sunnudagur, 2. desember 2012

"Að gláta bala pínulítið"

1. sunnudagur í aðventu, og þá hefst biðin og jafnvel "gláturinn". Þetta með "glátinn" er svolítið sætt. Þegar bestimann var pínupons var stóra systir að passa hann. Foreldrarnir skruppu aðeins frá, og stóra systir alveg manneskja að sjá um snáðann. Alltaf verið mikil til allra dásemdarverka. Bestimann fór að gráta og stóra systir tók hann og ruggaði honum. Þið vitið, svona fram og til baka í fanginu, sussaði og söng. Alltaf grét snáðinn meir og meir, og þetta voru orðin hálfgerð vandræði. Þegar foreldrarnir komu heim sat hún sveitt með þann litla og ruggaði og ruggaði. Aðspurð hvort hann væri búinn að gráta mikið var svarið þetta: Ekki gláta mikið, bala svolítið. Málið var að hún sat upp við vegg og hausinn á mínum bestamanni skall alltaf í vegginn við hvert rugg! Núna er þetta haft að orði þegar syrtir í álinn eða menn eru daprir. "Ætla ekki að gláta mikið" Á aðventunni á ég það til að gráta við hin ýmsu tækifæri, en það er nú ekki mikið né merkilegt...bara svona vellíðunargrátur þar sem maður saknar þeirra sem ekki eru hjá manni. Sorglegra er það nú ekki. ----Búin að spila "dinner", á gömludansaballi og við tendrun jólaljósa á bæjartrénu, og spilaði ásamt öðrum fjórhent jólalög á jólamarkaði okkar Hafnarbúa. Þetta er bara skemmtilegt, og í gærkvöldi dundaði ég mér við að setja upp nokkra af sveinkunum mínum.Ég var eins og smástelpa í bleikri dúkkubúð þegar ég sá ofaní kassann....jebb... og Jesú og María eru komin á nótnaskápinn og flotti flygillinn sem spilar eitthvað fínt er kominn á sinn stað. Mikið hvað maður getur verið mikill labbakútur.--- Finnst ykkur ekki neðsta myndin töff?. það finnst mér, og farið vel með ykkur  þar til næst.     Ps. ég á miklu fleiri sveina...nananabúbú!

6 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég hló upphátt við "ekki gláta" söguna. Var búin að steingleyma henni. Ég hló svo mikið að ég fór að gláta smá-nei djók. Þetta var skemmtilegt blogg. Elska ykkur.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég hló upphátt við "ekki gláta" söguna. Var búin að steingleyma henni. Ég hló svo mikið að ég fór að gláta smá-nei djók. Þetta var skemmtilegt blogg. Elska ykkur.

Íris sagði...

Ég glotti yfir ekki gláta sögunni, ekki annað hægt. Fínir sveinarnir þínir og neðsta myndin er töff. Já, þetta með grátinn á aðventunni. Ég er að upplifa það að vera með algjörlega ofvirka tárakirtla...ekki af sorg, en kannski pínu söknuðu, væntumþykju, ást,stolti og hamingju. Jebb reikna með votum hvörmum og kinnum út desember ;) Njóttu aðventunnar.

Frú Sigurbjörg sagði...

Kostuleg sagan af Brósa og systur hans. Njóttu þess að vera tilfinningarík Gulla mín, það er gott.

Lífið í Árborg sagði...

Það er bara gott að gráta og enginn ætti að skammast sín fyrir það. Mér finnst líka spennandi að taka upp úr jólakassanum og margt sem kemur mér á óvart þar, aftur og aftur. Skemmtilega jólamyndirnar hjá þér. Bestu kveðjur frá Palla og mér.

Ragna sagði...

Líkaminn veit hvers hann þarfnast og til þess að láta ekki tilfinningarnar verða svo miklar að þær séu við það að buga mann þá grípur hann til grátsins til þess að koma á jafnvægi aftur. Frábært hvernig er fyrir öllu hugsað.
En að jólasveinunum þínum - hann er alveg rosalega myndarlegur þessi á neðstu myndinni þó allir séu þeir nú flottir.
Kær kveðja til ykkar Bróa.