miðvikudagur, 18. júlí 2007

Út um mýrar og móa....

syngur mjúkrödduð lóa...--- Spóinn er þarna líka því nú iðar allt af fuglalífi. Nóttin er björt og B manneskjan á langlokuskónum! Á þessum há-bjargræðistíma er allt svo bjart og gott. ---Eitt er það sem ég hef aldrei vanist á er að horfa mikið á sjónvarp, og allra síst á þessum tíma. Gerði þó heiðarlega tilraun í nokkur skipti nú á dögunum, en ekki varð ég nú uppnumin. Allar þessar auglýsingar gera mig hálfarga. Lu-skrækjandi stelpur, óléttur karlmaður að bíða eftir boltanum, bl(a)ka Vanisssssið sem tekur burt bl(a)ttina og ofaní kaupið eru svo þessar "dásamlegu" dressman auglýsingar, þar sem ég get sko valið minn eigin dressman! Ég er búin að horfa með öðru hvernig hægt er að læra að taka til í húsinu, velja bestu dansarana, bestu fyrirsæturnar, gera "upp" annars falleg andlit og keppni í öllum andsk...... og ég gæti haldið áfram. Læt hér þó staðar numið. ---Fyrir helgi komu til okkar góðir gestir, tveir spánskir herramenn. Annar er atvinnuljósmyndari en hinn er mikill áhugamaður um ljósmyndun, og fóru þeir hringinn til að taka myndir. Þetta er í annað skiptið sem þeir koma til okkar, og eru uppnumdir af landinu. Á föstudagskvöldið þegar þeir fóru yfir þær 400 myndir sem þeir höfðu tekið þann daginn sáu þeir að einn ísinn við Jökulsárlónið hafði ekki komið nægilega vel út. Nú voru góð ráð dýr. Morguninn eftir skruppu þeir því vestur að lóni, tóku myndir og drifu sig síðan austur á land! Ég vona svo innilega að þessi tiltekni jaki hafi ekki verið farinn. Fjandakornið að maður sjálfur hefði nennt þessu í öðru landi, en það er gaman hvað þeir eru hrifnir af landi og þjóð.---Það eina sem var Spánverjunum mínum örlítið til trafala var blessuð sólin, en eftir viku ætlum við hjónin að fara til Spánar og láta hana gæla við letigenin í okkur. Þá skal legið og lesið, spáð og spekúlerað. Á kvöldin ætla ég að njóta þess að sitja úti og horfa á heitt myrkrið og hlusta á stjörnurnar. Þegar Svanfríður dóttir okkar var að ferðast með okkur í útlöndum sem lítil stelpa horfði hún oft upp í dimman himininn og sagði angurvær og blíð: Heyrið þið ekki í stjörnunum? Hljóðið sem hún heyrði var í bjöllum og öðrum skordýrum, en í dag segi ég og skrifa, við heyrum í stjörnunum! Útskýringar hjá börnum eru svo einfaldar og flottar að við eigum að reyna að hugsa stundum eins og þau.-- Fyrir svefninn ætla ég með bókina mína út í rósaskála og finna ilminn á meðan ég les, þá hlýtur að síga á mig höfgi. Á blaðsíðu 165 í þessari frómu bók stendur orðrétt. Stysta setning sem inniheldur alla stafi íslenska stafrófsins er: "Kæmi ný öxi hér ykist þjófum nú bæði víl og ádrepa". Ástkæra ylhýra kveður.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ahhh, væri til í Spán.

Auglýsingabransinn er sá veruleikafyrrtasti (langt orð) sem til er.

Svo af því að ég er ég...þá verð ég að segja:

"Út um mela og móa..."

Þú ert samt æðis!!!

Kv,
B

Nafnlaus sagði...

Komdu bara Birta mín á Spán eins og í gamla daga. Svona söng dóttir mín "Út um" og einnig "innan við tónínur tónínur gómum við há"

Ameríkufari segir fréttir sagði...

það getur ekki verið að ég hafi sungið lögin svona því ég fer aldrei með fleipur! En manstu ekki Birta þegar við vorum heima á Hlíðartúninu að syngja við píanóið? Það eru til myndir af okkur,13 ára og afskaplega flottar:)
En mamma, hvað í ósköpunum ertu að lesa?

Nafnlaus sagði...

Fánýtan fróðleik! Bókin inniheldur allar þær gagnlausu upplýsingar sem við þurfum á að halda!

Nafnlaus sagði...

Man margt skemmtilegt úr ferðinni á Höfn, og líka Spánarferðinni.

Man helst eftir.

-BP
-Lifraklöttunum
-Bátsferðinni
-Sundferðinni
-Söngnum
-Handahlaupunuum
-Svartur og hvítur brjóstsykur, sem ég vissi ekki að hétu "haltukjafti"
-Svanfríður að snúa sér í kringum ljósastau að syngja "Röndótta mahæææær"

Svo auðvitað man ég miklu meira úr Spánarferðinni.

Knús,
B

Nafnlaus sagði...

mér finnst þetta fróðlegur fánýtur fróðleikur;)