alveg fullkomlega bjargað minni dvöl í borginni.
en sendi á þig baráttukveðjur kv. Kristrún

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Vildi að ég gæti verið með þér í Reykjavík mamma mín.

Íris sagði...

Gangi þér vel með þennan kafla og þú verður bara að láta fólk skipuleggja allrahanda kaffiboð og viðburði til að drepa tímann. Ég hef heyrt svo margt gott um Ljósið og vel látið af því, alveg spurning um að prófa að kíkja þangað í kaffisopa eins síðasta ræðukona sagði.

Ragna sagði...

Fyrirsögnin þín segir það allt. "Og áfram skal haldið." Gangi þér vel Guðlaug mín og endilega kíktu á Ljósið, ég heyrði þátt í útvarpinu um daginn þar sem var fjallað um þennan félagsskap og í bakgrunni var mikið hlegið og greinileg glatt á hjalla.
Kær kveðja til ykkar bestimann.