þriðjudagur, 18. september 2007
Eitt spor fram fyrir ekkjumann!
Titill þessa pistils var leikur sem ég þekkti sem barn, en er búin að gleyma.( Gaman væri ef einhver gæti rifjað hann upp). Er þó hálfpartinn í þeim leik þessa dagana, held ég. Allavega geng ég afar hægt um húsið mitt, tel sporin milli herbergja og veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Þess vegna geng ég bara á fjórum! Takk fyrir góðar kveðjur, ég er semsagt komin heim og er í fullri vinnu við að láta mér batna. Að mörgu leyti er ég ofvirk og hef gaman af dagsins amstri, svo nú um stundir er Bleik hálfbrugðið, en á móti kemur geysilegt "jafnaðargeð" sem er algjör nauðsyn. Nú leggst ég í orðsins fyllstu merkingu í lestur. Finnst verst að hér um árið las ég í einni beit alla titlana hennar Guðrúnar frá Lundi, a.m.k. 39 að tölu, og þar á eftir Arnald, Lísu Marklund og marga fleiri. Ég hefði betur geymt mér alla sveitarómantíkina hennar Guðrúnar þar til nú. Guðrún var nú ekki talin hátt skrifaður rithöfundur á sínum tíma, þó var hún "best seller" þótt enginn vildi viðurkenna að hafa lesið hana! Í dag er Guðrún lesin ofan í kjölinn af bókmenntafræðingum og skrifaðar eru um hana ritgerðir. --Bara góð með allan sinn uppáhelling, kjaftasögur og kleinubakstur, en fræðin skemma engan. -- Eiginmaðurinn fór í dag í bókasafnið og kom með margar bækur sem ég er að moða úr. Þær eru úr öllum áttum, en ég er búin með ævisögu Goldu Meir, og eftir lestur hennar er ég eins og jójó um málefni Mið-austurlanda. En maður þarf svosem ekki að skilja allt og geta krufið það til mergjar, en kerla hefur verið mikilmenni á margan hátt. -Þar sem ég þarf að dudda mér heima við um tíma verð ég að hafa eitthvað huggulegt fyrir stafni, svo þið þarna úti, komið nú með uppástungur að góðum bókum, en ekki sjálfhjálparbókum!--- Ég held ég ráði við þann part, og ekki stinga uppá að ég taki fram prjónana. Syngibjörg er í þeim geiranum! Krossgátur og "scrabbl" eru alltaf við hendina, svo og Lifandi vísindi: Þar las ég dag furðulega grein þar sem læknirinn mælir með tóbaksreyk til lífgunar! (að vísu frá árinu 1774) Fýsibelgur var fylltur af tóbaksreyk sem síðan var blásið inn í afturendann á þeim sem drukknuðu í ánni Thames. Dygði það ekki til átti að reyna að blása hinum heilsusamlega reyk í gegnum nefið á þeim drukknaða og niður í lungun! Svo mörg voru þau orð.-- Dugleg að kíkja í kaffi elskurnar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
11 ummæli:
Sko mamma, ég er með fullt af hugmyndum sem þú getur gert upp í rúmi og EKKERT af því er dónó:) Þú getur lesið (ég veit þú gerir það), þú getur ráðið krossgátur(sömuleiðis gerir þú það áreiðanlega), þú getur tekið upp bútasaum (það er ekki prjónaskapur), þú getur byrjað á ævisögunni...nei, heyrðu-ég veit og mér er alvara; afhverju byrjarðu ekki að fylla út í ömmu og afa bókina sem ég gaf þér þegar ég var heima með Eyjólf áður en við fluttum út? Hún er brún og síðast þegar ég vissi þá var hún á bekknum inni í þvottahúsi. Það væri ekki slæmt.
láttu þér líða vel, luj jú, Svanfríður
Svanfríður EYGLÓ! Bútasaumur!! er ekki allt í lagi heima hjá þér??? Mér líst vel á ömmu og afa bókina, það er komið þó nokkuð í hana nú þegar.Luv jú too. Mamma
Ég man eftir einhverjum svo leik frá því í "gamla daga" en held að hann hafi heitið "Eitt par fram fyrir ekkjumann" þá var þátttakendum raðað tveimur og tveimur saman í röð, einn þátttakandi stóð fremstur og var ekkjumaðurinn, þá gengu þeir öftustu fram sitt hvoru megin við röðina og ekkjumaðurinn sem stóð fremstur reyndi að ná í þann sem var af gagnstæðu kyni, ef það tókst fór hann fremst í röðina ásamt sínum "maka" en sá sem varð makalaus stóð nú fremst og reyndi að ná sér í maka þegar næsta par hljóp fram. Ég er ekki alveg viss um að þetta sé rétt hjá mér, en eitthvað í þessa áttina var það. Þetta var mjög góð hreyfing, hollara en að sitja við tölvurnar eins og mörg börn gera núna.
Ég óska þér góðs bata og hellings af bókum og verkefnum til að nota tímann sem þú verður heima.
Þórunn
Hahahahha. Fegin er ég að hafa ekki drukknað í Thames ánni.
Herbjörg Vassmo, er norskur rithöfundur. Hún er í miklum metum hjá móður minni. 3 bækur eru þýddar á íslensku, en sækistu eftir fleirum , verður þú að klóra þig í gegnum dönsku og/eða norsku.
Góðan bata,
B
ég hef víst svo furðulegan bókmenntasmekk, en hlýt þó að geta mælt með Karitas eftir Kristínu Marju B. - hefur þú lesið hana?
hún er mjög löng og afksaplega góð. fannst mér.
óska þér góðs bata:)
Baun, hef lesið Karitas,Birta, er búin að fá þessar þrjár eftir þá norsku. Nú er bara að skvera sig í lesturinn. Gulla
Vona að þú náir heilsunni sem fyrst, sé að aðrir hafa gefið þér þær hugmyndir sem mér datt í hug.
Vona að þér leiðist ekkií rúminu:O)
Þórunn er glögg að muna þennan leik. Ég varð hinsvegar að kíkja í bók sem ég keypti til að hafa fyrir barnabörnin en hún heitir 100 skemmtilegir leikir fyrir krakka á öllum aldri. Það er gaman að rifja upp ýmislegt gamalt og gott í þessari bók.
Ég vona að þú náir fljótt góðum bata og hafir nóg af lesefni í kringum þig á meðan þú vinnur að því.
Kær kveðja,
Ég væri til í að eiga þessa bók sem þú talar um, Ragna.
Sæl Guðlau, takk fyrir góðar kveðjur á síðunni minni. Þú berð fram spurningu sem er sjálfsagt að svara en það væri ágætt ef þú sendir mér netfangið þitt þá skal ég skrifa þér í góðu tómi. Það er gaman að eiga svona draum eins og þú og ennþá skemmtilegra ef hægt er að láta hann rætast. Netfangið mitt er thorunn.gudna@gmail.com
Þórunn
Ég sé að Þórunn er búin að svara, annars ætlaði ég að bjóða þér að skreppa á Selfoss og hitta þau hjón en þau ætla að koma í heimsókn líklega kringum næstu helgi. Áttu ekkert ferð til læknis eða eitthvað svoleiðis þannig að Selfoss sé í leiðinni eða bara koma í heimsókn án þess að Selfoss sé í leiðinni. Alltaf velkomin.
Kær kveðja,
Skrifa ummæli