laugardagur, 8. desember 2012

Aldur?

Mér finnst gott að fara svona eins og einn blogghring áður en ég skríð í bólið. Gaman að fylgjast með hvað fólk er að bardúsa án þess að nokkur forvitni sé í gangi. Netið er jú alnet.  Fyrir alla ekki satt? Las á hring mínum um netheima áðan stadus frá yndislegum "gömlum" nemanda mínum hvar hún sagðist hafa þurft að sýna skilríki í ÁTVR. Í þessu tilviki myndi ég segja að það væri hrós, og vera glöð með það. Á ferð okkar bestimanns til Svanfríðar minnar í sumar  þá fengum við okkur í gogginn á JFK flugvelli. Við vorum með sitt hvora samlokuna, ég með bjór en bestimann með kók. Þegar þjónninn kom með drykkina bað hann mig um skilríki:)  Eftir þriðjastigs yfirheyrslu hjá Ameríkönunum á mér við komuna til landsins þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að fíflast og fara að hlæja. "Ég er 61. árs" sagði ég sisona, og brosti undurblítt. Neibb....passann takk sagði sá ungi maður graf-alvarlegur. Mér var ekki hlátur í hug og langaði helst að segja honum að hella þessu andsk....öli í vaskinn, sýndi passann en naut ölsins alls ekki. Asnalegar reglur sem fáir skilja. Hvernig skyldi þetta fara fram í Arabalöndum? en segi eins og konan: Hvað veit ég? --- Nú hefur bæst við jólasveinadýrðina hér á Hólabrautinni, og er ég eins og lítil stelpa í dúkkuleik. Ein elskuleg bloggvinkona er nýkomin heim úr heljarinnar mikilli ferð út í hinn stóra heim. Hvað gerðist? hún sá jólasvein (altso styttu) sem henni fannst passa við mig, keypti hann og nú trónir hann í heiðurssessi. (Hvað eru mörg ess í því?) Aðventan er yndisleg, ég er meyr, sakna litlu fjölskyldunnar í stóra bláa húsinu, ég spila rassinn úr buxunum, syng og spila jólalög með nemendum, baka alveg fullt af kökum sem þykja alveg hryllilega óhollar og nýt alls þess sem lífið færir mér þar til næst. Og farið svo vel með ykkur.

4 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Yndislegt af henni að senda þér sveininn. Manni þykir svo vænt um svona hluti.

Ragna sagði...

Ha,ha Góð sagan um bjórinn i Ameríkunni a.m.k.svona eftir á. Auðvitað er þetta alveg fáránlegt og virðist ekki þjóna öðrum tilgangi en að angra fólk.
Mikið var elskulegt af henni bloggvinkonu okkar að senda þér sveininn í safnið. Hann er líklega bara svona rétt farinn að kynnast hinum sveinkunum í safninu enda mjög langt að kominn.
Líði ykkur vel. Kær kveðja.

Íris sagði...

Asskoti lítur þú unglega út mín kæra ;) Óska ykkur gleði á jólum og farsældar á nýju ári.

Frú Sigurbjörg sagði...

Ég sver við alla 13 jólasveinana að þessi kallaði á okkur yfir ganginn Gulla! Lásum annars "Fátt er svo með öllu illt..." færsluna þína kvöldinu áður en við lögðum upp í ferðina sem dró okkur að sveinkanum, við vorum bæði greinilega með þig í hugarfylgsninu eftir lesturinn því báðum datt okkur í hug að þessi sveinki ætti heima hjá þér þegar við komum auga á hann. Vonum að þið njótið með heimsins bestu kveðjum :-)