föstudagur, 13. janúar 2012

Að kveldi dagsÞað er gaman að grufla í gömlum myndum, það eru allir eitthvað svo gasalega ungir. Óskiljanlegt. Á þeirri efri var bestimann meðlimur, og þeir voru sko í uniformi og þóttu þrusugóðir. Spiluðu á útihátíðum, og allt. Pan kvintett. Ég er á þeirri neðri ásamt hljómsveitinni Sunnan sjö og Guðlaug! Báðar þessar hljómsveitir voru húsbönd á sínum tíma hér, en í þá daga þótti sjálfsagt og nauðsynlegt að fara á böll. Var búin að syngja töluvert áður en ég flutti austur og fannst mér mikill menningarbragur á ballmenningunni hér. Ég held að frá því að ég flutti hingað hafi alltaf verið starfandi hljómsveitir á staðnum. Lengi lifi Hornafjörður! Af sjálfri mér í dagsins önn er bara allt gott, og hárið vex en er ennþá fyndið. Ég hef aldrei vitað af sveipum hér og þar, og liturinn er eitthvað svo út í bláinn. Lúxusvandamál, og frómt frá sagt held ég að eftirstöðvar hremminga minna séu léttvægar miðað við alvarleika málsins. Ég er farin að kenna og var mér tekið með miklum innileik af mínu fólki. Einn mikill og góður nemandi minn sem er spar á faðmlögin svona yfirleitt gaf mér eitt risa stórt, og lagði höfuð sitt að mér. Þá fannst mér ég vera forréttindadama. --- Kórarnir eru hér allir og ég tek þátt í leit þeirra að góðu sönglífi. Þrátt fyrir allt tek ég lífinu nokkuð rólega og sálin er í góðum gír. Daginn er tekið að lengja og ég þá er ég alltaf svo létt á fæti, eða þannig......langar svo að taka kátínuhopp einn daginn. Hver veit...þar til næst. ---- Ps. Ég elska tæknina þótt ég kunni alls ekkert á hana. Sé mitt fólk daglega á skybe, Eyjólfur les fyrir mig á íslensku og ég sit með "köttinn" í kokinu yfir hvað þeir snúðar eru fallegir. Farið varlega í hálkunni.

7 ummæli:

Frú Sigurbjörg sagði...

Yndislegar myndir! Gott að hárið vex í öllum sínum fjölbreytileika, en betra þykir mér að heyra að sálin er í góðum gír. Kær kveðja til ykkar bróa frá okkur Pétri.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Já þetta eru skemmtilegar myndir. Vildi óska að það væru til fleiri. Áttu ekki svarthvíta mynd af þér syngjandi uppi á sviði í korsilettu eða einhverju slíku sem var sviðsbúningurinn? Eða er ég að bulla. Og ég skal bara segja ykkur, lesendur góðir, að hún mamma, ber "the new do" alveg einstaklega vel:)

Ragna sagði...

Alltaf gaman að fá pistlana þína og mikið er gaman að sjá þessar gömlu myndir. Já þessi gamla góða ballmenning verður líklega ekki endurvakin. Það var borin virðing fyrir þessum hljómsveitum í "den" og þær báru virðingu fyrir gestum sínum. Ég veit ekki hvað á að segja um þetta í dag.
Hárið vex og vorið kemur með hlýju í hjarta og sál.
Kær kveðja til ykkar bestimann.

Lífið í Árborg sagði...

Þessar gömlu myndir eru frábærar, og það er líka frábært að heyra hvernig nemendurnir tóku á móti þér, engin spurning að þeir söknuðu þín. Nú væri gaman að sjá nýjustu hárgreiðsluna, Kær kveðja frá okkur í stóra bláa húsinu.

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegt að sjá svona gamlar myndir og já, ballmenningin var önnur í þá dagana..

Gott að hárið vex og þú nærð líklega í fléttutagl í sumar ;)

Bestu kveðjur úr Sandgerðinni

Íris sagði...

Þessi pistill var eitthvað svo notalegur :) Gott þegar lífið verður eðlilegt á ný, þó svo það megi alltaf deila um hvað er eðlilegt.
Kannski tekur þú bara gleðistökk á skutlunni svona þegar hálkan hverfur :)

Heiða Björk sagði...

Yndislegt að hafa "köttinn" í hálsinum yfir fallegum börnum.. Ég vona að þú komist sem fyrst yfir að knúsa krílin