föstudagur, 25. apríl 2014

Fjörutíu ár og hananú


Gleðilegt sumar þið þarna úti og takk fyrir veturinn. Nú  er enn einn að baki, og leið hann í sjálfu sér mjög hratt þegar litið er í baksýnisspegilinn. Þessi baksýnisspegill er dálítið magnaður. Fyrir rétt rúmum 40 árum flutti ég á Höfn og hér hefur mér liðið vel. Þá var hér nýstofnaður karlakór, karlakórinn Jökull. Frumkvöðlarnir voru stórhuga og kór skyldi stofna. Þáverandi stjórnandi sá um það sem til þurfti og var vel lipur á píanóið. Eg þá kemur bestimann til sögunnar, og  kórnum til uppdráttar! Bestimann fór suður, féll fyrir ungri konu og flutti hana inn! Fyrir það þakkaði fyrrverandi yfirvald hér honum ævinlega fyrir.  Ég semsagt byrjaði sem undirleikari Jökuls fyrir nákvæmlega 40 árum. Ég var bara 23ja ára og kunni ósköp lítið inná þetta alltsaman. Hafði þó alla tíð sungið í kórum og stundað tónlistarnám. Fyrsta lagið sem ég spilaði með Jökli var Íslands hrafnistumenn, og síðan bættust þau við eitt af öðru, og nú er svo komið að ég á fullar hirslur af karlakórsnótum, og margar handskrifaðar af mér meiri meisturum. Þegar ég var yngri leit ég óskaplega upp til undirleikara þess tíma og fannst þeir alltaf hafa verið til og yrðu örugglega alltaf til staðar. Nú er svo komið að ég er orðin ein af þeim, og alltaf með sama kórnum. Yngsti söngmaður Jökuls er fæddur eftir 1990. Þetta er skrítið, því tíminn hefur liðið hraðar en 40 árin segja til um. Tvenna tónleika utan héraðs á þessum árum hef ég ekki spilað: Dóttla mín var á leið í heiminn, og var í hnjáaðgerð  hitt skiptið. --- Dóttlan ólst upp með karlakórinn sér við hlið eins og svo mörg önnur börn hér á staðnum. Flottasta lag sem Svanfríður mín heyrði 5 ára gömul var Brennið þið vitar.....með KARLAKÓR RVÍK:! Hef löngu fyrirgefið henni það, því KRingar eru flottir. Allavega, Jökull lifir enn og ég lifi með honum eitthvað áfram, en ég yrði bara glöð ef einhver 23ja ára kæmi og bæði um pláss þar til næst.

3 ummæli:

Ragna sagði...

Vel af sér vikið hjá ykkur báðum, hjá Bestimann fyrir að sækja svona eðal kvonfang og koma með það til heimabyggðar sinnar og hjá þér að hafa í 40 ár verið undirleikari og margt fleira hjá karlakórnum ykkar.
Ég óska ykkur til hamingju með tímamótin.
Þú ert mikil hetja Gulla mín að hafa ekki látið neitt stoppa þig.
Kær kveðja til ykkar í fjörðinn fagra.

Íris sagði...

Yndisleg lesning. Fyrir mér eru Karlakórinn Jökull og Guðlaug Hestnes eitt :)

Íris sagði...

Yndisleg lesning. Fyrir mér eru Karlakórinn Jökull og Guðlaug Hestnes eitt :)