miðvikudagur, 5. desember 2007

Ja hérna....

Enn ein vika liðin, og aðventan gengin í garð. Oft óska ég þess að geta bloggað "smá" á hverjum degi, stutt og laggott eins og margir gera með miklum ágætum. Allavega fer ég minn reglulega rúnt á hverjum degi og ætlast til að geta lesið nýtt blogg í hvert skipti. Þeir sem svala minni þörf eiga þakkir skildar, en hvað geri ég svo...kem með langloku einu sinni í viku. Mér er sagt að umferðin á síðuna sé góð, ekki hef ég vit á því, en mér þykir vænt um kommentin. Takk takk. Síðan síðast hefur erillinn verið nokkur, en þó eru randalínurnar, brúnar og hvítar komnar í brúkun, nokkur jólaljós hafa verið sett upp og fríkvöldið í kvöld skilaði dágóðum árangri. Er því í góðum málum...(eins og ég sé ekki alltaf í þeim!) Ein góð bloggvinkona vestur á fjörðum taldi sig hafa farið á nokk rólegan stað vinnulega séð, en sjá...fjörið hjá tónlistarfólki hvar sem er á landinu á þessum árstíma er oft ansi skrautlegt, og hvað þá á litlum stöðum þar sem tiltölulega fáir tónlistarmenn eru.---Ég segi oft, Rudolf hér, Rudolf þar og Rudolf allsstaðar. Þetta er gott og gefur lífinu gildi. Einu hef ég verið að velta fyrir mér.... Hvernig líta bloggvinir út? Suma hef ég hitt en geri mér upp hvernig hinir líta út. Skyldu skrif segja til um hvernig maður er?--- Pæling sem vert er að skoða.--- Ég til dæmis skrifa langlokur, enda 1.80 á hæð! Sá sem skrifar stuttan texta, er hann þá lágur vexti? Æ, þegar stórt er spurt verður lítið um svör...eða er einhver þarna úti sem les í svona hluti? Sumir lesa í skrift, (ekki tölvugerða) í lófa, í augnaráðið og limaburð. ---Lát heyra.---Í samtali í kvöld við dótturina í Ameríku áttaði ég mig á því að við hittumst í NÆSTA mánuði. Ég er sífellt að klifa á því að tíminn sé svo fljótur að líða, en ég er næstum viss um að hann silast áfram frá áramótum til 31. janúar! En núna þýtur hann sem eldur í sinu. Með þeim orðum kveð ég alla þá sem kíkja í kaffi.--Ég á meððí!---

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

svanfríður ritar langlokur og er löng, ég rita langlokur og er ekki mikið styttri....svo kannski það sé eitthvað til í því...
bakstur mun hefjast hjá mér í næstu viku, kom meira segja með rabbabarasultu með mér út til að setja í mína brúnu lagtertu. það verður einfaldur bakstur hjá mér í ár, ég mun baka blúndur, þá brúnu og kaupi svo kryddsmákökur í ikea, og set á milli tveggja hvítt krem og kalla þær mömmukökur, punktur!
hlakka til að sjá ykkur um þorrann

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég hlakka líka til að sjá ykkur um þorrann:-) get ekki beðið...á bara eftir að fara 2 á þú veist og þá eruð þið komin!
Ég ætla auðvitað að baka brúna með hvítu og ég veit að öllum hér hlakkar mikið til að smakka-ég ætla meira að segja að leyfa Natta að fá smá smakk.
Hafðu það gott, luf jú,Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

Ég kíki alltaf reglulega í kaffi. Ég rita nú engar langlokur þó ég sé líka 180cm - enda snýst lífið mitt eingöngu um sístækkandi bumbu þessa dagana og takmarkað hvað fólk nennir að lesa um grindarlos og krílaspörk :)

Sendi snemmbúnar jólakveðjur austur á bóginn.
Lovísa Gunnarsd.

Nafnlaus sagði...

Oh Lovísa áttu von á barni!? Gangi þér vel. Gulla

Védís sagði...

Ég er bara 160 cm og skrifa að ég held ekki langlokur.
En mér finnst gaman að lesa þínar langlokur og ekki fara að breyta þeim neitt.

Syngibjörg sagði...

Skemmtileg pæling. Ég er lítil og grönn kona með liðað dökkt(litað hehe) axlarstítt hár.Kannski það segi eitthvað um mín bloggskrif, hver veit.

Egga-la sagði...

Rosalega hlýt ég þá að skifta um stærð reglulega því stundum skrifa ég langt og stundum stutt. Held barasta að það fari eftir skapinu hjá mér. Stundum er ég í stóru skapi og stundum stuttu. Svei mér þá!

Nafnlaus sagði...

Ég er meðal há í vexti, held ég eða um 172 cm á hæð. Stundum skrifa ég löng blogg, stundum stutt. Held það fari eftir andanum í mér hverju sinni.
En endilega haltu áfram þessum pistlum þínum. Hef ekki haft tíma til að lesa undanfarið en hef nú setið við og verið að lesa og haft gaman að.
Innilegar þakkir fyrir kveðjuna sem ég fékk frá þér um daginn. Mamma skilaði kveðju frá þér til mín. Þótti mjög vænt um það.
Bestu aðventukveðjur, Elsa Lára.

Nafnlaus sagði...

170 sm. skrifa stutt. held ég.

mér finnst þetta fyndin pæling.

Álfheiður sagði...

Skemmtileg pæling hjá þér þarna frú Hestnes.
Ég væri nú til í að líta í kaffi og njóta meðlætisins, þá á ég við augliti til auglitis. Kem oft hingað en aldrei á Hólabrautina. Kíki næst þegar ég á leið þarna suður eftir.
Jólaundirbúningskveðjur úr sveitinni!

Nafnlaus sagði...

Halló Hornafjörður, það er aldeilis orðið langt síðan ég hef komið í heimsókn. Það er alltef eitthvað fróðlegt að lesa hér. Mikið held ég að það sé gefandi að starfa svona við tónlist, æfa öldungaraddir frá grunni allt til útgáfu söngsins á diski. Ég er lágvaxin en skrifa stundum langlokur, fróðlegt að rannsaka þetta.
Kveðja frá Kotinu í Portúgal,
Þórunn

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir öll frábæru kommentin þín Guðlaug!

Þú ert frábær og hvetjandi, á meðan ég er lélegasti blogglesari í heimi ... algjörlega sjálfhverf í mínum eigin heimi. Þú og Baunsla mín eruð þær einu sem veitið mér örlítið aðhald og látið mig finna að líf sé með mér :)

En þú ert góður penni og skrifar skemmtilega pistla - haltu þínu striki - eða færðu þig upp á skaftið ;)

Njóttu aðventunnar vinkona!

Nafnlaus sagði...

Loksins er ég komin i heimsókn til þín. Langlokur eða ekki langlokur. Að hittast hérna á veraldarvefnum er aðalatriðið - ekki satt.
Kær kveðja,
Ragna

Nafnlaus sagði...

Ég er svo þreytt að ég get ekki pælt í þessu núna.

Vildi bara kvitta, og þakka fyrir fína sopann.

Kv,
B