laugardagur, 5. október 2013

Já lífið.....



...er gott,  og mikið gott. Síðan síðast hef ég fengið brautskráningu frá kr.meins.skurðlækninum mínum og hinn gaf mér góða skoðun og þarf ekki að koma aftur fyrr en eftir 6 mánuði.  Efsta myndin er svolítið skemmtileg. Eftir brjóstnámið dvöldum við bestimann á sjúkrahótelinu í góðri umönnum og mikilli hlýju.Ég átti að æfa mig á að "ganga" upp vegg til að ná góðri teygju á handlegginn. Déskolli sárt. Alltaf þegar við höfum þurft að "ganga til lækna" (þið munið, Guðrún frá Lundi!) þá gistum við á téðu hóteli og mjög gjarnan í sama herberginu. Meðal annars var það mitt verelsi í fimm vikur meðan á geislum stóð. Bestimann setti lítið blýantsstrik í upphafinu, og sést það enn, allavega sjáum við það. Á myndinni sést hversu mikilli teygju ég hef náð, og á samt töluvert eftir .Hef alltaf getað spilað,  sú hreyfing tapaðist aldrei, (svona út og suður hreyfing)  en ég á erfiðara með að hengja upp þvott, og þar kemur bestimann oft sterkt inn! Síðan síðast:--- Bestimann vaknaði MJÖG snemma daginn eftir góða skoðun frúarinnar og datt þá í hug að skoða bílakaup, og jafnvel að kaupa einn slíkan. Skemmst er frá að segja að bíll var keyptur....algjör drossía! Við þennan fína bíl gat frúin varla látið sig sjást á komandi jazz og dixilandtónleikum öðruvísi en í nýjum kjól. Til að gera langa sögu stutta: Það er lítil yndisleg búð á Njálsgötu 62 sem selur það sem drottningar þurfa, og það fyrir mjög sanngjarnt verð. Þangað fer ég svo sannarlega aftur og mæli með búðinni. --- Síðan síðast: --- Afmælistónleikar og ball....sungið og spilað og ágóðinn rann til Krabbameinsfélags suð-austurlands. Alveg fullt af "pjéningum" sem Hornfirðingar gáfu af heilum hug í viðbót við þá skemmtun sem sóst var eftir. --Alveg magnað hvað samstaða fólks getur náð langt. Bestimann var í denn tid....sko fyrir heilum 49 árum í hljómsveit, Pan kvintett sem spiluðu víða og voru að mér skilst déskolli góðir. Fyrir mína tíð. Áttu búninga og æfðu grimmt. Flottir gæjar. Nú komu þeir saman aftur og hafa bara orðið betri með árunum ef eitthvað er. Fyrir 49 árum voru þeir kornungir og kunnu lítið fyrir sér, en allir músíkalskir og höfðu stóra drauma sem þeir létu rætast. Allar götur síðan hafa þeir verið viðriðnir tónlist hver í sínu lagi og stundum saman og hafa nú reynslu, grátt hár og yfirvegun.--- Síðan síðast ákváðum við bestimann að skreppa aftur norður á Vopnafjörð á næstunni og taka þátt í söng og gleði með heimamönnum. Ég er veðurskræfa og bið því um gott veður í öðrum skilningi en svo oft áður. Því skyldi það ekki ganga upp núna eins og fyrr?  Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.

4 ummæli:

Ragna sagði...

Þú ert nú meiri skvísan Gulla mín - yngist með hverjum degi sýnist mér og klifrar nú svona langt upp á vegg. Þú endar líklega eins og köngulóarmaðurinn og þarft ekki lengur nota stigana í Ármúlanum.
Gott að ferðin heim gekk vel og góða ferð í gleðina á Vopnafirði. Í sambandi við veðurhræðslu þá er ég líklega hræðslupúkasystir þín.
Hjartans kveðja í fjörðinn fagra til ykkar Bróa.

Lífið í Árborg sagði...

Ég óska ykkur hjartanlega til hamingju með þetta allt saman, skoðunina, teygjuna, bílinn og skvísufötin, það er ekki lítið sem þið hafið til að gleðjast yfir. Ég samgleðst ykkur innilega. Bestu kveðjur úr stóra bláa húsinu.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Svo flott!!!

Íris sagði...

Þessa færslu var yndislegt að lesa. Full af hamingju, gleði og jákvæðni. Til hamingju með útskriftina :)