þriðjudagur, 11. desember 2007

Stekkjastaur kom fyrstur...

Og þá varð allt vitlaust í kotinu, að vísu fyrir margt löngu. Sumsé, dóttirin var skelfingu lostin þegar minnst var á jólasveinana. Fyrir flest börn eru þetta dagar gleði með spennuívafi, en spennan hér á bæ var yfirþyrmandi og skyggði á alla gleðina. Allt kom fyrir ekki, skórinn var á fleygiferð um húsið því ekki ætlaði hnátan að eiga það yfir höfði sér að sjá til sveinka. Um 6 ára aldurinn gáfust allir upp á að tjónka við ástandið, og því fór sem fór. Sveinki setti mjög sjaldan í skóinn, en stundum læddist eitthvað góðgæti í skó mömmunnar sem var í glugga hjónherbergisins, og barst það til dömunnar með ýmsum krókaleiðum. Veit ekki hvað olli þessu, en maður þarf svosem ekki að vita allt og kryfja. Nú fer Stekkjastaur hinsvegar til Ameríku á leið sinni til góðra barna, og vona ég að snúðurinn minn taki vel á móti honum. --Eftir annasama viku og eril í vinnunni finnst mér gott að setjast niður og skrifa mig frá áreitinu...hugurinn tæmist og ég hvílist. Hvað ég skrifa kemur svo bara í ljós...heitir það ekki flæði?..Nú er síðasti spretturinn á öllum vígstöðvum fyrir stóru tónleikana sem verða á sunnudaginn, allir þurfa sitt, en vikan er stundum ekki nógu löng. Þó hefst þetta og allir eru glaðir.--- Ég er glöð, búin að fá jólaljósin upp, þökk sé mínum betri helmingi. Bærinn minn er fallega skreyttur og vildi ég óska að Kári léti vera að feykja öllu til og frá. Ég er mjög vanaföst kona í víðasta skilningi, og smekkur minn er einfaldur. T.d. vil ég hafa allt rautt á jólum, kann ekki á "tískuna". Þó var það svo að ég sá í Reykjavík s.l. janúar yndislegt jólahús með ljósum í. Það var svo fallegt, og ekki skemmdi fyrir helmings afsláttur á dýrðinni. Kassinn var svo settur út í bílskúr við heimkomu. Fyrir stuttu þrábað ég svo betri helminginn að sækja húsið því nú væri sko komið að því að setja það upp. Var búin að finna stað þar sem það nyti sín og hlakkaði mikið til. Bóndinn sótti svo kassann í byrjun aðventu, og sjá......það var ekki hús! Það sem kom uppúr kassafja...... var frelsarinn og öll hans familía + kindur og hirðingjar, allt með blikkandi ljósum og trjágrein uppúr strompinum. Minn elskulegi segir tréð vera í bakgarðinum...en hvernig á ég að átta mig á staðháttum mjög gamallar sögu? Nú voru góð ráð dýr, (ok. þetta var ódýrt) setja upp eður ei? Núna er þetta á nótnaskápnum fyrir allra augum og mér er farið að þykja vænt um "dýrðina". Ætla alltaf að hafa þetta listaverk í öndvegi á jólum héðan í frá, því það hafa mörg orð fallið um dásemdina. Passa mig bara betur næst hvað ég er að kaupa. ---Semsagt, Stekkjastaur kemur í nótt, bæði hingað og til Ameríku. ---Það vona ég að við fáum öll frið og gleði í skóinn í nótt.--- Sofið vært---

8 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Góða nótt elsku mamma mín og láttu ekki Stekkjastaur hræða þig, hann er hið vænsta skinn sem og allir hans bræður.:)
luf jú,Svanfríður

Nafnlaus sagði...

Glimmer og glans á jólum.

Vertu fegin að húsið var ekki svart - var það ekki tískuliturinn í fyrra ?

... fyrir fáum árum var jólaliturinn bleikur - þá varð mér um og ó :)

Nafnlaus sagði...

Mikið fannst mér þetta skemmtilegt flæði hjá þér, Guðlaug mín. Fjárhúsið með hinni helgu fjölskyldu er hér í hverju húsi og enn stærri útgáfa við hverja kirkju já og jafnvel slökkvuliðið í mínum bæ setur einn bílinn út á götu til að gera stórt fjárhús í stæðinu hans. Hver veit nema einhver þeirra jólabræðra komi á næstunni með lítinn engil handa þér. Bíðum og sjáum hvað gerist.

Kveðja úr kotinu í Portúgal,
Þórunn

Nafnlaus sagði...

alma litla yrði mikið ánægð að fá að sjá "baby jesus, ´cause he is so cute" hún hefur verið að biðja um fjárhúsin, með öllu. hún tók þátt í sínu fyrsta leikriti á sunnudaginn og þar var hún einn hirðirinn, svo þetta stendur henni nærri þessa daganna. þó svo að íslensku sveinarnir nenni alla leið í cary, þá sleppa þeir því að koma til okkar, jólasveinninn ég, gafst upp á margfeldni og fjöl-sögum endalaust....og við látum þann ameríska duga...
verð bæta við langloku mína að ég var ekki mikið hrædd við sveinana er ég reyndi í sífellu að gabba þá með því að setja alla mína skó í gluggann....

Nafnlaus sagði...

Þarna tel ég að Guðleg forsjón hafi verið á ferðinni sem hefur viljað að þú hefðir frelsarann og alla hans family fyrir augunum um jól í staðinn fyrir eitthvert ljósapjátur. Svona er nú lífið Guðlaug mín kær. En það máttu vita að ég skellihló þegar ég las um jólahúsið þitt. Svona er nú innrætið.
Kær kveðja,

Nafnlaus sagði...

Það vantaði nafnið mitt undir kveðjuna, en það kemur orðið oft fyrir að það skilar sér ekki. Einhver klaufaskapur hjá mér.
Ragna.

Nafnlaus sagði...

ein af mínum fyrstu minningum er einmitt hroðalegt hræðslukast yfir því að sjá jólasveininn, en hann bankaði bara uppá hjá okkur. trylltist úr hræðslu við að sjá hann.

er ekki eins hrædd núna við rauðklæddu kallana..

Syngibjörg sagði...

Gangi þér vel með tónleikana og jólastússið.Og er það ekki dæmigert að þegar maður heldur að maður sé að gerá góð kaup þá reyndist eitthvað annað vera í kassanum en maður taldi sig vera að kaupa.Allaveg er ég mjög dugleg að lenda í slíkum aðstæðum. Kannski ég ætti að reiða mig frekar á sveinka og setja skóinn út í glugga?